SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 1. febrúar 2023

ELDARNIR KOMNIR ÚT Á ENSKU

Skáldsaga Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, Eldarnir: Ástin og aðrar hamfarir, sem kom út hjá Benedikt bókaútgáfu 2020, er nú komin út í enskri þýðingu Larizzu Kyzer. Á ensku heitir bókin The Fires: Love & other disasters. Bókinni er lýst sem haglega saminni spennusögu þar sem saman komi vísindalegt og sálfræðilegt sjónarhorn, auk þess sem höfundur vefi landfræðilegum og sögulegum staðreyndum saman við ástar- og hamfarasögu. Áður hefur bókin komið út á rússnesku í þýðingu Olgu Alexandersdóttur Markelova.

Í ritdómi um bókina á Skáld.is sagði meðal annars:

 

Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir er vel skrifuð og mjög áhugaverð bók. Hún er hugvitsamlega byggð og margir þræðir saman fléttaðir af leikni. Sá þráður sögunnar sem er mest heillandi er sá sem tengist eldfjallavirkni og jarðfræði Íslands. Unnendur skáldskapar og náttúru Íslands fá hér mikið fyrir sinn snúð en einnig þeir sem hafa gaman af spennu- og ástarsögum. Það er í raun aðdáunarvert hversu vel Sigríði Hagalín tekst að skrifa sögu sem er rótföst í samtímaveruleika um leið og atburðarásin byggist á fantasíu - sem vonandi verður aldrei að veruleika.

 

Skáld.is óskar Sigríði til hamingju með ensku þýðinguna og væntir þess að bókin eigi eftir að vekja mikla athygli.