SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir28. desember 2025

SÉRSTÖK OG EINSTÖK

Þegar ein vinkona mín hlýddi á langt órímað ljóð sem geymdi frásögn af dularfullum atburði upp á heiði velti hún fyrir sér hver munurinn væri á ljóði og sögu. Mörkin eru alls ekki alltaf skýr enda rúmast hvorki skáldskapur né raunveruleiki endilega vel ofan í ferköntuðum boxum, sem síðan má stafla upp í minninu, eins og Íkeakössum á háalofti.

Ég minnist þess einhverju sinni að hafa hlustað á Kristínu Ómarsdóttur lesa upp texta. Ekki man ég hvers kyns sá texti var en þykist hins vegar muna að skáldkonan hafi haft á orði að hún kysi að skilgreina hann ekkert sérstaklega og gott ef hún sagði ekki líka að hún væri ekkert sérstaklega hrifin af slíkum merkimiðum. Ég slæ þó þann varnagla að þetta er skrifað eftir mínu brigðula minni.

Nú fyrir jólin sendi Kristín frá sér þriðju bókina í seríunni Móðurást. Þessar bækur eru stuttar en slíkar bækur, sem ramba á mörkum þess að vera langar smásögur og stuttar skáldsögur, kallast gjarnan nóvellur. Í skráningarsafni bókasafna er bókin flokkuð sem skáldsaga og skáldævisaga. Það fer í sjálfu sér ekkert illa á því. Bókin geymir sannarlega sögu og enn fremur sögu byggða á lífi formæðra Kristínar svo að ætla má að sitthvað sé byggt á raunverulegum atburðum. Bókasafnskerfið kallar líka á nauðsynlega flokkun til að verðandi lesendur rati nú á rétta hillu. Þá er víst einnig jafngott að bókaflokkurinn sé allur geymdur á einum stað til að einfalda veröldina.

Verkið Sólmánuður er þó að mörgu leyti mun líkara ljóði en sögu. Mögulega mætti kalla verkið móderníska eða einfaldlega nútímalega ljóðsögu en þó ekki til að unnt sé að færa textann í einhvern búning skilgreiningar (þó að ég sé vissulega frekar hrifin af hvers konar flokkun) heldur til að draga fram betur en ella hversu ljóðrænt verkið er en það er mun lýrískara en fyrri tvær bækurnar, bæði í orðfæri og stíl. Það verður þó ekki sagt að það sé vandi að flokka verkið heldur felst vandinn í þeim hefðbundnu skilgreiningum sem eru fyrir hendi og ná illa utan um verk sem bregða út af hefðinni og fara út fyrir kassann.

Fyrsti kafli Sólmánaðar hefst á persónugervingu, þar sem kaflaheitið rennur saman við fyrstu orð kaflans: „Sumarkvöldið hljóp… gegnum baðstofuna.“ (7) Síðan vindur sögunni fram en saman við hana er víða að finna ægifagurt myndmál sem er oftar að finna í ljóðum en lausamáli: „ Á gullskóm rennir sólin sér yfir grasið hinumegin á þekjunni“ (9) og sums staðar er textinn brotinn upp og inndreginn svo að minnir helst á ljóðlínur:

„[…] honum rauða sokka. Sólin

     snérist og

     snérist

     kringum hann og gyllti bróðir minn sem hneigði sig

líktog fyrir drottningu í ævintýrahöll […]“ (12)

 

 

Annað dæmi má sjá hér:

 

            - Ekkó!  -  -
Löngu
   mjög löngu
   síðar, seinna, síðar, seinna, síðar, seinna –
 
ofan úr lofti sögu minnar hanga þessir óróar:
 
                síðar
                                seinna
                síðar
                                seinna
                síðar
                                og
                                                snúast …
                                                                eins og lauf á grein? (65)

 

Á blaðsíðu 82 er sams konar uppbrot á texta og þar er hann meira að segja handskrifaður að miklu leyti. Þá eru bókakaflar jafnan stuttir, jafnvel þrír kaflar á einni og sömu blaðsíðunni, og minna um margt á prósaljóð. Textinn er einnig torskildari en í fyrri bókum, og jafnvel súrrealískur, og reynir meira á túlkun lesandans. Þá eru nokkrar smágerðar teikningar í bókinni, gerðar eftir ljósmyndum af þvottadögum og teikningu á afmæliskorti til Oddnýjar Þorleifsdóttur. Myndskreytingar voru vissulega tíðar í sögum fyrri alda en í dag eru þær frekar að finna í ljóðabókum.

Það má e.t.v. segja að orð einnar sögupersónunnar séu býsna lýsandi fyrir bókina í heild sinni:

-Afar sjaldan röltum við með skjólurnar niðureftir og mjólkum í aftankyrrðinni, snertum sólarlagið með anda okkar, segjum eitthvað sem hljómar ekki einsog kvæði. (124)

 

Bókin er nefnilega ekkert ósvipuð „kvæði“ þó óbundið sé og hirði hvorki um rím né stuðla. Að minnsta kosti er vart hægt að kalla hana skáldsögu í venjulegum skilningi þess orð en tæplega heldur ljóðabók. Hún er eiginlega hvorki né og bæði. Sérstök og einstök líkt og höfundurinn.

 

Tengt efni