SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 7. september 2019

HLEKKUR Í ÓLÁNSKEÐJU - um Þórhildi Sveinsdóttur skáldkonu

Kveðið við mann

„Ekki get ég gert að því,

gremju til þó finni,

því stærsti hlekkur ert þú í

ólánskeðju minni.“

(19. júní 1959)

Þórhildur Sveinsdóttir skáldkona sem orti þessa vísu fæddist 16. mars 1909 á Hóli í Svartárdal, Austur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hennar voru hjónin Sveinn Jónsson og Vilborg Ólafsdóttir og forfeðurnir voru margir orðlagðir ljóðasmiðir.

Þórhildur sendi frá sér tvær ljóðabækur, Í gær og í dag (1968) og Sól rann í hlíð, 1982 og er sú bók aukin og endurbætt frá þeirri fyrri. Æsku- og uppvaxtarárin liðu við venjuleg sveitastörf, „baðstofan var skólastofan, þar var lesið, kveðnar rímur, sagðar sögur, sungið og brugðið á leik og þar naut hagmælskan sín vel“ segir um hana í minningargrein í Morgunblaðinu.

Þórhildur var 294. skáldkonan sem bættist í skáldatalið frá upphafi hins góða framtaks hóps áhugasamra bókmenntafræðinga.

 

Skáldkonan orti lipurlega, m.a. þessa heilræðavísu:

 

„Ef þig vélar váleg frétt

vinsaðu úr af snilli.

Sumt er logið, sumt er rétt

og sumt er þar á milli.“

(Húnavaka, 1990)

 

Þórhildur lést í Reykjavík, 7. apríl 1990:

 

„Enginn frestur, ekkert dok,

er því ráð að lenda.

Nú eru komin leiðarlok,

langferðin á enda.“

(ÞS)

 

Meira um skáldkonuna, t.d. hér

 

Tengt efni