CLAIRE KEEGAN Á BÓKMENNTAHÁTÍÐ
Það var fullt út að dyrum og nánast slegist um stólana í Norræna húsinu í dag. Tilefnið var samtal Rosie Goldsmith við írska rithöfundinn Claire Keegan.
Claire Keegan er margverðlaunaður höfundur og hafa verk hennar verið þýdd á fjölda tungumála. Á íslensku hafa komið út bækurnar Smámunir sem þessir (2023), Fóstur (2024) og nú síðast smásagnasafnið Seint og um síðir: sögur af konum og körlum (2025). Allar í þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur.
Um síðastnefnda verkið segir á síðu Forlagsins:
Þessi bók geymir þrjár firnasterkar sögur sem eiga sameiginlegt að fjalla um samskipti kynjanna.
Í titilsögunni Seint og um síðir fylgjum við Cathal fara inn í helgina á meðan hann rifjar upp samskipti sín við unnustuna sem rann honum úr greipum. Í Langur og kvalafullur dauðdagi kemur rithöfundur í sumarhús Heinrichs Böll til að dvelja við skriftir, en ágengur aðkomumaður raskar ró hennar, og í sögunni Suðurskautið ákveður gift kona í helgarferð að sleppa fram af sér beislinu og upplifa hvernig það sé að sofa hjá öðrum manni.
Allar sögurnar skoða hvernig væntingar, tilætlunarsemi og undirliggjandi hætta á ofbeldi lita samskipti fólks.
Hér má skoða dagskrá Bókmenntahátíðar en þar er margt spennandi í boði