JÚLÍA MARGRÉT STÍGUR Á STOKK Á LANDSNÁMSSETRI
Júlía Margrét Einarsdóttir (Kárasonar) fetar nú í fótspor föður sína og gerist sögukona á Landnámssetrinu í Borgarnesi og segir þar af munni fram frásögn byggða á skáldsögu hennar, Guð leitar að Salome, sem kom út 2021 og hlaut góða dóma.
Hægt er að nálgast miða á viðburðinn á Tix.is og þar segir:
Júlía Margrét Einarsdóttir stígur á stokk og segir, á sinn einstaka hátt, martraðarkennda uppvaxtar- og ástarsögu úr rammíslenskum veruleika.
Skáldsagan Guð leitar að Salóme kom eftirminnilega við hjörtu lesenda jólin 2021 og nú færir höfundur sálarstríð fjölskyldunnar af Skipaskaga á fjalirnar.
Áhorfendur kynnast í sýningunni spákonu í blokkaríbúð, drykkfelldum organista, ráðvilltum afturgöngum, forboðinni ást og öðrum örlagavöldum í lífi ungrar konu sem hefur engu að tapa lengur.
Í ritdómi Steinunnar Ingu Óttarsdóttur um skáldsöguna á Skáld.is segir hún Guð leitar að Salóme frumlega "ástar- og raunasögu úr rammíslenskum aldamótaveruleika" og jafnframt margslungna sögu "um sársauka og skömm, örlög og erfið samskipti". Dóminn má lesa hér.
Við mælum með að fólk flykkist í Borgarnes á þennan spennandi viðburð. Frumsýning er á, 15. apríl.