VIGDÍS SJÖTUG OG SEIÐMÖGNUÐ
Í dag kl 13 er efnt til málþings í Hannesarholti í 101 Reykjavík til heiðurs Vigdísi Grímsdóttur sem varð sjötug þann 15. ágúst sl. Vigdís er ein af okkar merkustu skáldkonum, hún á langan feril að baki, hefur sent frá sér yfir 20 skáldverk og hlotið fjölda viðurkenninga. Hún hefur í verkum sínum fjallað um ástina til allra manneskja en líka kynferðislegt ofbeldi, geðveiki og dauða. Hún hefur sinn sérstaka stíl og ljóðrænan frásagnarhátt og yrkisefni hennar heilla og hrella í senn.
Í rökstuðningi fyrir vali á Vigdísi sem handhafa Jónasarverðlaunanna 2017 segir m.a. svo réttilega.:
Vigdís hefur haft mótandi áhrif á samtíð okkar og menningu. Með rödd sinni, stundum ögrandi og tilfinningaþrunginni, stundum mildri og sefjandi, hefur hún hrifið okkur með sér og fengið okkur til að takast á við krefjandi spurningar um manneskjuna og þá veröld sem við lifum og hrærumst í. Hún knýr okkur ekki síst til að líta í eigin barm eins og hún gerir sjálf, til dæmis í skáldævisögunni Dísusögu þar sem Dísa á gula kjólnum og Gríms í svarta sjalinu gera upp gömul vandamál og hlífa sér hvergi.
Vigdís Grímsdóttir hefur, hvar sem hún er stödd: á Kleppsvegi, í Norðurfirði eða Trékyllisvík, hreyft við lesendum, ekki aðeins hér heima, heldur víða um lönd, með sínum seiðmagnaða frásagnarmáta.“
Til hamingju með merkisafmælið Vigdís!
Mætum í Hannesarholt í dag!
Mynd: pinterest