ÉG LIFI OG STARFA SEM ÚTIGANGSMAÐUR
Reykjavíkurborg samþykkti stefnu árið 2019 í málaflokki heimilislausra. Hægt gengur að fjármagna og innleiða hana. Fleiri þyrftu að taka þennan málaflokk upp á sína arma. Ljóst er að fjöldi heimilislausra á Íslandi fer sívaxandi. Um þessar mundir eru a.m.k. 300 manns heimilislausir árið um kring og enn fleiri á götunni tímabundið. En er flækingslífið heilbrigðisvandamál, félagslegur vandi eða vandi hvers og eins? Hver ber ábyrgðina? Þetta er ekki einfalt mál og engin lausn í sjónmáli.
„… ég lifi og starfa sem útigangsmaður í Reykjavík. Starfið felst í því að vera útundan. Ég tel ég megi fullyrða að ég sé bara góður í því og að búðareigendur miðbæjarins gæfu mér meðmæli ef þess væri óskað. Þjóðfélagið þarfnast harms svo venjulegt fólk finni til. Ákveðnum prósentufjölda hverrar kynslóðar verður að ýta út á kant. Mér ber að ganga daglega um bæinn og skapa viðbrögð og tilfinningar hjá samborgurunum…“ (161) segir í Flækningnum eftir Kristínu Ómarsdóttur. Frábærri skáldsögu sem vert er að rifja upp núna þegar kalt er úti hjá þeim sem eiga hvergi höfði að halla.
Kristín dregur upp nöturlega mynd í Flækingnum af skuggalegum heimi sem fæstir þekkja og af fólki sem við kannski finnum til með en viljum sem minnst af vita. Og á listilega íronískan hátt stangast útskúfun og einmanaleiki persóna sögunnar á við frelsis- og sjálfstæðishugmyndir þeirra sjálfra.
Í umfjöllun um bókina, "Þjóðfélagið þarfnast harms... " segir Steinunn Inga m.a.:
Sagan gerist um vetur, tilveran er grá og köld. Fíklarnir búa við ofbeldi, útskúfun og auðmýkingu alla daga en á milli koma góðar stundir, sérkennileg vinátta og samkennd skapast og ástin kviknar, sjúkleg og ofbeldisfull. Hrafn lætur dagana líða við að redda sér einhverju ætilegu, vímuefnum og lyfjum, fara á bókasafnið til að lesa dánartilkynningar á netinu eða dotta með þykka bók, skreppa á klósett á bensínstöð eða í kirkju og dorma á dýnu þess á milli. Hann ruglar svo saman reytum við hinn svarta Engilbjart og týndu stúlkuna Emmu en í félagsskap þeirra fara hjólin að snúast. Hrafn er vissulega viðsjárverður gaur og ekki með öllum mjalla en Engilbjartur er stórhættulegur, snarvitlaus og siðblindur.
Þegar þeir félagar hafa brotist inn til að redda sér pening eða fundið matarafganga í ruslatunnum, fyllt vatnsbrúsa og innbyrt einhver eiturlyf, eru þeir alsælir og gerast heimspekilegir í pælingum sínum, m.a. um samfélagið sem þeir sniðganga og afneita...
„Eignarétturinn er atvinnuskapandi,“ sagði Engilbjartur eitt sinn, „og skapar störf lögregluþjóna, lögfræðinga, dyravarða, húsvarða, tryggingafólks, öryggisvarða, bankastarfsfólks og fangavarða.“ „Hvað skapar eignarétturinn marga glæpamenn?“ spurði ég sjálfan mig nú, því ég var lengi að hugsa og bregðast við upplýsingum frá öðrum. Og hvað skapar hann mörgum eignaleysi og fátækt? Eignarétturinn drífur samfélagið áfram um leið og hann liggur á því eins og mara“ (159).
Beitt og fljúgandi skemmtileg bók!


