PÓLSTJARNAN, fylgir okkur heim
Las ljóðabókina „Pólstjarnan fylgir okkur heim.“ Bókin er ekki löng en hún fylgir mér svo sannarlega inn í daginn. Ljóðin hennar Margrétar Lóu tala beint til mín og ég er ekki frá því að mér líði bara nokkuð vel eftir lesturinn. Hugurinn reikar.
Ljóðin eru nokkurskonar glósur eða glefsur úr lífi manneskju. Margrét drepur niður fæti á hinum ýmsu æviskeiðum og veitir okkur örlitla innsýn inn í minningar um líf æskunnar, unglingsins og hins fullorðna, rétt svo að við hin förum að hugsa og kannski að fletta upp í eigin minningum, Vindurinn flettir minnsibók, hún er stödd á fjarlægum slóðum og hugsar heim, lætur hugann reika og vindurinn flettir blaðsíðunum. „Ég hugsa um svartamyrkur og brim og sólskinið heima sem við fáum aldrei nóg af.“
Hún hugsar heim til móður sinnar sem vitjar hennar í draumi, hún er farin „mamma hringir í mig í draumi/tveimur dögum eftir andlátið-/þegar þú deyrð þá bæði sérðu/og heyrir allt sem gerist/segir hún.“
Margrét er líka hugsandi um það hörmungarástand sem stríð bjóða upp á: „hugsa um fólk á flótta/brottvísanir og baráttu um landssvæði/hugsa um alla þá sem fallið hafa í stríði“. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hlutina, við skynjum hugsunina. Áhyggjunar sem við öll berum öll saman. Barnastríðin væri rétta orðið.
Pólstjarnan hlaut hin virtu bókmennaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og ég er ekki hissa.