EKKERT HANDRIT NÓGU GOTT
Svartfuglinn er glæpasagnaverðlaun sem rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson efndu til árið 2017. Tilgangurinn var að halda formlega samkeppni, draga fram nýja höfunda og veita þeim brautargengi. Verðlaunaupphæðin er um hálf milljón króna auk útgáfusamnings við Veröld. Skáldkonurnar Eva Björg Ægisdóttir, Unnur Lilja Aradóttir, Katrín Júlíusdóttir og Ragnheiður Jónsdóttir hafa hreppt þessi verðlaun. Tvær af verðlaunabókunum hafa komið út erlendis og fyrsta verðlaunabókin, Marrið í stiganum eftir Evu Björgu Ægisdóttur, hefur komið út á um tuttugu tungumálum og hlotið virt, alþjóðleg verðlaun.
Þau tíðindi urðu á dögunum að ekkert glæpasagnahandrit reyndist nógu gott til að hægt væri að sæma það Svartfuglinum í ár. Skilafrestur var til 1. mars sl og barst á annan tug handrita en þau vantaði herslumuninn til að teljast nógu góð skv. upplýsingum frá Veröld.
Á vef Veraldar segir að Yrsa og Ragnar hafi ákveðið að nú sé komið að leiðarlokum og rétti tíminn til að leggja verðlaunin niður. Þau hafa greinilega ekki trú á að betri handrit komi á næsta ári. Ýmsar spurningar vakna af þessu tilefni. Hrakar ritunarhæfileikum þjóðarinnar? Hvert stefnir með skapandi hugsun, mál og stíl? Er verðlaunaupphæðin of lág? Peningarnir búnir? Er bókmenntagreinin úr sér gengin? Eða er bókin dauð?
Var þetta kannski tilfallandi lélegt? Er þá ekki doldið dramatískt að leggja verðlaunin niður? Það er þeim Yrsu og Ragnari auðvitað í sjálfsvald sett en það er eftirsjá að góðri hvatningu til að skrifa.