Steinunn Inga Óttarsdóttir∙25. apríl 2025
EINMANA GENG ÉG ÁLENGDAR - Um Kristínu Guðmundsdóttur
Í dag minnumst við skáldkonu sem lífið lék harla grátt, Kristínar Guðmundsdóttur (1859-1901). Eftir Kristínu liggur kvæða- og sálmasafn sem hún orti á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi þar sem hún lést. Kveðskapur hennar er varðveittur á Landsbókasafninu.
Ellefu ára gömul veiktist Kristín af holdsveiki og þegar hún fermdist árið 1874 var hún langt leidd af sjúkdómnum. Í einu kvæða hennar kemur fram að aldrei var leitað til læknis á þessum árum. Síðan var hún í hópi fyrstu sjúklinga sem lögðust inn á Holdsveikraspítalann þegar honum var komið á fót. Þá var Kristín orðin blind og mjög illa farin af holdsveikinni. Hún lést árið 1901.

Kvæði hennar eru ort af ýmsum tilefnum og sum til sjúklinganna, lífs og liðinna. Í kvæðunum talar hún m.a. um "Holdsveikinnar hryggðarmynd" en alltaf setur hún traust sitt á himnafeðgana og sæluvist að jarðlífi loknu.
Síðustu ljóðlínurnar í kvæðakveri Kristínar eru hjartaskerandi:
Heims burt frá augum hneykslunar
heims gleði er mér pín
einmana geng ég álengdar
angrið þó glepji sýn
í kyrrð djúpustu auðmýktar
öndin harmþrungin mín,
grúfir að fótum Guðs sonar
og grætur þar nægju sín.