Margrét S. Höskuldsdóttir sendi frá sér bók fyrir tveimur árum, sem hét Dalurinn.
Þar segir frá Sif sem dvelur í sumarbústað í fáförnum dal fyrir vestan og er að skrifa meistararitgerð. Samhliða er sögð saga af göngufólki á svipuðum slóðum, draugur gengur um ljósum logum og svo dúkkar upp á veröndinni þessi bráðmyndarlegi ferðamaður sem er rennandi blautur og rammvilltur. SIf kemst að því að fortíðina er ekki hægt að flýja, sama þótt bústaðurinn sé afskekktur og án netsambands.
Ný bók frá Margréti er komin út: Í djúpinu. Þar er verið að rannsaka morðmál, sagan berst aftur vestur á firði og atburðirnir eiga rætur í löngu liðnum atburðum.
„Athafnamaður finnst látinn í heitum potti við heimili sitt í Laugardalnum og fljótlega beinast spjótin að vinum hans og samstarfsfélögum. En rannsóknarlögreglukonan Ragna er eldri en tvævetur í faginu og skarpt og næmt innsæi segir henni að lausnin sé flóknari en svo. Brátt er Ragna komin á slóðir sem liggja aftur til fortíðar og á heimavist vestur á fjörðum. Hvaða leyndarmál búa í djúpinu?“ segir um söguþráðinn á vef Forlagsins.
Margrét kann þá list að magna upp spennu, skapa áhugaverðar persónur og nota nokkur tímaplön, sögusvið og sjónarhorn til að galdra fram óhugnað og angist og vel er hægt að mæla með bókum hennar á næstkomandi dimmum haustkvöldum.
Hér á DV hægt að lesa fyrstu tvo kaflana með góðfúslegu leyfi Forlagsins. Eftir lesturinn verður þú að fá að vita meira!