SPYRNUM Í FJÖLLIN, SYSTUR!
Í tilefni kvennaverkfalls í dag, eru birt tvö valdeflandi ljóð eftir Guðrúnu Hannesdóttur.
Hið fyrra, „það hlýtur að vera", er úr fyrstu ljóðabók hennar fléttum frá 2007. Hið seinna, „jafnrétti (af fjöllum)" er úr ljóðabókinni humátt (2015).
það hlýtur að vera
Ég hlýt að hafa staðið
á eyðilegri heiði
um niðdimma nótt
borað krepptum tánum
niður í votan svörðinn
fundið veiðihárin spíra út úr nefinu
heita blóðtauma
hríslast um tennur og tungu
og augun loga af grimmd
hlýt að hafa keyrt
hnakkann á bak aftur
og sperrt út klóhvassa fingur
í eitt skipti fyrir öll
og rekið upp þvílíkt
skerandi skaðræðisöskur
að stjörnurnar á himninum
dofnuðu um stund
hvernig hefði ég annars
getað fæðst aftur
svona yfirmáta
mild og meinlaus?
jafnrétti
(af fjöllum)
forngrýtis fokk!
flekarnir silast áfram
með sömu hægð
og neglur okkar
vaxa
horngrýtis hangs!
eftir engu er að bíða
og bættur skaðinn
þó glitti í logandi
kviku
spyrnum í fjöllin, systur!
nístum steinana! myljum fjötrana!
svo aldirnar líði ekki áfram svona
óáreittar
ljósm. Ólafur K. Magnússon, Ljósmsafn Rvk

