Steinunn Inga Óttarsdóttir∙ 7. mars 2022
FJÖRUVERÐLAUNIN VEITT
Í dag voru fjöruverðlaunin afhent í Höfða, Reykjavík.
Af því tilefni var tekin mynd af verðlaunahöfum og birt á vef Fjöruverðlaunanna.
Verðlaunahafar 2021 eru:
Sigrún Helgadóttir fyrir Mynd af manni, ævisögu Sigurðar Þórarinssonar. Sigrún hreppti líka íslensku bókmenntaverðlaunin 2021.
Fjöruverðlaunin voru fyrst afhent vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum; flokki barnabóka, flokki fagurbókmennta og flokki fræðibóka og rita almenns eðlis
Við óskum verðlaunahöfunum hjartanlega til hamingju.
Rökstuðningur dómnefndar
Merking eftir Fríðu Ísberg kallast skýrt á við íslenskan samtíma þó að sagan sé vísindaskáldsaga sem gerist í framtíðinni. Ólíkum persónum er fylgt eftir þar sem sögur þeirra fléttast saman í frásögn sem gefur ekkert eftir í heimspekilegri skoðun sinni á samfélagi okkar. Sagan er frumleg og stíllinn nýskapandi og notkun tungumálsins einkar úthugsuð og áhrifarík og styður við heildstæða persónusköpun verksins.
Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur fjallar um ævi og starf eins merkasta vísindamanns Íslands á 20. öld. Saga Sigurðar er samofin sögu jarðfræðirannsókna, jöklaferða og náttúruverndar á Íslandi. Höfundur fer með lesandann í heillandi ferðalag upp á jökla, í gegnum öskulög og inn í kvikuhólf í fylgd með vísindamanninum, söngvaskáldinu og náttúruverndarsinnanum Sigurði. Bókina prýðir aragrúi mynda sem glæða frásögnina lífi og dýpka skilning á efninu.
Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur fjallar um sögu Reykjavíkur frá því fyrir landnám til vorra daga. Bókin er ríkulega myndskreytt og er hver opna afmörkuð innsýn í sögu borgarinnar. Höfundar draga fram fjölbreyttan fróðleik og gera skil á skemmtilegan hátt í góðu jafnvægi texta og mynda. Texti Margrétar er hnitmiðaður í auðlesnum efnisgreinum og myndir Lindu eru litríkar og bæta ýmsu við. Bókin vekur löngun til að fræðast meira um höfuðborgina.
Í dómnefnd sátu:
Barna- og unglingabókmenntir:
-
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku
-
Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur
-
Hildur Ýr Ísberg, íslensku- og bókmenntafræðingur
Fræðibækur og rit almenns eðlis:
-
Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur
-
Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari
-
Sigrún Helga Lund, tölfræðingur
Fagurbókmenntir:
-
Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur
-
Elín Björk Jóhannsdóttir, bókmenntafræðingur
-
Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur
Hér má lesa um tilnefningarnar í desember sl.
Hér má lesa umfjöllun Steinunnar Ingu um Merkingu eftir Fríðu Ísberg