SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir21. mars 2023

SKÁLD-RÓSA á Alþjóðlegum degi ljóðsins

Í dag er Alþjóðlegur dagur ljóðsins og fer því vel á að birta ljóð eftir eina ástsælustu skáldkonu landsins. Í fyrra gaf bókaforlagið Sæmundur út heildarsafn ljóða Skáld-Rósu en Ragnar Ingi Aðalsteinsson tók vísurnar saman og Elísabet Jökulsdóttir skrifar formála.

Það er mikið fagnaðarefni að þessum vísum hafi loks verið safnað öllum saman á bók. Það er víða leitað fanga og fylgir hverri vísu skýring á tildrögum og uppruna ásamt orðskýringum. 

Bókin geymir þekktar ástarvísur Rósu og er þessi þar á meðal en hún er trúlega ort til Páls Melsteð, þegar hann fer utan til náms.  

Þó að kali heitur hver,
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt, hvað er,
aldrei, skal ég gleyma þér.
(bls. 25)

 

Þá má finna hnyttnar vísur innan um, líkt og þegar Rósa kvað um mann sem vildi hjálpa henni í söðulinn og tók um hana aftan frá:

Það sér á, að þú ertu ungur, því ólaginn,
frjálsan tel ég fremri veginn,
farðu ekki að mér þarna megin.
(bls. 53)

 

Rósa átti afar litríka ævi og ástarlíf. Í ljóðabréfi til dóttur sinnar, Pálínu, biður Rósa hana forðast að taka slæmt lífernið til fyrirmyndar:

Móður ráðum mæddrar náðu fylgja,
en ei sæmir auðar Hlín
illu dæmin rækja mín.
(bls. 147)

 

Vísur Rósu hafa hrifið Íslendinga í ríflega 200 ár og munu eflaust gera það lengi enn. Það má vel taka undir orð Elísabetar Jökulsdóttur um að það sé ,,töframátturinn í ljóðum hennar sem smýgur inní hjarta okkar, hringar sig utanum það og slær fyrir okkur." (bls. 10)