SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir23. september 2025

ERLA HULDA HALLDÓRSDÓTTIR VERÐLAUNUÐ

Erla Hulda Halldórsdóttir, prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði, hefur hlotið verðlaun konunglegu Gústafs Adolfs akademíunnar í sænskri alþýðumenningu. Verðlaunin hlýtur Erla Hulda úr verðlaunasjóði Torsten Janckes fyrir rannsóknir sínar á kynjasögu og á sviði skriftarkunnáttu þar sem hún hefur á nýstárlegan hátt nýtt sendibréf sem mikilvæga heimild ævisagna frá 19. öld.  Verðlaunin verða afhent í Uppsalahöll 6. nóvember næstkomandi og er verðlaunaféð 70.000 sænskar krónur.

Erla Hulda er fyrsti kvenna- og kynjasögusagnfræðingurinn sem ráðinn var í fasta stöðu við Háskóla Íslands og hún hefur sýnt og sannað að hún er öflug og vönduð fræðikona. Hún hefur gefið út bækur og fjölda greina, haldið fyrirlestra og oft komið fram til að kynna rannsóknir sínar. Hún hefur stundað rannsóknir á sögu kvenna á 19. og 20. öld með það að markmiði að gera sögu kvenna og kynja sýnilega og að sjálfsögðum hluta Íslandssögunnar. Erla Hulda hefur rannsakað kvennabaráttuna um aldamótin 1900, kvenímyndir og sjálfsmynd kvenna á 19. öld, sendibréf kvenna og kvenfélög. Í doktorsrannsókn sinni skoðaði Erla Hulda menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi á síðari hluta 19. aldar. Þar greindi hún þá orðræðu sem sjá má í dagblöðum um hlutverk, eðli og menntun kvenna og tefldi saman við það sem konur sjálfar hugsuðu og skrifuðu í sendibréfum.

Erla Hulda hefur undanfarin ár fengist við rannsóknir á sendibréfum og ævisagnaritun, einkum í tengslum við rannsókn sína á ævi og bréfum Sigríðar Pálsdóttur (1809–1871), og tekið þátt í norrænum rannsóknarnetverkum á sviði sögulegs læsis og sagnfræðilegum ævisögum. Jafnframt hefur hún unnið að rannsókn á sagnaritun kvenna á fyrri hluta 20. aldar, það er á því hvernig konur skoruðu karlasögu hefðbundinna sagnfræðirita á hólm og leituðust við að skrifa sína eigin menningarsögu fyrir tíma akademískrar kvennasögu.

Nýverið var tekið viðtal við hana í þættinum Samfélagið, á rás 1 á RUV, um skriftarkunnáttu almennings á Íslandi fyrr á öldum og á það má hlýða hér. Viðtalið var tekið í tilefni nýrrar færslu Erlu Huldu á Vísindavef Háskóla Íslands og það má lesa hér.

Við óskum Erlu Huldu hjartanlega til hamingju með þennan mikla heiður!

Tengt efni