Margrét Lóa Jónsdóttir
Margrét Lóa Jónsdóttir er fædd 29. mars árið 1967. Undanfarna áratugi hefur hún helst fengist við skáldskap og kennslu. Fyrsta verk hennar, ljóðabókin Glerúlfar, kom út árið 1985. Hún hefur m.a. fengist við kennslu í skapandi skrifum og þáttagerð hjá RÚV. Jafnframt ritstýrði hún listatímaritinu Andblæ um tveggja ára skeið, frá árinu 1998-2000.
Margrét Lóa tók þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2000. Árið 2003 kom út geisladiskurinn Hljómorð með ljóðum hennar og tónlist eftir Gísla Magnússon.
Haustið 2001 var þeim boðið á bókamessuna í Gautaborg til að kynna diskinn. Árið 2008 tók Margrét Lóa þátt í alþjóðlegri bókmenntahátíð í borginni Granada í Níkaragva. Einnig tók hún þátt í vinnubúðum í ljóðaþýðingum haustið 2012 í Galisíu.Síðast liðin ár hefur hún fengist töluvert við ljóðaþýðingar, sér í lagi úr spænsku.
Auk 10 ljóðabóka, hljómdisks og skáldsögu, hefur Margrét Lóa starfrækt listagalleríið Marló og bókaútgáfu undir sama nafni. Þá fæst hún einnig við myndlist og hönnun bókverka. Margrét Lóa hlaut viðurkenningu frá Bókasafnssjóði fyrir ritstörf árið 2002 og frá Fjölíssjóði Rithöfundasambands Íslands árið 2005.
Ritaskrá
- 2021 Draumasafnarar
- 2017 Biðröðin framundan
- 2017 50 sinnum kringum sólina
- 2015 Frostið inni í hauskúpunni
- 2005 Tímasetningar
- 2004 Laufskálafuglinn
- 2003 Hljómorð
- 2002 Ljóð í Cold Was That Beauty
- 2001 Háværasta röddin í höfði mínu
- 1997 Ljóðaást
- 1996 Tilvistarheppni
- 1991 Ávextir
- 1989 Orðafar
- 1986 Náttvirkið
- 1985 Glerúlfar
Verðlaun og viðurkenningar
- 2005 Styrkur úr Fjölíssjóði Rithöfundasambands Íslands
- 2005 Styrkur úr Bókasafnssjóði fyrir ritstörf