Steinunn Inga Óttarsdóttir∙14. apríl 2022
„VÆRI HENNI ALVARA...“ Um tvær skáldkonur 1976
Þorbjörg Vigfúsdóttir (1941-1995) er ein skáldkvenna sem lítið fer fyrir. Hún skrifaði ástarsögur á þeim tíma þegar hefð og nýsköpun í formi tókust á, m.a. undir þeim formerkjum að alvöruskáld væru módernistar en alþýðukonur sem komu fram með sín hugðarefni við lítinn fögnuð væru fúskarar sem ætti ekki að taka alvarlega, og styrinn stóð um sveit og borg, fortíð og nútíma. Tvær bækur komu út eftir Þorbjörgu á áttunda áratugnum, Tryggðarpantur og Stúlkan handan við hafið. Erlendur Jónsson fjallaði um Tryggðarpantinn og skáldsögu Ingibjargar Sigurðardóttur, Bergljótu, í bókmenntapistli sínum í Morgunblaðinu sem hann nefnir „Skemmtisagan 1976“ og birtist 17. febrúar 1977. Þar segir m.a.:
„...Eftir að hafa lesið tvær nýjar skemmtisögur íslenskra skáldkvenna, Tryggðapantinn eftir Þorbjörgu frá Brekkum og Bergljótu eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur (útg. Bókaforl. Odds Björnssonar, Akureyri) kemur mér í hug að margt eiga bókmenntir af þessu tagi enn sameiginlegt jafnframt því að þær hafa tekið nokkrum breytingum á áranna rás. Ingibjörg hefur skrifað tugi skáldsagna, en Þorbjörg frá Brekkum er mér alls ókunnug. Þó þarna séu á ferð tvö nöfn er svo margt líkt með sögum þessum að þær gætu verið eftir einn og sama höfundinn.
Saga Þorbjargar er nær í tímanum því í henni er ferðast á bílum. Einnig gerist hún í sveitaþorpi. Og elskendurnir eru barnakennari og iðnaðarmaður. En Ingibjargarsaga dregur slóða aftur í gamla timann með farkennara og baðstofulifi en teygir sig þó loks í átt til nútímans með einum eða tveimur bílum, sveitastúlku sem lýkur stúdentsprófi og stígur í ræðustól á þjóðhátíð og útsýn til borgarlífs. Persónur Þorbjargar skiptast nokkuð i tvö horn eftir því hversu þeim er treyst af ungri stúlku, og raunar einnig í samræmi við hitt hversu þeim er treystandi fyrir ungri stúlku. En persónueinkenni bera allir svipuð. Allt er þetta brosmilt fólk og hlær furðu mikið um leið og það talar: „Maðurinn á götunni hló." — „Elsa hló við." — „Garðar tók hlæjandi um axlir hennar." (Tekið upp af sömu opnunni). Þorbjörg leggur sýnilega megináherslu á söguefnið, stígandina, leitast við að gera söguna spennandi en sinnir litt smáatriðum. Væri henni meiri alvara hlyti maður að spyrja: Hvers vegna lætur hún fólkið hlæja svona mikið, af hverju á það alltaf að vera að hlæja? Þvi hlátur er vissulega margræður og boðar ekki alltaf gott.
Annars víkur Þorbjörg lítt frá hefðbundnum skemmtisagnavenjum. En hver eru þá hin hefðbundnu skemmtisögumarkmið? Dæmigerð íslensk afþreyingarsaga er i fyrsta lagi ástarsaga. Elskendurnir eru meíra en meðalfólk að fríðleik og gervileik. Þeir eru skapmiklir og staðfastir andspænis öllu nema — ástinni! Þeir eru bindindisfólk, skáldkonur sýnast samdóma um að ást og brennivín fari ekki saman. Söguþráðurinn í flestum sögum af þessu tagi er sem hér segir og frá því víkur Þorbjörg lítt: Alls fyrst kynni sem leiða til að pilturinn og stúlkan verða fljótt skotin og síðan ástfangin. Síðan flækja sem skapast af misskilningi með þeim afleiðingum að allt fer út um þúfur um sinn svo taugahrollur vonbrigða og eftirvæntingar hríslast um lesandann. Loks greiðist úr flækjunum jafnframt því sem elskendurnir greiða úr eigin geðflækjum sem skapast hafa af vandræðunum og allt endar í lukkunnar velstandi. Sagan endar sem sé með því að parið ákveður að verða hjón. Lengra er ekki haldið ef öll lögmál eru í heiðri höfð. Framtíðina verður lesandinn sjálfur að eiga, „fagra og heillandi", eða með öðrum orðum ósnortna. En hvað verður þá um „vonda" fólkið sem nauðsynlegt er í svona sögu? Það fær sína umbun með því að verða nýjar og betri manneskjur. Drykkjusvolarnir hætta að drekka. Og hinir, sem borið hafa róg á milli fólks, heita því að verða þaðan í frá orðvarari. Fjöllyndu mennirnir hverfa til sinnar einu réttu.
Af þessum nýju sögum Ingibjargar og Þorbjargar má ráða að læknirinn og hjúkrunarkonan séu þegar fullnýtt, hvorug sagan snýst um þess konar persónur. Söguhetjurnar eru að þessu sinni snöggtum alþýðlegri og má vera að það séu áhrif frá lýðhyggju síðustu ára.
(...)
Það er umhugsunarvert, þegar svo er komið að einungis tíundi hluti þjóðarinnar á heima í sveitum, að þá skuli sveitalíf fyrri tima enn vera höfuðvettvangur íslenskra skemmtisagnahöfunda. Að vísu eru langtum fleiri núlifandi íslendingar fæddir og aldir upp í sveit en þeir sem eiga þar heima nú og kann það að valda nokkru um lífseiglu þessarar hefðar. Hitt hygg ég þó megi sín meira að íslensk skemmtisagnahefð byggir enn á sveitasögunni, á Jóni Thoroddsen, Jóni Trausta, Laxness, Ólafi Jóh. og ótal fleiri. Fyrirmyndirnar frá þeim eru orðnar svo rótfastar að um bókmenntir, sem á þeim byggja þykjast allir vera dómbærir, þar sem borgarlífsbókmenntir koma mörgum fyrir sjónir sem formleysa og óskapnaður. Eða hvenær rennur upp sú stund að skemmtisagnahöfundar taki upp frásagnaraðferðir Guðbergs Bergssonar og Thors Vilhjálmssonar? Nei, Ingibjörg og Þorbjörg og þeirra líkar eiga enn líf fyrir höndum, jafnvel langt líf. Sögur þeirra bjóða upp á nokkurs konar andlegar sólarlandaferðir, rósrauð draumalönd handa þeim sem heima sitja. Eða eigum við heldur að segja að þær ferji lesandann aftur til þeirra góðu gömlu daga sem svo margir virðast sjá eftir af vinsældum þessara bókmennta að dæma.“