BÓKMENNTAHÁTÍÐ Á EYRARBAKKA Á SUNNUDAG: Þórunn Jarla og Hannah Kent
Á Túngötu 40 á Eyrarbakka er rekin menningarstofnun sem kallast Konubókastofa og á tíu ára afmæli um þessar mundir og stendur af því tilefni að ýmsum viðburðum. Á morgun, sunnudag, heldur stofan hliðarviðburð á Bókmenntahátíð þar sem boðið er til samtals tveggja skálda um verk sín.
Konubókastofa var stofnuð í apríl 2013 af Rannveigu Önnu Jónsdóttur bókmenntafræðingi. Stofan er fræðslu- og varðveislusafn tileinkað íslenskum kvenrithöfundum og verkum þeirra. Markmiðið er að halda til haga þeim ritverkum sem íslenskar konur hafa skrifað í gegnum tíðina og kynna höfundana og verk þeirra innanlands sem utan. Safnið er öllum opið og þar geta gestir kynnt sér bækur eftir íslenskar konur og sótt ýmsa viðburði sem bókastofan skipuleggur. Konubókastofa er aðallega fjármögnuð með frjálsum framlögum en einnig í gegnum Hagsmunafélag Konubókastofu þar sem velunnarar greiða árgjald tvisvar á ári.
Viðburðurinn sem Konubókastofa stendur að í samvinnu við Bókmenntahátíð fer fram á morgun, sunnudag, í Rauða húsinu á Eyrarbakka og hefst kl. 14:00, en þar er boðið til samtals Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur við rithöfundana Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur og Hannah Kent. Í kynningu segir: "Fjallað verður um verk þeirra í opnu samtali, sameiginlega snertifleti og auðvitað Agnes og Friðrik."
Þórunn Jarla og Hannah Kent hafa báðar skrifað bækur - afar ólíkar - sem sækja efniviðinn til hins fræga sakamáls Agnesar og Friðriks.
Í kynningu Bókmenntahátíðar á Hannah Kent segir:
Hannah Kent er ástralskur rithöfundur með sterka Íslandstengingu. Hún dvaldi hér á landi á unglingsárum og heillaðist þá meðal annars af frásögninni af síðustu aftökunni á Íslandi. Seinna varð sú frásögn innblástur að fyrstu skáldsögu hennar, bókinni Náðarstund (Burial Rites) sem sló í gegn á heimsvísu. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar árið 2014. Sagan af aftöku Agnesar og Friðriks mun senn birtast á hvíta tjaldinu og fleiri kvikmyndaaðlaganir á verkum Kent eru í bígerð. Má þar nefna bókina The Good People (2016) og kvikmyndina Run Rabbit Run sem er í framleiðsluferli.
Hannah Kent er einn af stofnendum tímaritsins Kill Your Darlings. Hún hefur einnig skrifað fyrir The New York Times, The Saturday Paper, The Guardian, the Age, the Sydney Morning Herald, Meanjin, Qantas Magazine og LitHub.
Þórunn Jarla er íslenskum lesendum vitaskuld að góðu kunn, hún hefur ritað fjölda bóka; sagnfræðirit, skáldskap, ævisögur og fleira. Nýjasta verk hennar hefur að geyma hugleiðingar um lífið og tilveruna og kallast Lítil bók um stóra hluti. Bók Þórunnar Jörlu um mál Agnesar og Natans, Bærinn brennur. Síðasta aftakan á Íslandi, kom út 2021 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Það verður áreiðanlega gaman að hlýða á spjall þeirra Hörpu Rúnar, Þórunnar Jörlu og Hannah og tilvalið að skella sér í bíltúr til Eyrarbakka í blíðunni!