SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir25. mars 2025

FRUMÚTGÁFAN OG STARFIÐ HÉR Í HEIMI

Á vef Landsbókasafns er m.a. að finna frumútgáfu á Þulum Theodóru Thoroddsen (1863-1954), sem systursonur hennar, Guðmundur Þorsteinsson, Muggur, myndskreytti svo haglega. Hægt er að hlaða skjalinu niður, lesa og skoða lengi.

Þulur Theodóru komu út 1916 og nutu mikilla vinsælda. Fyrsta þulan í bókinni er Stúlkurnar ganga suður með sjó... og sú síðasta er Fuglinn í fjörunni.

Kvæði Theodóru um skyldustörfin er ekki í þessari bók en birtist aldrei nógu oft og fer hér á eftir. Í framhaldi er minnt á MarchForward-herferðina sem er á morgun kl 12 en tilgangur hennar er að vinna gegn bakslagi í kvennabaráttunni og efla kynjajafnrétti öllum til handa.

Mitt var starfið

Mitt var starfið hér í heimi
heita og kalda daga
að skeina krakka og kemba þeim
og keppast við að staga.

Eg þráði að leika lausu við
sem lamb um grænan haga,
en þeim eru ekki gefin grið,
sem götin eiga að staga.

Langaði mig að lesa blóm
um langa og bjarta daga,
en þörfin kvað með þrumuróm:
„Þér er nær að staga.“

Heimurinn átti harðan dóm
að hengja á mína snaga,
hvað eg væri kostatóm
og kjörin til að staga.

Komi hel með kutann sinn
og korti mína daga,
eg held það verði hlutur minn
í helvíti að staga.

 

 

Hér er hægt að skrifa undir áskorun til stjórnvalda um að efla kynjajafnrétti öllum til handa!

 

Tengt efni