SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir22. október 2025

HEFND OG FLÓTTI - NÝTT FRÁ NÖNNU RÖGNVALDARDÓTTUR

 

Nanna Rögnvaldardóttir stormar inn á ritvöllinn með tvær bækur í ár. Mín er hefndin er ný bók og sjálfstætt framhald af Þegar sannleikurinn sefur þar sem áfram er fjallað um glæparannsóknir og ástamál húsfreyjunnar í Hvömmum. Um leið er ljósi varpað á siðferði og réttarfar 18. aldar, ekki síst þann aðstöðumun sem eignir og ætterni sköpuðu fólki þegar refsivöndur laganna vofði yfir, segir í kynningartexta. En bókarkápan er reyndar eins og hún hafi verið hönnuð hjá Ásprenti 1980.

Þegar Bergþóra í Hvömmum kemur að líki á víðavangi sér hún strax að manninum hefur verið ráðinn bani. Hún veit líka að ýmsir sveitungar hennar báru heiftarhug til hans. Nokkru áður höfðu farið fram réttarhöld í Hvammahreppi þar sem blásnauðir einstaklingar hlutu óbærilega þungar refsingar fyrir litlar sakir. Margir eiga harma að hefna og fleiri gætu verið í hættu en sá sem liggur á grúfu frammi fyrir Bergþóru í fyrsta snjó vetrarins.

Flóttinn á norðurhjarann er fyrsta barnabók Nönnu en fyrir hana voru henni veitt Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2025. Bókina byggir hún að hluta á raunverulegum atburðum og aðstæðum fólks á árunum eftir Skaftárelda. 

Það ríkir hungursneyð á Íslandi í kjölfar eldgoss. Solla er nýorðin tólf ára þegar mamma hennar segir henni að til að lifa af þurfi þær að yfirgefa kotið sitt. Solla getur ekki ímyndað sér hvert þær geti flúið. Þær eiga engan að nema hvor aðra. Hvern ætlar mamma að biðja um hjálp? Og hvaða leyndarmál geymir hún sem Solla má ekki vita? Veturinn er nýbyrjaður þegar þær ösla af stað í norðurátt. Þær eiga langa og lífshættulega ferð fyrir höndum og á áfangastað bíða nýjar áskoranir og óvæntir atburðir, segir í kynningartexta. Spennandi og gleðilegt að fá ferska og þjóðlega ungmennabók.

Nanna verður að teljast með fjölhæfustu rithöfundum landsiins. Hún semur jöfnum höndum matreiðslubækur og sögulegar skáldsögur og fær barnabókaverðlaunin 2025 fyrir sína fyrstu ungmennabók. 

 

 

 

Tengt efni