SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 9. febrúar 2025

ÁST IÐKUÐ Í SENDIBRÉFUM

Ég er þinn elskari. Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825-1832. Erla Hulda Halldórsdóttir bjó til prentunar og skrifaði inngang. Háskólaútgáfan 2023, 248 bls.

 

„Dýrmætasta elskuverðasta unnusta mín!“ Þannig undirritar hinn 25 ára gamli Baldvin Einarsson eitt af sínum fyrstu sendibréfum til unnustu sinnar, Kristrúnar Jónsdóttur, í mars 1825, en þau bundust heitum í desember 1824, þegar hann var 23ja ára en hún 18 ára. Baldvin var þá við nám við Bessastaðaskóla en Kristrún sat heima í festum, í föðurhúsum á Grenjaðarstað í Aðaldal. Ríflega sjö árum síðar skrifar hann síðasta varðveitta bréf sitt til hennar. Það er ritað í Kaupmannahöfn í september 1832 og undirskriftin er öllu lágstemmdari og tóninn sakbitinn: „Ég er ætíð og eilíflega þinn ólánsunnusti Baldvin Einarsson“. Á milli þessa tveggja bréfa liggur mikil örlaga- og harmsaga; saga af heitum ástum, baráttu við föðurvald og hefðir, og saga af tryggðasvikum. Ári eftir ritun síðasta bréfsins deyr Baldvin af afleiðingum eldsvoða á heimili  sínu í Kaupmannahöfn í desember 1832; hann skaðbrenndist þegar kviknaði í rúmtjöldum hans (var hann kannski að hugsa um Kristrúnu?) og lést 9. febrúar 1833: „Íslands / óhamingju / verður allt að vopni“ orti vinur hans, Bjarni Thorarensen skáld, í minningu Baldvins.

Bókin Ég er þinn elskari hefur að geyma bréf Baldvins til Kristrúnar en hennar bréf til hans eru öll glötuð. Er þá eitthvað hægt að ráða í hvernig sambandi þeirra tveggja var háttað? Það er að sjálfsögðu spurning sem Erla Hulda Halldórsdóttir, ritstjóri útgáfunnar og prófessor í sagnfræði, spyr í upphafi inngangs síns að bókinni:

 

Hvað er þá hægt að lesa um hug hennar og hjarta? Ástarharmsaga Kristrúnar og Baldvins vekur ekki aðeins upp spurningar um þögn og hvernig hægt sé að fylla upp í eyðurnar í sagnfræðilegri frásögn heldur líka klassískar spurningar um túlkun og framsetningu heimilda, um völd og valdahlutföll kvenna og karla, um virði heimilda og það hvernig goðsagnir um fólk og atburði fortíðar verða til. (8)

 

Ýmsar sögur (og goðsögur) lifa um þetta ástarsamband, þar sem í brennidepli er sú staðreynd að Baldvin Einarsson, sem þrátt fyrir sína stutta ævi er þekktur í íslenskri sögu, hafði ekki dvalið lengi í Kaupmannahöfn þegar hann heillaðist af danskri konu og svíkur Kristrúnu í tryggðum. Kristrún sprakk þó ekki af harmi, líkt og systir hennar, skáldkonan Guðný frá Klömbrum, er sögð hafa gert þegar eiginmaður hennar kastaði henni saklausri úr hjónabandi (eins og faðir þeirra orðaði það) og ráðstafaði tveimur eftirlifandi börnum þeirra í fóstur. Guðný dó ári eftir skilnaðinn en Kristrún fyrirgaf Baldvini svikin og þau slitu í raun aldrei sambandinu, jafnvel eftir að Kristrúnu berast fréttir, seint og um síðir, að Baldvin hafi kvænst dönsku konunni, Joanne Hansen, og eignast með henni barn.

Í bréfum sínum til bæði Kristrúnar og föður hennar lætur Baldvin að því liggja að hann sé fórnarlamb í þessum ástarþríhyrningi, hann geti ekki slitið sambandinu við Joanne því það gæti ógnað lífi hennar og þegar hann kemur í stutta ferð heim, sumarið 1828, endurnýja þau Kristrún heitin – en í Danmörku er Joanne orðin ófrísk. Því heldur Baldvin leyndu fyrir Kristrúnu eins og reyndar einnig því að hann kvænist Joanne í október 1928. Því leyndi hann fyrir Kristrúnu allt til ársins 1831. Í bréfi sem er skrifað það ár játar hann loksins að hann sé „nú giftur“ og á eftir fylgir fremur kaldranaleg lýsing á eiginkonunni, sagt frá því að hún hafi eignast dreng, og vorkennir hann sjálfum sér mikið því „hér er bágt að lifa af fyrir gifta menn, því kandidötum þykir nógu þröngt um þó lausir séu og liðugir, auk heldur með konu og börn í eftirdragi“ (201). Undirskrift bréfsins er á borð við fyrri bréf: „þinn einlæglega elskandi“.

Bréf Baldvins til Kristrúnar eru á bls. 99-209 í bókinni en á undan þeim fer tæplega sjötíu blaðsíðna inngangur Erlu Huldar sem hefur yfirskriftina: „Ástarharmleikur. Inngangur um sendibréf og ást“. Þar greinir Erla Hulda bréfin út frá gagnrýnu kynjafræðilegu sjónarhorni sem varpar nýju ljósi á ástarsambandið og eðli bréfanna. Með því að tengja sögu Kristrúnar við íslenska kvennasögu, stöðu kvenna á fyrri hluta 19. aldar, tekst Erlu Huldu einnig með ágætum að fylla upp í þær eyður sem óhjákvæmilega eru á bréfasambandinu þar sem öll bréf Kristrúnar eru glötuð; „því er hennar sjónarhorn og tilfinningar aðeins bergmál í bréfum hans, bréfum annarra, örfáum kvæðum og sögum um ást þeirra“, eins og segir á baksíðu. Það er t.a.m. mjög áhugavert að lesa um baráttu Baldvins og Kristrúnar við föður hennar, því í upphafi vildu þau að hún fylgdi honum til Kaupmannahafnar. Innblásinn af hugmyndum upplýsingar – og kannski líka af verkum Rousseaus – reynir Baldvin að sannfæra föður Kristrúnar um gagnsemi þess að mennta konur og leiða honum fyrir sjónir að Kaupmannahöfn sé ekki eins hættuleg og hann telur. Í viðauka aftast í bókinni eru birt bréf Baldvins til Jóns sem varpa ljósi á baráttuna við föðurvaldið, sem varð ekki þokað.

Annar áhugaverður kafli inngangsins hefur yfirskriftina „Orðræða ástarinnar“ en þar segir: „Óhjákvæmilegt er að skoða bréf Baldvins og þá orðræðu sem þar er í samhengi við bókmenntalegt eðli þeirra og tengsl við bókmenntir og hugmyndastefnur samtímans á borð við upplýsinguna og rómantísku stefnuna. Hvort tveggja hafði áhrif á Baldvin […]“ (19). Hér er bent á að Baldvin „iðkar“ ást í bréfaskrifunum og vafalaust hefur Kristrún svarað í sömu mynt. Hafa ber í huga að sá tími sem þau vörðu saman á sama stað, á því sjö ára tímabili sem bréfin ná yfir, telur ekki nema nokkra mánuði í heild. Lengsti tíminn hefur líklega verið í upphafi, þegar Baldvin lá veikur á heimili Kristrúnar (í meðferð hjá föður hennar, sem stundaði smáskammtalækningar) og naut hjúkrunar hennar og systra hennar. Af þessum skömmu samvistum – eða öllu fremur, hinum löngu fjarvistum – kviknar ást sem mögnuð er upp í skrifum sem eru innblásin rómanískri og bókmenntalegri orðræðu. Það er ekki að ósekju að Baldvin skrifar í einu bréfanna: „Mínu lífi get ég sannarlega líkt við sorglegan róman, ég er viss um að margur mundi gráta að lesa hann“ (194).

Ég er þinn elskari er frábær lesning – alveg á pari við sorglegan róman – og inngangur Erlu Huldar bregður nýju ljósi á sendibréfaástir þeirra tveggja, sem og á þær sögur og goðsögur sem lifað hafa með þjóðinni um þau tvö í hartnær tvær aldir.

Ritdómurinn birtist í Heimildinni 15. desember 2023

 

Tengt efni