SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir29. ágúst 2025

LANGT AÐ REKINN OG LEYNILEGUR DRAUMUR - Guðrún Hannesdóttir segir frá

Í dag birtist safaríkt viðtal við skáldkonuna Guðrúnu Hannesdóttur á vefnum Lifðu núna. Tilefnið er útgáfa Ljóðasafns sem inniheldur allar 10 ljóðabækur hennar með ítarlegum eftirmála eftir dr. Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur. Aðspurð hver séu yrkisefni ljóða hennar og hvað þau eigi sameiginlegt, segir Guðrún:

„Ef ég ætti að nefna einkenni ljóðanna er það að þau eru stutt og einföld og að ég er mjög gefin fyrir að finna og nota falleg og óvenjuleg orð og setja þau í nýtt samhengi svo þau gleymist ekki. Rétt áðan mundi ég eftir svo fallegu orði „silkibleikur“ sem er gamalt í málinu, ég hef séð það bæði notað um fugl og hest. Það er undarlegt hvernig sum orð ljúkast áreynslulaust upp fyrir manni, maður veit einhvern veginn alveg hvað átt er við, og gaman að hugsa til þeirrar manneskju sem bjó það til. Orð eru dýrmæt, þau hafa ferðast milli alda og menningarheima og bera með sér mikinn farangur. Það yrði mikill skaði ef hæfileikinn til að nota þau storknaði í einhverri vélgerðri aðferð til frambúðar.“

Í viðtalinu segir Guðrún m.a. frá langt að reknum og leynilegum draumi sem er virkilega áhugaverður og plani B ef draumurinn rætist ekki og birt er eitt af hennar frábæru ljóðum í lokin.

Viðtalið má lesa hér. Einnig er vert að benda á viðtal hér á skáld.is sem Steinunn Inga tók við Guðrúnu 2020, Hljóðlátt en magnað bergmál manna á milli, sjá hér fyrir neðan. 

Mynd af vef Lifðu núna.

 

 

 

Tengt efni