SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir10. október 2025

FJÖRUTÍU ÁRA SKÁLDAAFMÆLI MARGRÉTAR LÓU!

 

Margrét Lóa Jónsdóttir ljóðskáld fagnar nú í haust fjörutíu ára skáldaafmæli sínu en fyrstu ljóðabókina, Glerúlfa, sendi hún frá sér 11. október árið 1985 - aðeins átján ára gömul. Síðan hefur komið út eftir hana fjöldi ljóðabóka og fyrir þá síðustu, Pólstjarnan fylgir okkur heim, hlaut hún Bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar, sem kennd eru við Tómas Guðmundsson skáld. Pólstjarnan kom út í fyrra og var tólfta ljóðabók Margrétar Lóu.

 

Margrét Lóa ætlar að fagna þessum áfanga á laugardaginn 11. október með ljóðalestri á Kaffi Golu á Hvalsnesi í Sandgerði og þar mun hún meðal annars lesa upp úr fyrstu ljóðabók sinni. Með Margréti Lóu verða fleiri skáld eins og sjá má í frétt um viðburðinn.

 

Hér fyrir neðan má lesa tvö ljóð úr fyrstu ljóðabókinni, Glerúlfar, sem kom út fyrir 40 árum:

 

 

 
Í býtinu
 
Ég reyndi að laða fram G-lykil
í marga daga og margar nætur.
Söknuðurinn yfirtekur ljóðformið.
Ég reyndi að knýja á þögnina.
Á orð.
Og ég málaði myndir
– en skúffurnar brosmildar og dularfullar
fylltust af þér.
 
 
 
Dýpt
 
Ég sleiki varir mínar
saltar þurrar.
Hugsa um líf í þöglum
blautum skógi.
 
                     Miskunnarlaus tíminn.
                     Virðir ekkert.
 
Ég hlæ.
Gaspra við bleika fugla
úr brenndu víni.
 
 
Ég bíð. Og þráin
kitlar mjúklega í augað.
 
                                            Margrét Lóa 1985

 

Tengt efni