SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir26. febrúar 2024

SÖNGUR SÚLU: 1, 2 OG 3

Skáldkona dagsins er Hrafnhildur Valgarðsdóttir  Hún hefur í gegnum árin sent frá sér alls 12 bækur, mest fyrir unglinga. En nýjasta bók hennar er skáldsaga og kom út árið sem hún varð 75 ára, 2023.

Það er framhald bókarinnar Söngur Súlu (2013) sem segir frá ungu fólki af landsbyggðinni sem leitaði ævintýra í Reykjavík um miðja síðustu öld. Þau keyptu sér hálfan bragga og byrjuðu búskap. Þar upplifðu þau miklar raunir sem sköpuðu þeim hörmuleg örlög. En lífið hélt áfram og fylgst er með einu barni þeirra, Súlu sem síðan leiðir söguna. Í nýju bókinni er fjallað um líf Súlu í höfuðborginni á árunum 1964-1966. Hún býr í húsi þar sem einnig er starfandi bókaútgáfa og þar kynnist hún heimi bókanna. Eins og áður koma ýmsar aðrar persónur við sögu ásamt skrautlegum ástamálum, segir í Bókatíðindum 2023.

Í viðtali á Vísi.is segir Hrafnhildur stanslausa vinnu vera í gangi í höfðinu á sér í sambandi við Súlu. „Alls kyns atburðir og persónur æða um kollinn á mér öllum stundum og ég held ég komist ekki hjá því að setjast við tölvuna og létta þessu af mér. Súla er orðin fullorðin og þarf að spjara sig og takast á við alls kyns vandamál sem því fylgja. Já, líklega skrifa ég þessa þriðju bók því hún er eiginlega orðin fullsköpuð í huga mér.“

Hrafnhildur segist í viðtalinu alltaf hafa ætlað að vera rithöfundur en komst fljótt að því að því fylgdu erfiðleikar og endalaus óvissa. „Ég var mjög ung þegar ég fékk birtar eftir mig smásögur í tímaritum og Lesbók Morgunblaðsins. Ég var sískrifandi, sendi handrit út og suður og tók þátt í samkeppnum þegar það bauðst. Stundum var ég heppin og stundum ekki. Það voru gefnar út bækur eftir mig og ég fékk bæði viðurkenningu og verðlaun, En það dugði þó skammt. Ég sótti um starfslaun árum saman sem rithöfundur en fékk aldrei. Loks gafst ég upp og hætti að sækja um, hætti að skrifa nema fyrir skúffuna.“

 

Tengt efni