SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir21. október 2023

FYRSTA SKÁLDSAGA ÞÓRDÍSAR HELGADÓTTUR

Nýkomin er út fyrsta skáldsaga Þórdísar Helgadóttur, sem hefur þann forvitnilega titil Armeló.

 

Í kynningu útgefenda segir:

Armeló er margslungin og áhrifarík skáldsaga sem tekst á við áleitnar spurningar um sjálfsmynd, samkennd og svik.

Elfur hatar að ferðast. Einhverra hluta vegna er hún nú samt komin hingað, í þennan smábæ úti í rassgati, í hitabylgju, með Birgi. Nema hvað Birgir er allt í einu horfinn, ásamt bílnum og öllum farangrinum. Hún skilur þetta ekki, hann er ekki beinlínis hvatvís. Reyndar hefur framtaksleysið alltaf verið límið í hjónabandinu – og kannski er það af einskæru framtaksleysi sem Elfur ákveður, frekar en að takast á við aðstæðurnar, að ganga beint af augum út í skóg.

Birgir er breyttur maður eftir að hann byrjaði að vinna hjá Nanoret, sprotafyrirtæki sem stefnir á að lækna alla augnsjúkdóma veraldar. Og það var eitthvað sem hann sagði kvöldið sem þau rifust í fyrsta skipti. Kvöldið áður en þau komu til Armeló.

 

Þórdís Helgadóttir vakti verðskuldaða athygli með smásagnasafninu Keisaramörgæsir sem kom út 2018 og fyrir ljóðabók sína Tanntöku sem hlaut tilnefningu til ljóðabókaverðlaunanna Maístjörnunnar sem og Fjöruverðlaunanna. Þá er hún einn af höfundum skáldsögunnar Olíu sem er höfundarverk skáldakollektífsins Svikaskáld og hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

 

Um Keisaramörgæsir sagði meðal annars í ritdómi hér á Skáld.is:

 

Ég hvet alla sem vilja fylgjast með helstu straumum í íslenskum samtímabókmenntum að láta þetta smásagnasafn Þórdísar Helgadóttur ekki framhjá sér fara. Mér koma satt að segja í hug þau tímamót sem urðu með sögum Svövu Jakobsdóttur, þegar furðum var ofið saman við raunsæi og íslensk smásagnagerð tók þroskastökk. Mér virðist sem hér sé líka tekið ákveðið stökk og á von á að sögur Þórdísar verði umdeildar, að þær muni ekki falla öllum í geð, líkt og í tilviki Svövu. En hér er svo sannarlega eitthvað nýtt á ferðinni og ég hlakka til að sjá meira frá þessum höfundi. Sögur Keisaramörgæsa á ég eftir að endurlesa oft til að ráða í þann margbrotna 'veruleika' sem þar er settur fram.

                         ( Soffía Auður Birgisdóttir)

Tengt efni