SETTI SVIP SINN Á SAMTÍÐINA - Um Þórhildi skáldkonu
Skáldkonan Þórhildur Sveinsdóttir fæddist 16. mars 1909 á Hóli í Svartárdal, Bólstaðarhlíðarhreppi, og lést 7. apríl 1990. Hún bjó lengst af í Reykjavík. Þórhildur sendi frá sér tvær ljóðabækur, Í gær og í dag (1968) og Sól rann í hlíð (1982) og er sú bók aukin og endurbætt frá þeirri fyrri. Einnig birti hún greinar í tímaritinu Húnvetningi.
„Þórhildur var ein af þeim konum sem setti svip sinn á samtíðina. Það var alls staðar tekið eftir henni hvar sem hún kom eða hvert sem hún fór, hún gat aldrei horfið í skugga fjöldans. Hún hafði mjög góða rithönd, var ágætlega máli farin og góður upplesari og kom það sér vel þegar hún var að kynna öðrum það sem hún sjálf hafði samið í bundnu eða óbundnu máli. Hún gerði töluvert af því að skrifa sögur og frásagnir og fórst það vel úr hendi og er töluvert eftir hana á prenti í þeim efnum“ segir í minningargrein um hana í Morgunblaðinu.
Á sama stað er þessi frásögn: „Víst var Þórhildur alvörukona og alvaran henni efst í huga, og oft voru ljóð hennar samofin söknuði og trega, en hún gat líka slegið á léttari strengi og ort í gamansömum tón, og þegar hún flutti eftir sig gamanmál á gleðistundum naut hún sín vel og gladdist þegar aðrir nutu gamansemi hennar. Í ferðalagi frá Reykjavík norður Auðkúluheiði yrkir hún þessa vísu:
Dagsins striti frá ég flý
fegin öllu að gleyma.
Ef að daglangt dvel ég í
dalnum mínum heima.“
Þórhildur átti ýmiskonar handskrifuð blöð í fórum sínum þegar hún lést. Ragnheiður Viggósdóttir gerði útvarpsþátt um óbirta sagnaþætti skáldkonunnar 1982 sem var endurfluttur nýlega á rás eitt og er að finna í Sarpinum: Man ég það sem löngu leið. Í þættinum um Þórhildi er lesið upp þeim, m.a. úr bernskuminningu þar sem fram kom að hún var skyggn. Einnig að hana langaði mikið til að eignast hníf og tálga en enginn vildi gefa henni „svo ókvenlegan hlut.“ Og henni fannst gaman að lesa en ekki fékk hún neina menntun frekar en aðrar konur á þessum tíma.