ARMELÓ TILNEFND TIL BÓKMENNTAVERÐLAUNA NORÐURLANDARÁÐS
Nú liggja fyrir tilnefningar Íslands til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2025 en þær eru skáldsögurnar Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur og Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl.
Samtals eru 14 verk tilnefnd til verðlaunanna en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafann. Það verður tilkynnt um hvaða verk ber sigur úr býtum 21. október og verða verðlaunin afhent viku síðar í Stokkhólmi. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagrip ásamt 300 þúsund dönskum krónum sem eru rúmar 5,8 milljónir íslenskra króna.
Íslensku dómnefndina skipa Kristján Jóhann Jónsson, Silja Björk Huldudóttir og Soffía Auður Birgisdóttir, sem er varamaður. Umsögn hennar um Armeló er eftirfarandi:
Í skáldsögunni Armeló býður Þórdís Helgadóttir lesendum í óvenjulegt ferðalag sem er í senn seiðandi, margslungið og spennandi. Verkið hverfist um konu sem veit fátt verra en að ferðast. Í upphafi bókar er Elfur engu að síður stödd í smábæ á meginlandi Evrópu í miðri hitabylgju að sumarlagi ásamt Birgi, eiginmanni sínum.
Þegar Birgir hverfur skyndilega ásamt öllum farangri þeirra hjóna og bílnum sem þau ferðuðust í eru góð ráð dýr. Fram til þessa hefur framtaksleysi einkennt líf Elfar, en þessar undarlegu kringumstæður neyða hana til athafna og fyrr en varir heldur hún fótgangandi beint af augum út í skóg í nokkurs konar pílagrímsferð án þess að vita hvar hún muni að lokum enda. Við tekur marglaga för á mörkum fantasíu og raunsæis þar sem höfundur nýtir sér dulspeki, gólem- og tvífaraminnið með skapandi og ferskum hætti til þess meðal annars að beina sjónum að þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í samtímanum.
Við sögu kemur nýsköpunarfyrirtækið Nanoret sem hefur það að markmiði að útrýma öllum augnsjúkdómum heimsins og nýtir slagorðið „seeing clearly“ eða skýr sýn. En hvað felst í því að sjá skýrt og hvernig tengjast stolnar augnhimnur áformum forsvarsmanna fyrirtækisins? Hvað gerum við þegar sannleikurinn leynist undir yfirborðinu og mögulega úr augsýn? Hvernig tæklum við það þegar sannleikurinn blekkir og blekkingin virkar raunverulegri en veruleikinn? Og hvernig nálgumst við sannleikann í heimi þar sem ofgnótt upplýsinga villir okkur svo auðveldlega sýn? Hvenær þekkjum við raunverulega aðra manneskju, nú eða okkur sjálf? Tilvistarlegar og frumspekilegar spurningar á borð við þessar eru áberandi í Armeló og blandast með kraftmiklum hætti saman við vangaveltur um persónuleika, sjálfsvitund og ímyndarsköpun. Í skáldsögunni tekst höfundur einnig á heillandi hátt á við áleitnar spurningar um samkennd og svik.
Þórdís býður lesendum upp í trylltan dans og þeytir þeim í óteljandi hringi þar sem hún ögrar skynjuninni með óvæntum rangölum, ólíku sjónarhorna mismunandi sögupersóna, skemmtilegu tímaflakki og fjölskrúðugu persónugalleríi. Í bland við góðan húmor, ljóðrænan stíl, yfirnáttúrulega fléttu og sterkt myndmál skapar Þórdís einstaklega hrífandi rússíbanareið fyrir forvitna og hugrakka lesendur.