LÍFIÐ UM LEIÐ OG ÞAÐ RENNUR HJÁ. Strá fyrir straumi eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur
Erla Hulda Halldórsdóttir, Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871, Bjartur 2024, 442 bls.
Í handritaskrá Landsbókasafns Íslands frá því á þriðja áratug tuttugustu aldar segir um eitt handritið að í því séu að finna „fáein marklítil bréf“. Þetta eru bréf rituð til Páls Pálssonar - sem þekktur er í íslenskri sögu sem „Skrifarinn á Stapa“ - frá systrum hans. Ein systranna var Sigríður Pálsdóttir sem er aðalpersónan í bók Erlu Huldu Halldórsdóttur: Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871. Í bókinni segir Erla Hulda ævisögu Sigríðar sem ekki var þekkt í íslenskri sögu fyrir neitt sérstakt; lífshlaup hennar hefði vafalaust verið dæmt „marklítið“ af mörgum fyrri tíma sagnfræðingum. En Erla Hulda byggir rannsókn sína á ævi Sigríðar fyrst og fremst á 250 sendibréfum sem hún skrifaði til Páls bróður síns og eru enn til því allt bréfasafn Páls var varðveitt eftir hans daga og um miðja síðustu öld kom úrval bréfa hans út á bók. Bréfin frá Páli til Sigríðar systur sinnar eru hins vegar ekki lengur til því bréfasafn hennar var brennt þegar hún lést árið 1871.
Við lestur bókarinnar Strá fyrir straumi verður ljóst að Erla Hulda finnur margt markvert í bréfum frá óþekktri konu frá nítjándu öld og þegar við bætist sú víðfema þekking sem hún hefur á íslenskri sögu nítjándu aldar og sér í lagi sögu kvenna, hefur hún fundið nægan efnivið í stóra ævisögu sem sætir tíðindum.
Hvernig stendur á því að sagnfræðingar fyrri tíma dæmdu sendibréf kvenna „marklítil“? Erla Hulda gerir slíkt gildismat að umræðuefni í bókinni og skrifar á einum stað:
Viðmiðin eru gamlar hugamyndir um verðugleika og sögulegt mikilvægi þar sem lítið pláss var fyrir konur, hvað þá börn. Handritaskrár Landsbókasafns bera þessu viðhorfi glögg merki eins og fjallað hefur verið um í nýlegum rannsóknum á handritum og handritamenningu kvenna. Þær hafa leitt í ljós að mörg „marklítil“ bréf og handrit eru full af mikilvægum upplýsingum um fortíðina, viðhorf fólks og hvernig það lifði lífi sínu. (88-89)
Á öðrum stað skrifar hún: „Þær eru þarna innan um karlana, konur nítjándu aldar: systur, dætur, eiginkonur, mæður, sem tóku þátt í að móta söguna þótt þær hafi ekki fengið sitt pláss á hinu stóra sviði Íslandssögunnar“ (144).
En hver var Sigríður Pálsdóttir? Hún fæddist í Hróarstungu á Héraði árið 1809 og var næstelst fimm systkina sem lifðu. Erla Hulda tekur fram að Sigríður sé komin af sýslumönnum í nokkra ættliði í föðurætt og í móðurættinni voru prestar og biskupar. Þessi bakgrunnur gefur Sigríði sterkt bakland og tengslanet sem gerir henni ýmsar leiðir greiðari en ella. Erla Hulda nefnir einnig að í báðum ættum hafi verið „konur sem létu að sér kveða í sinni stöðu en sjást varla í sögubókum“ (11). Í hnotskurn lýsir Erla Hulda Sigríði á eftirfarandi hátt, undir lok bókarinnar:
Sigríður Pálsdóttir er kona sem skráði líf sitt í 250 bréfum til bróður síns. Sem ung stúlka vildi hún meira en í boði var austur á Héraði og hún lét, þvert á alla skynsemi hrífast með ástinni og skapaði sér þannig umtal og (um tíma) óvild. Hún varð ung ekkja en gafst aldrei upp þegar á móti blés, hvorki við barnsmissi né þegar fyrri maðurinn missti vitið og reið í Reykjadalsá ófæra. Kannski mætti tilfæra um hana orð sem hún sagði sjálf um ömmu sína árið 1824: „hún amma mín þolir allt“. Það mætti líka kalla hana „táp- og kjarkmann“, eins og tengdamóður hennar Ragnheiði Jónsdóttur. (337-338)
Ævisaga Sigríðar er rakin í tímaröð og frásögninni er skipt niður í sjö meginkafla. Í fyrsta kafla er sagt frá móður Sigríðar og ömmu og fjölskyldusagan rakin eins og unnt er út frá heimildum. Næstu kaflar taka mið af búsetu Sigríðar og tilteknum tímabilum í lífi hennar. Þannig hefur annar kafli yfirskriftina Heima. Hallfreðarstaðir 1817-1829; þriðji kafli nefnist Hjartsláttur. Laugarnes & Reykjavík 1829-1833, og svo koll af kolli; við fylgjumst með söguhetjunni flytja á milli staða og héraða þar til hún lést á Breiðabólstað í Fljótshlíð árið 1871.
Eins og áður segir eru bréf Sigríðar til Páls bróður síns aðalheimild Erlu Huldu en ýmsar aðrar heimildir nýtast henni til að byggja upp ævisögu Sigríðar. Við kynnumst henni sem barni, sem ungri stúlku, ástfanginni konu, eiginkonu, bústýru og móður. Við fáum innsýn inn í erfiðleika sem nútíma Íslendingar þurfa sem betur fer ekki að glíma við lengur: tíðan barnsmissi, ótímabær andlát af völdum veikinda og illviðris, þjáningarfull veikindi, eins og til að mynda sullaveiki sem þjakar bæði Sigríði sjálfa og móður hennar. Í forgrunni er kvennasaga en ekki sú stórsaga sem lengst af hefur verið alltumlykjandi í íslenskum sögubókum. Erla Hulda orðar þetta skemmtilega þegar langt er liðið á sögu Sigríðar:
Meðan karlarnir eru flengríðandi milli héraða, ræða stjórn landsins og stéttaþing, um stöðu Íslands og vaxandi þjóðerniskennd, sinna þúfnasléttun og hleðslu túngarða, stofna Fjallvegafélagið til að ryðja götur, hlaða vörður og bæta samgöngur milli héraða, sigla til Kaupmannahafnar og heim, róa á opnum bátum út á rúmsjó, hirða um fé og moka skít, skrifa í og gefa út blöð og tímarit, staupa sig á brennivíni eða teyga fínni drykki, eru konurnar einhvers staðar þarna í bakgrunni þess sem við köllum sögu: mæður, eiginkonur, unnustur, dætur, ömmur, vinnukonur, húsmæður, frökenar, jómfrúr, maddömur, frúr. Í forgrunni eru þær samt af því að í raunveruleikanum voru fá heimilin rekin án þess að þar væri kona sem húsmóðir, bústýra eða vinnukona. Konur unnu störfin inni á heimili, elduðu matinn, saumuðu fötin, þvoðu þau og gerðu við. Þær, oftast ásamt körlunum, verkuðu ullina, spunnu á rokk; þær unnu mjólkina svo úr varð skyr, smjör, ostur. Þær sinntu börnum og gamalmennum. Aðstæður voru mismunandi og því verður að hafa í huga þegar talað er um „konur“ að þær voru ekki einsleitur hópur heldur var staða þeirra mótuð af stétt, stærð heimila, hjúskaparstöðu, aldri og efnahag.“ (203-204)
Erla Hulda áréttar síðar að „þessi saga, þessir karlmenn, tímaritin þeirra og pólitísk umræða hefur verið kjarninn í sögu Íslands á nítjándu öld. Þar verður hún stórsagan svokallaða, saga framfara og umbóta, karla og stjórnmála, athafna og embætta, sú sem oftast ratar í sögubækur. Þessi saga sést lítið sem ekkert í bréfum Sigríðar Pálsdóttur. Það er eins og stjórnmálin og helstu deiluefni landsmanna á þessum tíma komi bréflegum heimi þeirra Páls ekkert við. Þetta eru bréf sem fjalla um hið hversdaglega, lífið um leið og það rennur hjá“ (242).
Hér gefst ekki tækifæri til að fara nánar ofan í ævi Sigríðar Pálsdóttur, þá sögu verður hver lesandi að upplifa sjálfur við lestur bókarinnar. En vert er að geta þess að auk þess að miðla sögu Sigríðar tekur Erla Hulda sínar eigin rannsóknaraðferðir til umræðu og sérstaklega spurningar sem varða sendibréf sem heimildir. Þær pælingar auka, að mínu mati, mjög gildi bókarinnar.
Í lokin langar mig að vitna í kollega Erlu Huldu sem hefur skrifað mörg sagnfræðileg verk ætluð almenningi. Í fyrra hefti tímaritsins Sögu frá því í fyrra skrifar Þórunn Valdimarsdóttir:
Bækur sögulegs eðlis sem ætlaðar eru almenningi ættu helst að vera ritaðar af fólki sem hefur háa gráðu í sagnfræði, og langa rannsóknarreynslu. Þær ættu þeir sagnfræðingar að skrifa sem hafa góð tök á tungunni og kunna að skemmta í texta um leið og þeir halda réttri sýn fræðanna, sem mögulegt er […] Vonandi fer það svo að menntaðir sagnfræðingar skrifa æ meiri léttan og innblásinn texta fyrir almenning, því að almenningur verður að fá aðgang að afrakstri rannsókna. Það er lýðræðismál, ekkert minna. (Saga 1/2024)
Bók Erlu Huldu um ævi Sigríðar Pálsdóttur uppfyllir allar þær kröfur sem Þórunn Valdimarsdóttir gerir til sagnfræðilegra rita fyrir almenning. Þetta er bók sem gefur djúpa sýn inn í líf íslenskrar konu á nítjándu öld og er vel og skemmtilega skrifuð, enda hefur hún þegar hlotið tilnefningar til fræðritaverðlauna Hagþenkis og Fjöruverðlaunanna. Óhætt er að mæla með Strá fyrir straumi. Ævisögu Sigríðar Pálsdóttur fyrir alla sem vilja kynna sér líf og kjör íslenskra kvenna á fyrri öldum.
Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá, rás 1, 3. febrúar 2025.