SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn14. janúar 2020

TÖFRARAUNSÆI Í ÍSLENSKUM SAMTÍMABÓKMENNTUM eftir Sigríði Albertsdóttur

Töfraraunsæi í íslenskum samtímabókmenntum

Í eftirfarandi grein sem markaði tímamót þegar hún birtist fyrst í 1. tölublaði TMM árið 2000 fjallar Sigríður Albertsdóttir um töfraraunsæi. Það suðurameríska bókmenntafyrirbæri var þá lítt þekkt hér á landi en Sigríður flokkaði það í greininni og skilgreindi og lýsti hvernig það birtist í nokkrum íslenskum nútímaverkum, þar með töldum skáldsögunni Skot, eftir Rögnu Sigurðardóttur (1998) og skáldsögum Vigdísar Grímsdóttur.

Notkun hugtaksins töfraraunsæi hefur aukist í rannsóknum um vestrænar listir og bókmenntir á síðustu áratugum. Töfraraunsæi er heiti sem gefið hefur verið ákveðinni bókmenntategund og hafa fræðimenn ekki verið á eitt sáttir hvar bera skuli niður í umfjöllun um þennan bókmenntaflokk. Töfraraunsæi hefur á fremur óskipulegan hátt verið flokkað með þeim bókmenntum sem ekki teljast til hreinna raunsæisskáldsagna. Má þar nefna goðsögur, þjóðsögur, ævintýri, útópíur, súrrealíska texta, vísindaskáldsögur og hryllingssögur. Hugtakið rennur auðveldlega saman við aðrar bókmenntalegar skilgreiningar, sérstaklega fantasíuna sem reyndar hefur átt við nákvæmlega sömu vandamál að stríða og töfraunsæið, þ.e. fræðimenn hafa átt erfitt með að njörva hana niður.

Sem dæmi um fræðimann sem lendir á villigötum í tilraunum sínum til þess að nálgast viðfangsefni fantasíunnar má nefna Kathryn Hume en í bók sinni Fantasy and Mimesis (1984) leggur hún upp með eftirfarandi skilgreiningu: „Fantasían er allt það sem hvikar að einhverju leyti frá því sem við skynjum raunverulegt, allt frá skrímsli til myndhverfingar í ljóði".1 Með tilliti til þessarar fullyrðingar eru flestar bókmenntir fantasíur. Þ.e.a.s. allar bókmenntir eru fantastískar sem einnig má túlka sem svo að engar bókmenntir séu fantasía (ekkert er undanskilið og þar með er ekkert meðtalið!) Sumsé: þessi skilgreining segir okkar nákvæmlega ekkert.

Vandaðri skilgreiningu er hins vegar að finna í bók Tzvetans Todorovs: The Fantastic. A Structural Approach to a Literary Genre en í rannsóknum sínum leitast hann við að nálgast það sem hann kallar „hreina" fantasíu. Ef skilgreiningar hans eru raktar í stuttu máli segir hann að „hrein" fantasía sé sú saga sem kalli á hik eða óvissu lesandans um það hvort umhverfið sé uppspuni eða ekki. Ef lesandi hikar allan tímann er um fantasíu að ræða en ef hann fínnur útskýringar á fyrirbærinu er sagan ekki fantasía.2 Þessi skilgreining er mjög þröng og útilokar margar sögur sem erfitt gæti reynst að setja í annan fiokk. Einnig hefur Todorov verið gagnrýndur fyrir að að hafna aðferðum sálgreiningarinnar í umfjöllun sinni og að gera ekki ráð fyrir ólíkum menningarheimum. Draugar gætu til dæmis kallað á hik í einum menningarheimi en ekki öðrum, til dæmis ekki á Íslandi þar sem annar hver maður trúir á tilvist drauga og hefur reyndar hitt einn eða tvo!

Þetta bendir Rosemary Jackson einmitt á í bók sinni Fantasy: The Literature of Subversion en hún segir að ekki sé hægt að skilja fantasíuna án þess að skilgreina þjóðfélagið sem hún er sprottin úr. Hún segir að fantasían reyni að uppfylla skort sem sé til kominn vegna þeirra hafta sem mismunandi menningarheimar setji og að hún birti þrá sem leitist við að finna á ný eitthvað sem við innst inni skynjum sem fjarveru og/eða missi. Að sögn Jacksons leitar fantasían uppi það óséða og ósagða í menningu okkar, allt sem hefur verið þaggað niður og/eða fjarlægt. Hún bendir einnig á að skilgreining á sögu hljóti að miðast við það umhverfi sem hún er sprottin úr, þ.e. túlkun sögu hlýtur að miðast við hvort um trúarlega eða veraldlega menningu er að ræða í viðkomandi sögu.

Heimur fantasíunnar er gjarnan uppfullur af óhugnanlegum táknum sem vísa öll til þeirrar staðreyndar að tilraunir mannsins til þess að nálgast hina upprunalegu heild séu fyrirfram vonlausar. Því ríkir gjarnan mikið öngþveiti og örvænting í fantastískum bókmenntum en einnig gróteskur húmor. Þótt mikill grundvallarmunur sé á skilgreiningum Todorovs og Jacksons kemur í ljós að endanlegar niðurstöður þeirra eru mjög svipaðar. Þau slá því bæði föstu að fantasían leitist við að lýsa fyrirbærum sem hvorki er hægt að sjá né segja frá. Fantasían nærist á tvíræðni tungumálsins, þeim orðum og hugmyndum sem við náum ekki að setja fram eða tjá. Fantasían er það sem við getum hvorki afgreitt sem raunveruleika né ímyndun. Todorov leggur megináherslu á hik þess manns sem getur ekki greint þarna á milli en Jackson leggur aðaláherslu á þrá mannins til að nálgast þetta ósýnilega fyrirbæri.

Frá fantasíu til töfraraunsæis Töfraraunsæi hefur verið skilgreint á svipaðan hátt og fantasían og þegar kemur að því að greina þarna á milli verður oft fátt um svör. Eflaust eru flestir lesendur sammála um þá túlkun á Húsi andanna eftir Isabel Allende að höfundur dragi upp mynd af raunverulegum atburðummeð því að nota venjubundnar aðferðir raunsærrar frásagnar en brjóti síðan upp þetta raunsæi með því að bæta inn í söguna óraunverulegum þáttum. Hér erum við komin með eina af skilgreiningum Jacksons á fantasíunni3 og við gætum eflaust notað enn fleiri. Því spyr ég: er töfraraunsæi ekki aðeins nýtt hugtak yfir fantasíu eða fantasían nýtt hugtak yfir töfraraunsæi? Eru þetta ekki bara ólík orð notuð um sama fyrirbæri? Til þess að komast að því verður litið á nokkrar skilgreiningar á töfraraunsæi. Ástæðan fyrir því að ég tók Isabel Allende sem dæmi er sú að flestir tengja hugtakið við suður-amerískar bókmenntir og rithöfunda frá þeim heimshluta. Þar eru fremstir í fiokki þeir Gabriel Garcia Marques, Julio Cortazar, Carlos Fuentes og Jorge Luis Borges sem allir öðluðust heimsfrægð á árunum 1960 til 1970 og í kjölfar þeirra kom Isabel Allende. Hugtakið var þannig upphaflega eingöngu notað um suður-amerískar bókmenntir en er nú orðið alþjóðlegt hugtak.

Skilgreiningar Hugtakið töfraraunsæi var fyrst notað af Þjóðverjanum Franz Roh árið 1925. Hann notaði það upphaflega til að skilgreina hóp expressjónískra málara. Það sem Roh flokkaði undir töfraraunsæi voru einfaldlega málverk þar sem raunverulegir hlutir voru tengdir saman á hátt sem ekki féll undir það sem í daglegu tali kallast raunsæi. Roh ályktaði t.d. að með sínar fljúgandi kýr félli Chagall undir töfraraunsæi vegna þess að raunverulegu fyrirbæri var þar umbreytt í draumkennt ástand.4 Ekki eru allir sammála um hver hafi verið fyrstur til að nota hugtakið töfraraunsæi í tengslum við bókmenntir, en benda má á nöfn eins og José Antonio Portuondo sem notar og túlkar hugtakið á mjög svipaðan hátt og fræðimaðurinn Angel Flores.5

Flores segir að í töfraraunsæi flæði tíminn án nokkurra takmarkana og að hið óraunverulega birtist okkur sem raunveruleiki. „Töfraraunsæið er list hins óvænta" segir Flores. Þegar lesandinn hefur samþykkt umbreytinguna frá hinu venjubundna til þess óraunverulega gengur sagan rökrænt upp. Sagan er aldrei bundin á klafa lýrísks tilfinningavaðals eða ónauðsynlegs barokkstíls, heldur halda höfundar sig fyrst og fremst við raunveruleikann. Lesandinn þarf bara að samþykkja einstaka undarlegan atburð, það dularfulla sem alltaf er að gerast í lífinu. Og sögupersónur eru heldur aldrei undrandi á því sem gerist. Þær taka öllum óvæntum uppákomum sem sjálfsögðum og eðlilegum og ekki er heldur reynt að kafa ofan í sálarlíf persóna eða leita að sálfræðilegum skýringum.6 Ég hallast nokkuð að skilgreiningu Flores því hún passar til dæmis ágætlega við Hús andanna eftir Allende. Þar er til dæmis sagt frá hinni skyggnu Clöru sem færir til húsmuni með hugarorkunni einni saman og segir fyrir um ókomna atburði. Þetta fínnst öðrum sögupersónum sjálfsagt og eðlilegt.

Þær verða aldrei hissa, í mesta lagi þreyttar á fyrirganginum. Undir þetta tekur Wendy B. Faris í ritgerð sinni: „Scherazade's Children: Magical Realism and Postmodern Fiction" en hún tiltekur reyndar fleiri atriði sem saga þarf að uppfylla til að hljóta titilinn töfraraunsæi.7 í ritgerð sinni setur Faris fram nokkur grundvallareinkenni sem nota má til að skoða verk sem skrifuð eru í anda töfraraunsæis. Í fyrsta lagi segir hún að texti þurfi að innihalda þætti sem tengja má við eitthvað sem við getum ekki skýrt með raunsæjum hætti. Í öðru lagi þarf lesandi að hika á milli tveggja andstæðra skýringa á undarlegu fyrirbæri og um leið þarf hann að efast um þennan undarlega atburð. Í þriðja lagi upplifir lesandi nálægð eða samruna tveggja ólíkra heima og í fjórða lagi þarf textinn að draga í efa viðteknar hugmyndir um tíma og rúm. Í fimmta lagi tekur textinn afstöðu gegn skrifræði og beinir honum gegn hefðum og reglum eins og glöggt má sjá í suður-amerískum bókmenntum sem oft gagnrýna alræði og heraga á táknrænan hátt. Í sjötta lagi setja forn trúarbrögð og þjóðsagnir mark sitt á textann en í honum birtist oft löngun til að viðhalda fortíðinni sem oft hefur verið smækkuð eða þurrkuð út. Einnig segir Faris að karnivalískt andrúmsloft sé oft notað í töfraraunsæjum textum þar sem tungumálið sé notað á fjarstæðukenndan og yfirdrifínn hátt.8

Lesendur þurfa ekki að velta þessum einkennum lengi fyrir sér til þess að sjá að þau renna töluvert saman við skilgreiningar á fantasíunni. Það sem skilur sig hinsvegar alfarið frá fantasíunni er sú skilgreining að forn trúarbrögð og þjóðsagnir setji mark sitt á textann og að í honum birtist löngun til að viðhalda tryggð við fortíðina. Í mörgum þeirra greina sem ég hef lesið um töfraraunsæi er áherslan einmitt lögð á þetta atriði. P. Gabrielle Foreman tekur þetta einmitt til umræðu í grein sinni „Past-On Stories: History and the Magically Real, Morrison and Allende on Call"9 en hún segir að ólíkt fantasíu og súrrealisma geri töfraraunsæið ráð fyrir að einstaklingurinn þarfnist tengsla við hefðir og trúarbrögð samfélagsins, þ.e. að hann sé tengdur sögu sinni og menningu.

Með því að einfalda mjög má segja að fantasían geri ráð fyrir einstaklingi sem upplifir heim handan marka samfélagsins en það gerir töfraraunsæið ekki. Í svipaðan streng tekur Ray A. Verzasconi í ritgerð sinni: Magical Realism and the Literary World of Miguel Ángel Austurias en hann gengur einmitt út frá því að í töfraraunsæi sé gamla menningin tekin og heimfærð upp á nútímann. Höfundar nota goðsagnir og hjátrú til að finna nýja merkingu og sýna nútímann í nýju ljósi. Þeir reyna að enduruppgötva í goðsögunum hin upphaflegu tengsl mannsins við náttúruna og sjálfan sig. Textinn má vera fáránlegur en þarf um leið að vera gæddur vissum trúverðugleika.10

Ég mun aðallega notast við þessa skilgreiningu Verzasconis, Faris og Foremans í túlkun minni á íslenskum töfraraunsæisbókmenntum, a.m.k. í grundvallaratriðum, því hún er sú eina sem ekki rennur alfarið saman við fantasíuna. Um leið mun ég grípa til fleiri atriða frá Faris svo og atriða úr fantasíunni því ég tel að „hreint" töfraraunsæi sé ekki til frekar en „hrein" fantasía. Einnig vil ég leggja áherslu á að þótt höfundur hafi einhvern tímann verið stimplaður sem súrrealisti eða realisti geti texti hans samt borið einkenni töfraraunsæis.

Íslenska þjóðtrúin

Í íslenskri þjóðtrú er sterk áhersla lögð á að sérhverri manneskju fylgi einhver framliðinn einstaklingur, oftast nákominn ættingi sem verndar þann sem hann fylgir. Fylgjan er sjaldnast sýnileg dauðlegum mönnum en þó þykjast sumir sjá hana, stundum örfáum mínútum áður en sá sem hún fylgir kemur á staðinn. Fylgjan er oft til staðar sem einhvers konar tilfinning eða hún birtist viðkomandi í draumi, t.d. til að vara við komandi áföllum eða vitja nafns ófædds barns.

Í gamla daga þótti óheillamerki að hunsa skilaboð fylgjunnar og í íslenskum bókmenntum, sérstaklega fornsögum og þjóðsögum, eru ótal dæmi um að sá ferst sem lætur skilaboðin fram hjá sér fara. Í eldri sögum er fylgjan sjaldnast elskuleg og umvefjandi, hún er miklu fremur ill og hefnigjörn vera sem ekki fær frið í gröf sinni, gengur aftur og ofsækir heilu byggðarlögin eða kannski bara einn einstakling líkt og sjá má í Grettissögu en þar eltir Glámur Gretti uppi hvert sem hann fer.

Í nýlegri íslenskri skáldsögu, Skot, eftir Rögnu Sigurðardóttur (1998) kemur fylgjan skýrt fram. Fylgjan er það eina sem brýtur upp raunsæisramma sögunnar og því vil ég hiklaust flokka söguna undir töfraraunsæi.

Saga Rögnu fjallar um íslenska konu, Margréti sem vinnur í Rotterdam í Hollandi. Dag nokkurn hittir hún Arno, austrænan og heillandi karlmann og fellur samstundis kylliflöt fyrir honum. En kynni þeirra verða endaslepp því nokkrum klukkutímum eftir fyrsta og síðasta ástarfund þeirra er hann skotinn á færi úti á götu. Sagan snýst síðan um leit Margrétar að morðingja Arno og sú sem aðstoðar Margréti í leitinni er fylgjan hennar sem reyndar er gjörólík flestum fylgjum sem íslenskir lesendur eiga að venjast. Fylgjan er nefnilega fugl, og það enginn venjulegur fugl því hann er blanda af hrafni og uglu. Fugl þessi, sem kallaður er Bokki, fylgir Margréti hvert sem hún fer og það er hann sem stjórnar örlögum hennar. Reynslan hefur kennt henni að það borgar sig að hlusta á heilræði Bokka. Margrét hlýðir rödd fylgjunnar og verður fyrir vikið gæfusöm manneskja og er í sögulok ríkari af reynslu og visku

Ragna tekur hér gamlan menningararf og snýr honum rækilega upp á nútímann (sbr. skilgreiningu Verzasconis). Hún notfærir sér gamlar sagnir af fylgjum, en í stað þess að láta hana vera framliðna manneskju er hún orðin að fugli sem ferðast hefur um öll heimsins höf og blótar á öllum heimsins tungumálum þegar ruddamennskan ber hann ofurliði en það gerist stundum, Margréti til sárrar nauðar.

Þannig er Bokki nútímafylgja, ekki bara hvað útlit varðar heldur og innræti. Og því skyldi fylgjan ekki breytast eins og mennirnir? Íslendingar eru jú hættir að ganga á sauðskinnsskóm í mýrarbleytunni og ferðast nú víðar en til Noregs og Danmerkur. Íslendingar ferðast mikið nú til dags og þarfnast þ.a.l. léttrar og liðugrar fylgju sem getur setið á öxl þeirra og það geta fuglar einmitt. Enginn hefur hins vegar haft spurnir af gamaldags fylgju sem til væri í slíkt!

Verzasconi telur að höfundar noti goðsögur og hjátrú til að finna nýja merkingu og sýna nútímann í nýju ljósi en það gerir Ragna með því að setja Bokka inn í sögu sína. Með aðstoð hjátrúarinnar (Bokka-fylgjunnar) finnur Margrét merkinguna í lífi sínu og í gegnum hann nær hún tengingu við fortíð sína sem annars hefði verið henni hulin um alla eilífð. Ég hef vísað í Skot Rögnu vegna þess að ég vildi taka dæmi um jákvæða og vinalega fylgju en eins og ég hef áður bent á er sjaldgæft að rekast á slíkar fylgjur í eldri bókmenntum. Ein þekktasta fylgjan/draugurinn í íslenskum bókmenntum heitir Gunnvör og hún á heima í Sjálfstœðu fólki eftir Halldór Laxness.

Gunnvör og hreindýrið Líkt og við þekkjum úr suður-amerískum bókmenntum notar Halldór Laxness miskunnarlaust pólitíska umræðu samtímans og þekktar pólitískar persónur sem viðfangsefni í bók sinni. Hann skrumskælir íslenska stjórnmálamenn (andstæðinga sína að sjálfsögðu!), vitnar svo til orðrétt í ræður þeirra og gerir þá að athlægi. Hann notaði beittan penna sinn í stjórnmálaslagnum og var sem slíkur hættulegur andstæðingur. Aðalpersónan í Sjálfstœðu fólki, Bjartur í Sumarhúsum, hefur um margra ára skeið unnið sem vinnumaður á Útirauðsmýri hjá ríkasta bóndanum í sveitinni. Gegn því að taka sér fyrir konu stúlkuna Rósu, sem sonur hreppstjórans hefur barnað, fær Bjartur að launum jörð til að búa á. Þar með er heitasta ósk Bjarts uppfyllt því hann þráir ekkert heitara en að vera sjálfstæður maður á sinni eigin jörð. En hér er jafnframt fyrsti tónn íróníunnar sleginn. Er hægt að tala um frelsi þegar maðurinn öðlast það á jafn niðurlægjandi máta og Bjartur? Íróníunni er haldið við alla söguna og lesandinn efast stöðugt um sjálfstæði kotbóndans. Bjartur fórnar öllu, meira að segja velferð sinna nánustu, barna sinna og konu, til að halda jörðinni, meira að segja þegar hún er honum greinilega töpuð. Hann hamast dag eftir dag og ár eftir ár eins og Sysifos með steininn forðum og það eina sem hann hefur upp úr krafsinu eftir allt stritið er niðurlæging og missir. Á meðan blómstrar fólkið á Útirauðsmýri sem aldrei fyrr, fólkið þar er ríkt og valdamikið í upphafi bókar og í lokin hefur það efnast enn meira.

Lýsingar Halldórs á striti kotbóndans eru í hæsta máta raunsæjar. Bóndinn vaknar eldsnemma á morgnanna og vinnur fram á nótt til þess eins að hafa í sig og sína. Og stundum er það ekki einu sinni nóg. Harðir vetur og slæm vor setja strik í reikninginn, skepnurnar horfalla og mennirnir með. Baráttan við miskunnarleysi náttúruaflanna er endalaus, barátta við ólgandi jökulfljót, vindsorfnar heiðar og óendanleg öræfi. Saga Bjarts sýnir lesandanum af fullri alvöru að uppskera hins fátæka bónda er aðeins erfiði, sorg og dauði. Fátækt fólk sem leggur upp með tvær hendur tómar á enga möguleika og enga hamingju í vændum. En inn í þetta harða raunsæi smjúga töfrarnir, hjátrúin og dularfull öfl.

Í upphafi sögu segir af Kólumkilla, írskum særingarmanni sem flagð nokkurt Gunnvör að nafni leggur lag sitt við eftir dauða hans. Árum saman drepur hún allt kvikt sem nærri henni kemur og þambar mannablóð í stórum stíl uns sekt hennar er sönnuð. Þá er hún aflífuð en almannarómur segir að hún gangi aftur á Albogastöðum í Heiði - þeim bæ sem Bjartur hefur eignast og kallar Sumarhús. Býlið leggst í eyði og þegar Bjartur flytur þangað hefur enginn búið þar í 150 ár.

Stuttu fyrir brúðkaup sitt kemur Bjartur að þessari guðsvoluðu jörð til að kanna ástandið. Hann er einn á ferð ásamt tíkinni sinni, þreifar á jörðinni, horfir yfir landið og segir NEI! Þetta er fyrsta orðið sem Bjartur segir í sögunni og er það orð lýsandi fyrir skapgerð hans. Hann er staðráðinn í að láta ekkert buga sig, hvorki harðæri né draugagang, hann talar upphátt við sjálfan sig, Gunnvöru og Kólumkilla og ákveður að afgreiða þau hjú í eitt skipti fyrir öll:

... við þig er ég ekki smeykur, Gunnvör. Erfitt skal þér að gánga

á móti minni giftu, flagðið; afturgaungur hræðumst ég ei, - krepti

hnefana, hvesti augun, bæði uppí fjallsraufina, vestrá hálsinn

og suðrá vatnið, og tautaði enn nokkur hreystiyrði milli

tannanna í fornsagnastíl, - aldrei skal það!1'

Hann heldur það fast í ákvörðun sína að hann getur ekki einu sinni látið það eftir Rósu konu sinni að kasta steini á dys Gunnvarar en það er trú manna að þeir sem það gera sleppi undan ásókn Gunnvarar. Rósa trúir að það muni róa Gunnvöru en Bjarti verður ekki þokað. Hann segir:. .. ég vil ekki hafa neitt dekur við afturgaungur. Ég held hún megi liggja þar sem hún er komin, kerlingargípan... Fari hún margniðurnegld, helvítis kerlingin,.. .12

Hér er kominn fyrsti fyrirboði eða váboði sögunnar. Fyrirmælum draugsins er ekki fylgt og lesandinn veit að sagan fer illa. Þjóðsagan sem sögð er í upphafi Sjálfstæðs fólks hefur þannig lík áhrif á lesanda og draumar og forspár í Íslendingasögum. Forspáin skapar eftirvæntingu lesanda og vekur upp spurningar. Hafa tímarnir breyst? Er orðið líft á heiðarkotunum? Voru það draugar sem ráku bændur af býlum þeirra og bönuðu börnum þeirra... eða hvað?

Raunsær lesandi áttar sig á að saga Kólumkilla er tvöföld. Það er ekki sögumaður Sjálfstœðs fólks sem segir söguna af Kólumkilla. Það er Reykdalín, einn af ættfeðrum hreppstjórans á Útirauðsmýri, sem það gerir og sú staðreynd fær lesandann til að spyrja sjálfan sig að því hvort höfundur hugsi sér að hástétt fortíðarinnar hafi í og með notað draugasögur til að slá ryki í augu lágstéttarinnar. Reykdalín kennir draugum um fátækt og ill örlög kotunga sinna og hefur eflaust haft hag af þeirri skýringu þar sem spjótin bárust ekki að honum á meðan. Því er saga Kólumkilla tvöföld „annars vegar saga um draugagang á máli þjóðtrúar (Reykdalín), hins vegar saga á „hagnýtu"máli sem segir okkur að hástétt liðinna alda hafi setið yfir hlut heiðarkotunga".13 Í Sjálfstœðu fólki sjáum við hvernig skilgreining Verzasconis, Faris og Foremans gengur meistaralega upp og það er vafalaust leitun að íslenskri skáldsögu sem sýnir jafn glöggt hvernig nýta má hjátrú til að finna nýja merkingu og sýna nútímann í nýju ljósi.

Halldór Laxness notar hjátrúna til að afhjúpa lygina sem íslenskur almúgi hefur búið við um aldir. Hann neyðir lesandann til að horfast í augu við þá staðreynd að í myrkrinu býr aðeins það skrímsli sem mannshugurinn skapar en hann gerir það ekki á harkalegan hátt því hann heldur vissum efasemdum í textanum og þannig svífa töfrarnir ávallt yfir vötnunum.

Bjartur sjálfur sem segist ekki trúa á neitt nema sjálfan sig, og kannski sauðkindina, er fullur efasemda. Hann afhjúpar veikleika sinn í spjallinu við Gunnvöru í upphafi bókar og einnig síðar þegar kindur hans drepast á voveiflegan hátt. Skynsemi hans segir honum að þetta hljóti að vera af mannavöldum en einhvers staðar djúpt í hugskoti hans leynist efínn. Hvað nú ef Gunnvör er komin á stúfana? Lesandinn lifír sig inn í efasemdir Bjarts í myrku heiðarkotinu þar sem heyrast alls kyns undarleg hljóð sem enginn mannleg vera fær skilgreint. Og það er auðvelt að verða hræddur í öllu þessu myrkri og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn.

Bjartur heldur aftur af sér en það gerir Rósa ekki. Hún er hrædd og miður sín frá fyrstu stundu í Sumarhúsum, ekki bara við myrkrið heldur líka við Bjart. Og í tengslum við þá hræðslu skapar höfundur senu sem er líkt og sagan af Gunnvöru, saga í sögunni. Saga sem brýtur upp raunsæið og ljær verkinu ævintýralegan blæ.

Þegar sagan hefst er Rósa ófrísk og eftir því sem lengra líður á meðgönguna því hungraðri verður hún. Hana langar í nýmeti, í ferskt kjöt og mjólk en Bjarti finnst hún ekkert of góð til að borða úldnar afurðir. Þegar Bjartur fer í göngur um haustið notar hún tækifærið og slátrar kind sem Bjartur hefur skilið eftir henni til huggunar í einverunni, bútar hana niður, matbýr og borðar með áfergju! Þegar Bjartur kemur heim vill hann vita hvað hafi orðið um kindina en Rósa þykist ekkert vita, hún er of hrædd við Bjart til að segja sannleikann. Sennilega veit Bjartur innst inni hvernig í öllu liggur en samt sem áður ákveður hann að leita að kindinni og hverfur út í vetrarkuldann.

Hann gengur yfir holt og hæðir í hríðarkófi og kulda en enga finnur hann kindina. Hins vegar kemur hann auga á nokkur hreindýr og ákveður að klófesta tarfinn. Hefur hann engar vöflur á heldur hendir sér á tarfinn. En tarfurinn er ekki á því að láta kotungsbónda buga sig og æðir með Bjart á baki sér „beint útí Jökulsá, og þegar á hrokbullandi sund."14 : Tók boli stundum dýfur miklar í straumköstunum, og gekk þá vatnið Bjarti uppað höku og var óbærilega kalt, og sundlaði hann mjög, vissi ekki hvort mundi fyr að hann misti meðvitundina, eða tuddi tæki þá dýfu sem riði honum að fullu.15

Endalokin verða þau að Bjartur sætir lagi, sleppir hornum hreindýrsins, hefur sig upp úr vatninu og hendir sér yfir á næfurþunna ísskör sem brotnar undan þunga hans en samt tekst honum að krafla sig í land! Það er ekki bara þessi ótrúlegi atburður sem ljær sögunni töfraraunsæjan blæ heldur allt sem á eftir kemur. Skyndilega fær kotbóndinn Bjartur sem er þjakaður af striti, ofurmannlegan kraft líkt og hetjur fornsagnanna og heldur sér stokkfreðnum á lífi með því að kveða rímur og grafa sig í fönn. Þetta er að mínu viti hreint og klárt minni úr Íslendingasögum þar sem venjulegir menn fremja hinar ótrúlegustu hetjudáðir. En sá er munurinn að hjá Halldóri má greina írónískan tón sér í lagi þegar Bjartur er í ánni enda kemur á daginn að Bjarti finnst för sín vera hin háðulegasta og verst allra frétta þegar hann er spurður um ferðir sínar.16 Í meðförum Halldórs verður hin gamla saga um hetjudáðir ný, goðsagan um fornkappann sem berst óragur við náttúru og forynjur og snýr aftur sem hetja til byggða öðlast nýja merkingu í frásögn Halldórs og lesandinn áttar sig á að baráttan við íslensk náttúruöfl hefur aldrei verið og mun aldrei verða neinn barnaleikur.

Ég tel að frásagnarháttur Sjálfstæðs fólks fylgi meginreglu Verzasconis, Foremans og Faris um töfraraunsæi, þ.e.a.s. höfundur heldur ákveðnum trúverðugleika en blandar inn í söguna fáránleika og töfrum. En samt sem áður erum við komin að hiki Todorovs því hér hefur verið sagt beinum orðum að raunsær lesandi hljóti af og til að hika og efast um tilvist drauganna. En hikið er samt ekki jafn snar þáttur í Sjálfstœðu fólki og þeirri sögu sem næst verður rætt um: Eftirmála regndropanna eftir Einar Má Guðmundsson.

Merkingin í merkingarleysinu Eftirmáli regndropanna (1986) er þriðja bókin í þrílógíu Einars Más sem gerist í ótilgreindu Reykjavíkurhverfi. Fyrri bækurnar tvær Riddarar hringstigans og Vœngjasláttur í þakrennum fjalla um smástráka sem hafa ímyndunaraflið að leiðarljósi en þessi strákahópur birtist einungis sem ópersónulegur og ónafngreindur hópur í þriðju bókinni.17 Mikilvægustu persónurnar í Eftirmálanum eru nú hinir fullorðnu, m.a. Daníel prestur og Sigríður kona hans, Anton rakari og sagnaglaður söðlasmiður sem heldur brjáluð ölteiti á verkstæði sínu og þylur sögur yfir fiórtán trillukörlum og bóndanum Gunnari.

„Sagnaheimur Einars er sem fyrr segir tiltekið hverfi í borg sem heitir Reykjavík, en að öðru leyti er ekki beinlínis um raunsæja borgarlýsingu að ræða. Hverfið á að standast sem heimur út af fyrir sig, heimur sem skírskotar til borgarlífs raunverunnar, en gerir það á eigin forsendum, eftir sjálfsköpuðum lögmálum ef svo má að orði komast. Með þessu móti er hægt að skapa úr sögusviðinu eins konar heimskerfi sem túlkar raunveruleikann á þann veg sem minnir á fornar goðsögur . . ,"18 Inn í þennan heim leiðir Einar ýmis furðuleg fyrirbæri eins og til að mynda draugagang og fyrirboða og að auki eru mörk draums og vöku mjög óljós.

í upphafi bókarinnar ferst skip upp við ströndina og með því ferst áhöfnin öll. Frásögnin færist síðan frá áhöfn þessari sem gengur steindauð og rennblaut á land og ásækir bæði menn og konur, til Sigríðar sem dreymir skelfilega drauma og þaðan til söðlasmiðsins sem heldur trillukörlunum uppi á brennivíni og lygisögum. Á meðan öllu þessu fer fram rignir í sífellu, það er dimmt, kalt og drungalegt. Lesandinn veit aldrei almennilega hvort hann er staddur í miðjum draumi Sigríðar, sem sefur meira eða minna alla bókina eða allt þar til í lokin að hún hreinlega deyr, eða hvort upplifun hans er hrollkenndur raunveruleikinn. Eða er lesandinn kannski staddur í draumi Daníels? Er veðurdumbungurinn og látlaust regnið í sögunni martröð hans? Það sem ýtir undir þessa túlkun er að í lok sögunnar blundar Daníel og vaknar síðan rennsveittur eftir „martraðir fullar af fjúkandi dropum og blásandi vindum"19. Er sagan kannski öll eða að hluta til martröð sem hann er nú loks að vakna frá?20 Slíkar spurningar kvikna vissulega við lestur bókarinnar, þ.e. lesandinn hikar og upplifir efa. Veðurgnýrinn ýtir undir efasemdir hans og ruglar hann í ríminu, skil dags og nætur eru óljós og við slík skilyrði er hætt við að skilningarvitin bregðist og ímyndunaraflinu vaxi fiskur um hrygg, rétt eins og gerðist í myrkrinu í torfbæjunum forðum daga.

Raunsær lesandi myndi e.t.v. túlka söguna þannig, þ.e. skella skuldinni á myrkrið og fáfræðina en ég tel að sögu Einars beri að skoða á annan hátt. Hvernig er arfurinn vakinn til lífsins? Yfirleitt birtist hann okkur í brotakenndum myndum og þá kannski fyrst og síðast í gegnum frásagnir söðlasmiðsins af hrakningum og ofurmennum. Söðlasmiðurinn situr í miðju frásagnarinnar eins og sögumenn gerðu gjarnan og miðlar hlustendum af óþrjótandi sagnabrunni sínum. Það sem hins vegar greinir sögumann Einars frá hinum fornu sögumönnum er að úrvinnsla Einars er írónísk. Hinn forni sögumaður er fullur visku og hann hjálpar áheyrendum að skilja hlutverk sitt og stöðu í heiminum. Hann leiðbeinir, upplýsir og fræðir og færir rök fyrir því að maðurinn geti nálgast sjálfan sig í gegnum fortíðina. Sögur hans eru rökfastar með upphafi, miðju og endi og fá áheyrandann til að hugsa, skilja og skilgreina.21 Sögur söðlasmiðsins eru af allt öðrum toga. Þær flæða hver inn í aðra án upphafs, endis eða skiljanlegra skírskotana og áheyrendahópurínn er skilínn eftir í fullkomnu ráðaleysi. Þegar áheyrendur dirfast að spyrja út í smáatriði til að glöggva sig betur á frásögninni svelgist söðlasmiðnum á ölinu og hann reiðist. Sögur hans eru ekki til fróðleiks, þær eru samhengislaust fylleríisröfl sem fullnægir aðeins athyglisþörf sögumannsins. Áheyrendur þurfa ekki að skilja, þeir eiga bara að hlusta.

Á yfirborðinu felur ferðalag söðlasmiðsins inn í fortíðina í sér tilraun til að nálgast rætur mannsins og sameiginlegan arf en þegar allt kemur til alls eru aðstæður óreiðukenndar og áheyrendur engu nær. Þannig eru sögur söðlasmiðsins algjör merkingarleysa og sýna lesandanum fram á hversu langt fólkið sem Einar lýsir er komið frá uppruna sínum, frá hafinu og jörðinni sem nærir það. Í stað þess að finna merkingu í fortíðinni og færa hana yfir til nútímans, eins og algengt er í töfraraunsæi, snýr Einar dæminu við. Með kaótískri tilvísun í þjóðsögur og hjátrú birtist nútíminn okkur sem auðn og tóm. Tengslin við náttúruna eru glötuð, nútíminn er ófullnægjandi steinsteypuauðn. Og draugarnir styrkja þessa mynd enn frekar.

í grein sinni „Magical Romance/Magical Realism: Ghosts in U.S. and Latin American Fiction" bendir Lois Parkinson Zamora á að bókmenntalegir draugar gegni alltaf ákveðnu hlutverki. Sumir draugar gegna því hlutverki að leiða í ljós yfirskilvitlegan sannleika, eru sýnileg eða heyranleg tákn andans - guðs. Aðrir koma fram til að minna á glæpi, grimmd eða erfiðleika og draga horfnar fjölskyldur eða samfélög fram í dagsljósið. Þeir vekja til lífsins eitthvað sem hefur verið bælt en má ekki gleymast og hvetja menn til að endurnýja sinn forna arf eða jafnvel til að hefna ógoldinna skulda. Þannig eru þeir nokkurs konar leiðsögumenn nútímamannsins inn í fortíðina.22

Þegar draugar Einars Más eru skoðaðir má sjá að mjög djúpt er á þeim skilaboðum sem þeim er ætlað að flytja. Þau skilaboð, ef nokkur eru, glatast í galsafengnu kvennafari drauganna og stjórnlausu ráfi, draugarnir eru bara enn ein viðbótin við þennan innihaldslausa heim þar sem fólk nær ekki saman og er ekki fært um að lifa og leika sér. Þannig eru þeir yfirnáttúrulegu atburðir sem einkenna töfraraunsæi Einars Más fullir merkingarleysis en þess ber að gæta að merkingarleysið felur í sér vissa merkingu - kannski hvatningu til nútímamannsins um að gæta að sér og hlúa betur að arfi sínum og menningu.

Draugar með hlutverk í Grandavegi 7 eftir Vigdísi Grímsdóttur sem út kom árið 1994 gegna draugar einnig stóru hlutverki en ólíkt tilvist drauganna í Eftirmála regndropanna hafa þeir ákveðnar sögur að segja og þær sögur miðla visku og þekkingu til lesandans og/eða Einfríðar, aðalpersónu bókarinnar. Eins og þeir vita sem lesið hafa bækur Vigdísar eru viðfangsefni hennar mörg og margvísleg og við fyrstu sýn virðast þau vera afar ólík. í Kaldaljósi (1987) er aðalpersónan lítill drengur sem verður fyrir óbætanlegum missi, Ég heiti ísbjörg, ég er ljón (1989) fjallar um Ísbjörgu, glæsikvendi á glapstigum. Stúlkan í skóginum (1992) tekur á samskiptum listakonu og undirmálsmanneskju og eignarrétti höfundar á sköpunarverki sínu og í Z-ástarsögu (1996) er ástarsamband tveggja lesbískra kvenna í brennidepli.

En þegar grannt er skoðað sést að Vigdís slær alltaf á sömu strengi. Eitt af höfundareinkennum hennar er að láta persónurnar lifa í tveimur heimum, annars vegar í heimi manna, hins vegar í lokuðum draumaheimi þangað sem persónurnar sækja sér styrk þegar veruleikinn verður of sár og yfirþyrmandi.

Einfríður eða Fríða eins og hún er oftast kölluð, aðalpersónan í Grandaveginum, á sér líka sinn einkaheim sem er öðrum hulinn en munurinn liggur í því að sá heimur kemur til hennar frekar en hún sæki til hans. Sú veröld sem hún á hlutdeild í en aðrir ekki er veröld hinna dauðu. Fríða er skyggn, umkringd látnum ættingjum og fólki sem hefur á einn eða annan hátt tengst húsinu sem hún býr í á Grandavegi 7. Fríða er orðin vön hinum dauðu og finnst oft notalegt að finna fyrir nærveru þeirra. Stundum vill hún þó fá að vera í friði en þeir dauðu sitja um hana eins og vargar og heimta af henni ótrúlegustu hluti. Þannig hefur Vigdís snúið dæminu við: í stað aðalpersónu sem flýr inn í einkaheim reynir Fríða að njóta næðis í hinum raunverulega heimi, reynir að hafa stjórn á þessu aðgangsharða fólki og eigin lífi um leið. En þetta samneyti Fríðu við annars heims fólk gerir það einmitt að verkum að sýn hennar á sjálfa sig, heiminn og aðra er þroskaðri en gengur og gerist um 14 ára unglinga. Hún sér ekki aðeins þá dauðu, heldur einnig myndir úr fortíð og framtíð og getur lesið í huga annarra persóna ef því er að skipta. Þannig fær hún innsýn inn í heim hinna fullorðnu þar sem ekki er allt sem sýnist.

Missirinn er eitt aðalþemað í Grandaveginum. Afi hennar og amma misstu tvö börn úr berklum, Eiríkur, einn af fyrrverandi íbúum hússins, missti son sinn í bruna, Einfríður missir bróður sinn Hauk sem drukknar og hún missir einnig föður sinn sem stekkur að heiman eftir dauða sonarins og tekur til við að djamma og djúsa sem aldrei fyrr. Sagan er sögð út frá sjónarhóli þess sem hefur misst og stendur á þröskuldi nýs lífs og bókin hefst einmitt á frásögn um missi.

Hundur Einfríðar, einn besti vinur hennar, verður undir bíl og máfar éta hræ hans upp á augabragði. Þegar Einfríður grefur hundinn að kvöldi hefur allt breyst. Hún hefur fundið nýjan vin, kærasta sem hún vill eyða með lífinu og hin brotna eining fiölskyldunnar er aftur heil. Grandavegur 7 er saga af brotinni fjölskyldu og Einfríður og Haukur bróðir hennar reyna að gera líf sitt heilt á ný með öllum tiltækum ráðum. Þetta er saga af örvæntingarfullum tilraunum barna til að raða sundruðum heimi aftur saman.

Vegna þess hve heitt börnin elska föðurinn er óstöðugt eðli hans sífelld ógn, hótun um að koma aldrei aftur, að skilja þau ein eftir, að farast og deyja. Þau eru síhrædd, óttast að hann gleymi sér, sofni og vakni aldrei aftur. Í hvert skipti sem pabbinn yfirgefur fjölskylduna gleymir hann öllu sem hana snertir og eyðileggur öryggið og merkingu lífs þeirra. Þess vegna eru börnin sífellt að reyna að ná honum heim með „göldrum". Skyggni sína notar Einfríður til að sameina fiölskylduna aftur, í gegnum hina framliðnu reynir hún að átta sig á missinum. Hún reynir að sækja skýringar til hinna dauðu því draugarnir hafa allir sömu sögu að segja og hún. Þeir hafa allir orðið fyrir óbætanlegum missi í lífinu.

„Galdraheimurinn" sem Haukur býr til í því skyni að halda öllu í réttum skorðum er lokaðri en heimur Einfríðar. Hann er óhugnanlegur, dularfullur og merktur dauðanum enda deyr Haukur í örvæntingarfullri tilraun til að halda öllu í réttum skorðum, til að gæta þess að faðirinn fari sér ekki að voða. Ein áhrifamesta mynd bókarinnar er „haugarnir", gryfja þar sem Haukur safnar saman beinagrindum af dauðum skepnum til að virkja lífskraft þeirra. Hann vonar að einn daginn verði þessi staður svo magnaður að hann nái völdum yfir föðurnum og haldi honum heima. En öfugt við Einfríði lokast Haukur inni í helgiathöfnum sínum og ferst að lokum.23

Eins og áður er sagt gegna draugarnir í sögu Vigdísar mikilvægu hlutverki. Í gegnum samræðu sína við draugana nær Einfríður að kanna sitt eigið sjálf og í lok bókarinnar má skynja skilning og sátt við að missirinn sé í eðli sínu hluti af þeirri áhættu að elska, að treysta á aðra. Segja má að vofurnar séu aðeins leikendur í sálarkvölum Einfríðar, tákn fyrir innri baráttu hennar en þær geta einnig vísað til þess að tilvera okkar sé alltaf háð öðrum röddum, öðrum tíma og öðru rúmi og því séum við aldrei bara hér og nú, skýrt afmörkuð frá öðrum. Tilvera okkar er ekki bara bundin nútíðinni heldur skiptir fortíðin einnig máli, þ.e. nútíðin er óaðskiljanlegur hluti af þátíðinni og til að skilja okkur sjálf og stöðu okkar í veröldinni þurfum við að viðhalda tengslum við fortíðina.

Það er einmitt þetta atriði sem svo sterk áhersla er lögð á í töfraraunsæjum bókmenntum og því tel ég að hiklaust megi flokka bók Vigdísar undir töfraraunsæi. Hin sterka hjátrú sem lifað hefur með þjóðinni um aldir, skyggnigáfa, draugar og fylgjur, er vakin til lífsins í sögu Vigdísar og í gegnum hana nær aðalpersónan Einfríður að tengjast sjálfri sér á nýjan og þroskandi hátt.

Ef við mátum Grandaveg 7 við liði Faris sjáum við strax að fyrstu sex liðirnir passa. Liður þrjú er reyndar umdeilanlegur því ekki er víst að allir lesendur efist um tilvist drauganna. Líklegt er að íslenskir lesendur taki þeim sem sjálfsögðu og eðlilegu framhaldi af lífi Fríðu. Hún er bara skyggn en það eru líka svo ótal margir aðrir. Áður sagði ég að missirinn væri eitt meginþemað í sögunni en annað þema er einnig áberandi, þ.e. hin óljósu mörk á milli veruleika og texta, lífs og dauða, sannleika og lygi, þessa heims og annars. Reyndar gefur nafn sögunnar þessi óljósu mörk til kynna því „grandi" merkir meðal annars eiði milli eyjar og lands. Grandinn brúar bil milli tveggja þátta, tengir saman eyju og land, en getur þó hvenær sem er farið á kaf, færst til eða jafnvel rofnað"24. Þannig er tilvera manneskjunnar á þessu ótrausta landi háskaleg og mörkin fljótandi.25 Fríða lifir á báðum þessum plönum, á mörkum lífs og dauða, getur ferðast á milli tímaplana og staða eða verið á mörgum stöðum í senn.26

Fríða er öðruvísi en aðrir eins og gjarnt er um persónur töfraraunsærra sagna. Hún er einfari sem gleymir sér gjarnan í eigin heimi og muldrar upphátt við sjálfa sig, hina dauðu. Þeir sem ekki þekkja hana segja hana klikkaða og forðast hana jafnvel en hennar nánustu reyna að taka henni eins og hún er. Hún er á skjön við raunsæjan heim annarra en um leið er hún sterkust allra.

Bók Vigdísar er saga af missi en ólíkt sögu Einars Más einnig saga samhengis og samruna. Samruna sem verður til einmitt vegna þess að fortíðinni er haldið við og tengslin við forfeðurna endurnýjuð. í lok sögunnar hefur sundruð sjálfsmynd Fríðu hlotið vissa ró. Hún hefur fundið sér félaga, pabbi er kominn aftur og við blasir hamingja en umfram allt von.

Á mörkum töfra og fantasíu Fram til þessa hef ég fjallað um íslenskar bækur sem ég tel að óumdeilanlega megi flokka undir töfraraunsæi og af þeim er Sjálfstætt fólk kannski sú „alhreinasta" - svo ég tali nú eins og Todorov um fantasíuna, um „hreint" töfraraunsæi - ef það er hægt. Vissulega má deila um þá greiningu því eins og fram hefur komið er ekki auðvelt að henda reiður á því fyrir hvað hugtakið stendur eða hvaða skilyrði bækur þurfa að uppfylla til að geta talist töfraraunsæjar. Töfraraunsæi er ekki, frekar en önnur bókmenntaleg hugtök, algilt og afdráttarlaust hugtak. Mér er til dæmis til efs að allir séu tilbúnir að setja Borges í flokk með töfraraunsæjum höfundum.27

Það sama gildir um þann höfund sem ég mun fjalla lítillega um hér að endingu en það er rithöfundurinn Sigurjón Birgir Sigurðsson betur þekktur undir nafninu Sjón. Sjón hefur íyrir löngu getið sér orð fyrir að skrifa og yrkja í anda súrrealisma og fantasíu, fallegan texta og ljótan, og skringilega skondinn, uppfullan af undarlegum andstæðum sem gaman er að eltast við en oft erfiðara að fanga og útskýra. Í þriðju og nýjustu skáldsögu sinni Augu þín sáu mig (1994) er Sjón hins vegar orðinn jarðbundnari - a.m.k. að hluta. Að hluta segi ég því Sjón er ekki á því að láta furðufyrirbærin sigla sinn sjó heldur leyfir þeim að fljóta með sem laumufarþegum.

Þegar sagan hefst er síðari heimsstyrjöldin í algleymingi og þótt fólkið í smábænum Kukenstadt í Neðra-Saxlandi reyni að leiða þá voveiflegu atburði hjá sér teygir stríðið þangað anga sína með komu dauðveiks gyðings á flótta. Gyðingur þessi er falinn á gistihúsi bæjarins þar sem aðalsöguhetjan, ung, lífleg og skemmtileg stelpa Marie-Sophie að nafni starfar sem þjónustu stúlka, en henni er falið að gæta og hlúa að gyðingnum uns búið er að finna honum annan og öruggari samastað. Þótt vesalingurinn, eins og Marie Sophie kallar hann, sé ekki mikið fyrir augað, horaður slappur og visinn, eiga þau saman undurfallegt ástarævintýri og áður en leiðir skiljast hnoða þau saman barni úr undarlegum, ólögulegum klumpi sem maðurinn hefur meðferðis.

Þannig er söguþráðurinn í grófum dráttum í Augu þín sáu mig. Hefðbundin ástarsaga . . . eða hvað? Þetta er vissulega kunnuglegt þema: tvær ókunnugar manneskjur sem mætast í skugga stríðsógnar, verða ástfangnar og „brenna saman" með hefðbundnum afieiðingum. En þær leiðir sem Sjón fer í þessari sögu eru vissulega öðruvísi en gengur og gerist í venjulegum ástarsögum. Eins og hans er von og vísa kryddar hann söguna með alls kyns undarlegum fyrirbærum sem eru algjörlega á skjön við veruleikaskynjun hins raunsæja lesanda. En þegar púslinu er raðað saman fellur hver biti á sinn stað.

Formgerð skáldsögunnar á sér stað á þremur sviðum: A) sviði sögumannsins B) frumspekilegu sviði engla og demóna og C) á sögulegu sviði íbúanna í smábænum Kukenstadt.28 Sá sem segir söguna er sonur aðalpersónanna, þ.e. Marie-Sophie og gyðingsins, klumpurinn í hattöskjunni sem síðar varð barn. Honum er mikið í mun að segja sem nákvæmast frá enda hans eigin sköpunarsaga í húfi og í frásagnargleði sinni stígur hann ýmis hliðarspor út af beinni braut frásagnarinnar, segir sögur í sögunni sem við fyrstu sýn virðast alls ekki koma aðalsögunni við. Áheyrandinn, stúlkan sem stöðugt er við hlið hans, vill fá raunsæja sögu, vill að sögumaður haldi sig við efnið og haldi sig frá öfgum og ofbeldi. Hún grípur inn í þegar henni finnst hann fara á of mikið flug en hann rökstyður ákvarðanir sínar með innri rökvísi sögunnar og vísunum í bókmenntafræði og setur sig þar með í fræðimannsspor. Sögumaður hefur semsagt fullt vald á sögu sinni þrátt fyrir útúrdúra og þegar öllum brotum er raðað saman stendur eftir heilleg, merkingarbær saga, öfugt við sögurnar í Eftirmála regndropanna.

Svið þrjú fjallar um daglegt líf fólksins í Kukenstadt í skugga styrjaldarinnar og það er raunsæjasta svið bókarinnar. Þar segir af „venjulegu" fólki sem reynir að lifa af við óvenjulegar kringumstæður, þ.e. í skugga stríðsógnar en á sviði 2 segir af Gabríel erkiengli og baráttu hans við satan og önnur demónísk fyrirbæri. Líkt og á jörðu niðri ríkir barátta góðs og ills á himnum, þar er hernaðarhyggjan einnig í algleymingi. Sviðin þrjú byggja á einu eða öðru leyti á trúfræðilegum og dulspekilegum textum. Til dæmis er sagan af einkennilegu ástarsambandi Marie-Sophie og gyðingsins unnin upp úr gnostískum og gyðinglegum textum, m.a. hinni gyðinglegu goðsögu um gólemið. Til eru margar útgáfur af sköpun gólemsins eins og Marie Héléne Huet bendir á í grein sinni Misconceptions 29 en hún segir að orðið gólem sem birtist á einum stað í Biblíunni og í mörgum rabbíniskum textum vísi til sálarlauss, ómyndaðs efnis. Á vissu stigi sköpunarinnar er talað um Adam sem „gólem", þ.e. sem formlaust efni og hann verður ekki að manni fyrr en guð blæs í hann lífi. Gyðinglegar goðsögur gera ráð fyrir að hægt sé að endurtaka sköpun Adams en aðeins í takmörkuðum mæli og þá aðeins af upplýstum rabbínum. Til eru nokkrar mismunandi útgáfur af aðferðum sem nota skal til að blása lífi í ómyndað efni en ein er sú að búið sé til úr leir líkneski af manni sem vaknar til lífsins þegar hebreska orðið „emet" (sannleikur) er ritað á enni hans. Ef fyrsti stafurinn er þurrkaður burt stendur eftir orðið „met" sem þýðir „hann er dauður" og þar með er góleminu útrýmt. Samkvæmt elstu sögnum hefur gólemið hvorki mál né sál þar sem það er skapað af mannahöndum og því felur eyðing þess ekki í sér morð. Goðsagan um gólemið hefur löngum heillað manninn og um miðja 19. öldina varð t.d. ör útbreiðsla á vinsælum sögum af R. Leow og sköpun hans á gólemi. Leow þessi eða Lowe var frægur rabbíni í Prag á 16. öld og segir sagan að hann hafi haft persónuleg afskipti af gyðingaofsóknum Rudólfs II. keisara. Lowe á að hafa skapað gólem til að vernda gyðingasamfélagið í Prag og segja sumar sögur að gólemið hafí verið vingjarnlegt og hjálpsamt en aðrar að það hafi verið stjórnlaus skepna knúið áfram af hefndarþorsta og eyðingarþrá.30

Sögurnar af Lowe hefur Sjón örugglega haft til hliðsjónar við ritun sína á Augu þín sáu mig en gyðingurinn hans heitir einmitt Löwe. Þótt hann skapi ekki sitt gólem til að vernda gyðinga felur sköpunin í sér þrá Löwes til að viðhalda sinni eigin sögu og um leið sögu forfeðranna, sögu hinna ofsóttu gyðinga. Og af því að gólemið er hnoðað úr líkamshlutum og líkamsvessum gyðingsins, er í raun fætt af karlmanninum en ekki konunni ber það í sér eiginleika föðurins fyrst og fremst, er eftirmynd hans og algjör framlenging. En munurinn á gólemi Sjóns og hinu goðsögulega gólemi er sá að það hlýtur bæði sál og mál, verður að manneskju sem bæði hugsar og talar, kannski vegna afskipta konunnar og ástarinnar sem hún innleiðir bæði í líf þess og gyðingsins. Þannig getur gólemið borið áfram í sér þrá gyðingsins, drauma og minningar. Og gólemið, sögumaðurinn, er einmitt tákn fyrir nýtt upphaf og nýja tíma því það rýfur þá kyrrstöðu og stöðnun sem í lok sögunnar ríkir í smábænum Kukenstadt og siglir út úr sögunni og því andrúmslofti eyðingar og grimmdar sem þar ríkir.

Sú leið sem Sjón fer til að sýna og brjóta upp kyrrstöðu er vissulega óvenjuleg og þá er ég ekki bara að vísa til sköpunar gólemsins. Á einu sviði sögunnar berjast englar og djöflar um völdin og þeirri viðureign lýkur með því að þegar Gabríel býr sig undir að blása í lúður sinn og kalla dómsdag yfir lýðinn villir satan um fyrir honum á svo svívirðilegan hátt að honum mistekst ætlunarverk sitt. Í stað dómsdagsins, þar sem reikingar eru gerðir upp og nýr tími tekur við, varir kyrrstaðan að eilífu. En eins og áður er sagt táknar gólemið nýtt upphaf, nýja von og nýjan hugsanagang. Og hin ísmeygilegu lokaorð sögunnar „Og nú ertu hér" vísa annars vegar til þess að sögumaður sé hólpinn, hins vegar til þess að hans bíði hlutverk áframhaldandi sköpunar. Sagan, veröldin, er opin til allra átta og möguleikarnir óþrjótandi.

Hér hefur aðeins verið imprað á örfáum þáttum margslunginnar sögu sem ég tel að sé á mörkum fantasíu og töfraraunsæis. Eða kannski á mörkum vísindaskáldsögu og töfraraunsæis. Sköpun gólemsins er t.d. í anda vísindaskáldsögunnar þar sem vélmenni leika löngum stórt hlutverk, tækniundur með mannlega eiginlega, sköpuð af mönnum. Á hinn bóginn er sköpun sögumanns byggð á goðsögunni um gólemið og úrvinnsla höfundar á þeirri sögn færir lesandanum nýja merkingu.31

Því má segja að það sé háð túlkun lesandans hverju sinni hvorum megin skilgreiningar sagan liggur. Sama máli gegnir um nálægð eða samruna tveggja heima því við getum tæplega afgreitt þá ólíku heima með því að segja að í öðrum búi lifendur (fólkið í Kukenstadt) en í hinum dauðir (englarnir og púkarnir á himnum). Hér mætast goðsögulegur heimur og jarðneskur og það kemur ekki heim og saman við þá skilgreiningu sem ég setti hér fram í upphafi. Ýmis önnur atriði sögunnar eru hiklaust fantastísk eins og til dæmis þegar Marie-Sophie kemst óvænt í tæri við barnamorðingjann „Blóðfót" eftir afdrifaríkan og átakanlega fund við unnusta sinn. Eftir að unnustinn hefur nauðgað henni, lendir hún í annarlegu ástandi inni í allt öðrum tíma með allt öðru fólki en venjulega gengur um götur Kukenstadt. Þetta eru mellur og morðingjar sem allir hafa tómar hryllingssögur fram að færa og þegar Marie-Sophie er við það að lokast inni í þessum hræðilega heimi losnar hún úr álögunum og er heima á ný.

Það sem Marie-Sophie upplifir gerist að sjálfsögðu í hugarheimi hennar og á sér samsvörun í því skelfilega ofbeldi sem hún hefur nýrverið mátt þola. Í kjölfar áfallsins splundrast sjálfið og smýgur inn í aðra vídd en að mati Jacksons er slík tvístrun algeng innan fantastískra bókmennta, þ.e. manneskjan veit varla lengur hver eða hvað hún er. Eina stundina er hún stödd í sínu eðlilega, raunsæja umhverfi en þá næstu er hún komin inn í ókunnan og framandi heim þar sem allt getur gerst. Þessi snöggu og óumflýjanlegu umskipti geta ýmist vísað til þess að manneskjan sé aldrei alveg heil segir Jackson en einnig til þess að hún sé að leita einhvers sem hún hefur misst eða aldrei fengið.32 Það sem Marie-Sophie þarf að þola af völdum Karls Maus sýnir á hrottafenginn hátt að alltaf verður gjá á milli þess sem maðurinn þráir og þess sem hann upplifir.

Lokaorð Augu þín sáu mig sýnir glöggt hve vandmeðfarin bókmenntahugtök eru og hve erfitt getur reynst að flokka bækur eftir fyrirfram gefnum lögmálum sem eru kannski engin lögmál þegar allt kemur til alls. Töfraraunsæi er mjög vandmeðfarið og sleipt hugtak og þegar kemur að skilgreiningum sýnist sitt hverjum. Það sem einn segir vera fantasíu segir annar vera töfraraunsæi og öfugt og það virðist fara eftir túlkunarleiðum hvorum megin línunnar bókmenntirnar lenda. Hugtakið er sumsé enn á reiki og ótal spurningum ósvarað. Ég hef hér bundið umræðu mína við íslenskar nútímabókmenntir en er töfraraunsæi nútímahugtak, tengt nútímabókmenntum eingöngu? í Íslendingasögum er goðsögum, töfraraunsæi og fantasíu blandað saman í ofurraunsæjum sögum eins og ekkert sé sjálfsagðara. Og Borges hélt því fram að fornsögurnar væru mikilvægasta uppspretta ímyndunarafls hans. Svo enn og aftur erum við komin að þessari ergilegu og ruglandi spurningu um hænuna og eggið eða því upphaflega og eftirlíkingunni sem gerir allt svo flókið - og skemmtilegt. Eða hvað . . . ?

 

Heimildaskrá

Árni Sigurjónsson. 1987: Laxness og þjóðlífið. Frá Ylfíngabúð til Urðarsels. Vaka-Helgafell, Reykjavík.

Ástráður Eysteinsson. 1987: „Syndaflóð sagnaheims". Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. Reykjavík.

Danow, K. David. 1995: The Spirit of Carnival. Magical Realism and the grotesque. The University Press of Kentucky.

Einar Már Guðmundsson. 1986: Eftirmáli regndropanna. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Faris, B Wendy. 1995: „Scheherazade's Children: Magical Realism and Postmodern Fiction." Magical Realism. Theory, History, Community. Duke University Press, Durham and London, 1995.

Flores, Angel. 1995: „Magical Realism in Spanish American Fiction". Magical Realism. Theory, History, Community. Duke University Press, Durham and London.

Foreman, Gabrielle. 1995: „Past-On Stories: History and the Magically Real, Morrison and Allende on Call." Magical Realism. Theory, History, Community. Duke University Press, Durham and London.

Halldór Laxness. 1987: Sjálfstœtt fólk. Vaka-Helgafell, Reykjavík.

Huet, Marie-Hélene. 1993: „Misconceptions." Monstrous Imagination. Harvard University Press, Cambridge, Massachusets, London, England.

Hume, Kathryn. 1984: Fantasy and Mimesis, Responses to Reality in Western Literature. Methuen, New York and London.

Jackson, Rosemary. 1981: Fantasy, The Literature of Subversion. Methuen, London and New York.

Kristján B. Jónasson. 4. hefti 1995: „Ár stöðugleikans. Um nokkrar skáldsögur sem komu út á árinu 1994." Tímarit Máls og menningar. Reykjavík

Kristín Viðarsdóttir. 1997: Stúlkur í innheimum. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Todorov, Tzvetan. 1977: The Poetics of Prose. Cornell University Press, Ithaca, New York.

Todorov, Tzvetan. 1987: The Fantastic. A Structural Approach to a Literary Genre. Cornell University Press, Ithaca, New York.

Verzasconi, A. Ray. 1965: Magical Realism and the Literary World of Miguel Angel Asturias. University of Washington, 1965.

Zamora, Parkinson Lois. 1995: „Magical Romance/Magical Realism: Ghosts in U.S. and Latin American Fiction". Magical Realism. Theory, History, Community. Duke University Press, Durham and London.

Aftanmálsgreinar

l Hume. 1984:21.

2 Todorov. 1987: 27.

3 Sjá Jackson. 1981:24-25

4 Sjá t.d. Franz Roh. 1925: 15.

5 Sjá Verzasconi. 1965: 11.

6 Sjá m.a. sama rit:12.

7 Faris.: 163-191.

8 Sama: 163-191

9 Foreman. 1995: 285-305.

10 Verzasconi. 1965: 14.

11 Halldór Laxness. 1987: 18.

12 Sama rit: 33.

13 Árni Sigurjónsson. 1987: 87-89.

14 Halldór Laxness. 1987: 103.

15 Sama rit: 104.

16 Sama rit: 112.

17 Sbr. Ástráð Eysteinsson. 1987: 179.

18 Ástráður Eysteinsson. 1987: 184.

19 Einar Már Guðmundsson. 1986: 234.

20 Ástráður Eysteinsson. 1987:185.

21 Danow. 1995:86.

22 Zamora. 1995: 497.

23 Sjá Kristínu Viðarsdóttur. 1997: 87-100.

24 Kristín Viðarsdóttir. 1997: 98.

25 Sama rit: 98.

26 Sbr. atriði 4 og 5 hjá Faris.

27 Sjá Zamora. 1995.

28 Kristján B. Jónasson. 1995: 118.

29 Huet. 1993: 239-243.

30 Sama rit.

31 Sbr. Verzasconi.

32 Jackson. 1981:91.

 

Tengt efni