Steinunn Inga Óttarsdóttir∙16. september 2024
TMM HAUSTSINS
Þriðja TMM hefti ársins mætir í allar helstu bókabúðir fimmtudaginn 19. september!
Að þessu sinni er glæpaslagsíða í gangi þar sem Hið íslenska glæpafélag fagnar 25 ára afmæli í ár. Í heftinu birtast fimm nýjar glæpasmásögur eftir þau Viktor Arnar Ingólfsson, Önnu Margréti Sigurðardóttur, Ragnar Jónasson, Ragnheiði Gestsdóttur og Ævar Örn Jósepsson en auk þess rita þau Ævar Örn, Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir og Elva Rún Pétursdóttir greinar um íslenska glæpasagnahöfunda og fjölbreytt umfjöllunarefni þeirra. Jóhannes Ólafsson tekur svo viðtal við höfund sem hefur fylgt íslensku glæpasögunni nánast frá upphafi, Stefán Mána.
Fyrir utan glæpafárið má finna áhugaverða grein eftir Guðrúnu Steinþórsdóttur (sem hefur ritað greinar og tekið viðtöl fyrir skáld.is) um smásögu eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur. Lesa á smásögu eftir palestínsk-íslenska skáldið og rithöfundinn Mazen Maarouf í þýðingu Ugga Jónssonar, ljóð eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur, Sölva Halldórsson, G. Pétur Matthíasson og Friðrik Gíslason. Einnig birtast nokkur þýdd ljóð en Stefán Sigurðarson þýðir tvö ljóð eftir norsku skáldin Astrid Hjertenæs Andersen og Steinar Opstad og Brynja Hjálmsdóttir þýðir ljóð eftir danska skáldið Ursulu Andkjær Olsen, sem er væntanleg hingað til landsins á vegum Bókmenntaborgarinnar í október. Silja Aðalsteinsdóttir fer yfir síðasta leikhúsvetur.
Umsagnir um bækur eru á sínum stað og það eru þau Jórunn Sigurðardóttir, Björn Teitsson, Erla Elíasdóttir Völudóttir og Ingunn Ásdísardóttir sem rýna í nýlegar bækur að þessu sinni.
Útgáfu heftisins verður fagnað á föstudaginn 20. september kl. 17 í bókabúð Sölku á Hverfisgötu.
En hver gerði kápumyndina?
(Texti af fb TMM)