HRÚTAGIRÐINGIN - í tilefni kosninganna
Niðurstöður kosninga í Bandaríkjunum liggja fyrir. Þá rifjast upp ljóðið Hrútagirðingin eftir Steinunni Sigurðardóttur. Ljóðið birtist í Hugástum (1999) en Soffía Auður fjallaði um bókina á vef skáld.is:
Sem ljóðskáld hefur Steinunn vaxið með hverri bók. Þótt sá glettnislegi tónn sem sleginn var í fyrstu bókunum sé aldrei langt undan þá hafa ljóð hennar dýpkað og skírskotun þeirra víkkað, um leið og myndmálið verður æ sterkara og persónulegra. Að mínu mati hefur Steinunn náð að skapa sér einstakan ljóðheim þar sem margræðni tungumálsins verður sífellt beittari og markvissari. (...) Hugástir er frábær ljóðabók, rökrétt framhald fyrri ljóðabóka Steinunnar sem heldur sífellt áfram að fága og hnitmiða ljóðmálið. Sérstaka athygli vekur markviss bygging ljóðanna og innra samhengi þeirra. Steinunn hefur afar góð tök á hrynjandi sem kemur gleggst í ljós þegar ljóðin eru lesin upphátt...