SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir22. mars 2024

ÖRSAGA UM SKÖTU - EÐA HVAÐ?

Örsagan Skötuveislan er eftir tómstundaskáldkonuna Jónu Guðbjörgu Torfadóttur sem dundar sér stundum við að hamra saman texta, þegar þannig liggur á henni:

 

Skötuveislan
 
Finnst þér þetta virkilega gott?
Já, mjög.
En þetta er algjör óþverri!
Af hverju segirðu það?
Þetta er bara ógeðslegt!
Mér finnst það ekki.
Það er nú bara eitthvað að þér!
Við erum nú alveg fleiri þarna úti sem borðum skötu.
Ég skil það ekki. Það hlýtur að vera líffræðilega ómögulegt að koma þessu niður!
Það hefur nú bara gengið ágætlega hingað til.
En bragðlaukarnir eru hreinlega ekki gerðir fyrir þetta óbragð. Þetta er ónáttúrulegt!
Hefurðu einhvern tímann smakkað hana?
Skötu? Nei, ertu frá þér! Lyktin er nú alveg nógu vond að ég fari ekki að stinga þessu upp í mig.
Jú, lyktin er sossum ekkert góð en við ætlum á veitingastað í bænum.
Já, það er ekki líft í kringum þessar skötuveislur. Ég skil bara ekki að þetta skuli vera leyft.
Smekkur fólks er nú bara mismunandi.
Auðvitað en þetta er ekki eðlilegt. veistu hvernig skatan verður til?
Hún er kæst.
Það er sko migið á hana!
Ha? Nei!
Jú, sjómennirnir míga allir í fiskikarið. Af hverju heldurðu að hún lykti svona illa?
Ja hérna! Hvaða bull er nú þetta. Hvar heyrðir þú þetta eiginlega?
Þetta er bara vitað mál!  Frænka bestu vinkonu minnar er gift sjómanni og svo er þetta út um allt í kommentakerfinu.
Jæja, ég reikna þá ekki með þér í skötuveisluna um helgina.

 

Mynd: JGT

 

Tengt efni