SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Þórhildur Sveinsdóttir

Þórhildur Sveinsdóttir fæddist 16. mars 1909 á Hóli í Svartárdal, Bólstaðarhlíð. Foreldrar hennar voru hjónin Sveinn Jónsson og Vilborg Ólafsdóttir. Forfeður hennar voru margir orðlagðir ljóðasmiðir.

Á uppvaxtarárum Þórhildar var æskudalurinn hennar þéttsetinn byggð, stutt á milli bæja búið á hverju býli. Æsku- og uppvaxtarár Þórhildar liðu við venjuleg sveitastörf; „baðstofan var skólastofan, þar var lesið, kveðnarrímur, sagðar sögur, sungið og brugðið á leik og þar naut hagmælskan sín vel.“ Þórhildur flutti síðan til Reykjavikur og bjó með Aðalsteini Sveinbjörnssyni verkamanni þar til hann lést 1988, hún var áður gift Víglundi Gíslasyni daglaunamanni (d. 1977) en þau slitu samvistir. Með honum átti hún þrjú börn. Einnig eignaðist hún dreng sem ungur dó af slysförum.

Í minningargrein um Þórhildi sem birtist í Morgunblaðinu segir:

„Þórhildur var ein af þeim konum sem setti svip sinn á samtíðina. Það var alls staðar tekið eftir henni hvar sem hún kom eða hvert sem hún fór, hún gat aldrei horfið í skugga fjöldans. Hún hafði mjög góða rithönd, var ágætlega máli farin og góður upplesari og kom það sér vel þegar hún var að kynna öðrum það sem hún sjálf hafði samið í bundnu eða óbundnu máli. Hún gerði töluvert af því að skrifa sögur og frásagnir og fórst það vel úr hendi og er töluvert eftir hana á prenti í þeim efnum“.

Þar segir einnig: „Þórhildur bjó yfir stóru og viðkvæmu geði sem var vel tamið, aldrei uppgjöf þó syrti í álinn, baráttuviljinn sigraði erfiðleikana, lét aldrei baslið smækka sig. Hún hafði hreinan og bjartan svip, sem var þegjandi vottur um áræði og viljaþrótt. Það var alltaf hlýtt og bjart í skjóli þessarar heiðurskonu“.

Í formála ljóðabók Þórhildar, Sól rann í hlíð, skrifar Einar Kristjánsson (1917-2015) þessi orð meðal annars: „Ég hef oft verið að velta því fyrir mér, hvort hlutur íslensks alþýðufólks í varðveislu tungunnar langar aldir, hafi verið metinn sem skyldi. Ég efast stundum um það. Það má að minnsta kosti slá því föstu, að hlutur íslenskra kvenna í þeirri sögu er stærri en hægt er að sjá á yfirborðinu einu. Svo margar konur ,,skrifuðu í öskuna öll bestu ljóð“... 

Þórhildur skrifaði merka frásögn í Breiðfirðing 1985 sem heitir Þáttur Maríu og er glögg lýsing á stöðu kvenna fyrr á tímum.

Þórhildur orti lipurlega eftirfarandi heilræðavísu: 

Ef þig vélar váleg frétt
vinsaðu úr af snilli.
Sumt er logið, sumt er rétt
og sumt er þar á milli.
 
Einnig orti hún þessa hnyttnu vísu um ónefndan mann:
 
Ekki get ég gert að því,
gremju til þó finni,
því stærsti hlekkur ert þú í
ólánskeðju minni.

 

Þórhildur sendi frá sér tvær ljóðabækur, Í gær og í dag og Sól rann í hlíð sem komu út með margra ára millibili.

Þórhildur lést 7. apríl 1990. 

Enginn frestur, ekkert dok,
er því ráð að lenda.
Nú eru komin leiðarlok,
langferðin á enda. 

 

Heimildir:
Jakob Þorsteinsson: Minningargrein um Þórhildi Sveinsdóttur, Morgunblaðið 19. apríl 1990
Einar Kristjánsson: Formáli að Sól rann í hlíð, 1982

Ritaskrá

  • 1982  Sól rann í hlíð
  • 1968  Í gær og í dag

Tengt efni