SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir24. janúar 2024

LJÓÐIN SEM UNNU EKKI

Jóna Guðbjörg Torfadóttir sendi tvö ljóð inn í keppnina um Ljóðstaf Jóns úr Vör. Að vísu fóru þau ekki í póst fyrr en daginn sem skilafrestur rann út en með von um að póststimpillinn dygði til að þetta slyppi. Jóna var ekki á meðal þeirra sem hlutu verðlaun eða viðurkenningu og hlýtur hún því að ætla að pósturinn hafi borist allt of seint eða ekki skilað sér. Hvað sem því líður þá varð hvorugt vinningsljóð. 

Það er jafnan svo að leitast er við að birta vinningsljóð þegar því verður komið við en minna fer fyrir ljóðunum sem unnu ekki. Því verður kippt í liðinn hér. Annað ljóðið er nokkurs konar ljóðamynd, kallast Sjónarspil og situr hér uppi í hægra horninu, en hitt er sett upp með hefðbundnara hætti þó að nútímalegt sé:

 

 

Traffíkin í höfðinu
 
Mannshöfuð er nokkuð þungt
orti Sigfús Daðason um árið.
Það væri sök sér
ef þar væri íþyngjandi viskan
það er þó sjaldnast
þyngslin stafa af traffík
einkum:
  1. Fortíðardraugum sem ekki hefur tekist að kveða niður.
  2. Internettröllum sem virðast seint ætla að daga uppi.
  3. Tilfinningatúristum sem rata ekki aftur heim til sín.

 

Tengt efni