SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 4. febrúar 2023

KVIKA TILNEFND TIL BÓKMENNTAVERÐLAUNA Í DUBLIN

Enn halda íslenskar bókmenntir áfram að vekja athygli erlendis. Skáldsaga Þóru Hjörleifsdóttur, Kvika, sem kom út 2019, hefur verið tilnefnd til bókmenntaverðlauna á Írlandi. Kvika kom út á ensku, í þýðingu Meg Matich, með titlinum Magma

Kvika hlaut mjög góða dóma en hér var um fyrstu skáldsögu Þóru að ræða. Í gagnrýni á Skáld.is, sem lesa má hér, var talað um "firna sterkt byrjandaverk". Kvika fjallar um baneitrað ástarsamband, sem brýtur sögukonuna niður smátt og smátt á óhugnanlegan hátt. 

Í  ritdómnum segir meðal annars:

 

Sagan er sögð í stuttum köflum, vel skrifuðum og áhrifaríkum. Frásögnin er hrá og beinskeytt og andrúmsloftið sterkt. Þá dregur frásögnin vel fram hið tvöfalda siðgæði sem ríkir í samskiptum kynjanna þegar kemur að kynlífi. Hann má stunda kynlíf með öllum þeim konum sem honum sýnist en þolir ekki að hún hafi sofið hjá mörgum öðrum, orð eins og drusla og lauslát koma Lilju í hug um sjálfa sig - ekki um hann. En bókin birtir mjög firrt viðhorf gagnvart kynlífi almennt og vonandi sér ekki margt ungt fólk kynlíf tveggja einstaklinga í þessu ljósi: „tveir kjötskrokkar að hnoðast í leit að fullnægingu sem gæti fengið þá til að gleyma í smástund hvað líf þeirra væri innihaldslaust“ (27).

 

Kvika hefur áður vakið athygli erlendis og mælti hin bandaríska Oprah Winfrey meðal annars með bókinni. Skáld.is óskar Þóru til hamingju með tilnefninguna!

 

Tengt efni