Sigríður Einars frá Munaðarnesi
Margrét Sigríður Einarsdóttir var fædd 14. október 1893 í Hlöðutúni í Stafholtstungum í Mýrasýslu, dóttir hjónanna Einars Hjálmssonar og Málfríðar Kristjönu Björnsdóttur, ljósmóður.
Sigríður, eins og hún var jafnan kölluð, ólst upp í Munaðarnesi til sex ára aldurs (eldri systir Málfríðar Einarsdóttur. Eftir að hún missti móður sína fór hún í fóstur á Hvítárbakka. Á unglingsárum þráði hún að menntast og hafði gert ráðstafanir til að komast í Kvennaskólann, en ekki varð af því. Ráðskona var hún hjá föður sínum í Munaðarnesi frá 16 ára aldri til tvítugs. Hún vann fyrir sér sem sýsluskrifari en um 1920 kom hún til Reykjavíkur og hóf störf á Póstmálaskrifstofu.
Árið 1921 fór Sigríður til Þýskalands og stundaði þar nám og ritstörf. Síðan sneri hún aftur í Borgarnes og vann við skrifstofustörf, orti ljóð og skrifaði dagbækur. Síðsumars 1925 starfaði hún við kjólasaum í Magasin du Nord í Kaupmannahöfn.
Árið 1926 kom hún aftur í Borgarnes og vann í sparisjóðnum, uns henni var sagt upp af stjórnmálaástæðum. Þá flutti hún til Reykjavíkur og setti upp saumastofu 1932. Þá kynntist hún Karli Ísfeld og eignuðust þau saman einn son sem nefndur var Einar Ísaldur. Síðustu fimmtán ár ævi sinnar starfaði hún sem gæslukona í Þjóðminjasafni Íslands.
Fyrsta ljóðabók Sigríðar Kveður í runni, kom út 1930 en sú næsta, Milli lækjar og ár, ekki fyrr en rúmum aldarfjórðungi síðar. Ljóðagerð Sigríðar stendur á mörkum hefðar og nýsköpunar, eins og lesa má um hér.
Sigríður þýddi skáldsögurnar Ljós í myrkrinu eftir Michel de Castillo (1966) og Hellarnir á tunglinu eftir Patrick Moore (1970). Þá lauk hún við þýðinguna á finnska goðsagnaljóðabálknum Kalevala, sem kom út árið 1962, en eiginmaður hennar, Karl Ísfeld, hafði þýtt mestallt verkið en lést áður en hann lauk verkinu.
Sigríður átti ljóð í ýmsum safnritum, m.a. í Borgfirskum ljóðum (1947), Pennaslóðum (1950), Svo frjáls vertu móðir (1954), þrjú ljóð í Íslenskum ljóðum 1954-1963 (1972), tíu í Íslenskum ljóðum 1964-1973 (1976), tvö ljóð í Íslenzku ljóðasafni Almenna bókafélagsins (1977) og tíu ljóð í Stúlku (1997). Þá átti hún bæði ljóð og smásögur í ýmsum tímaritum, þ.á m. Sólhvörfum og 19. júní.
Sigríður Einars frá Munaðarnesi lézt á 80. aldursári í Reykjavík, 10. júlí 1973.
Heimildir
Ritaskrá
- 1971 Í svölu rjóðri
- 1970 Laufþytur
- 1956 Milli lækjar og ár
- 1930 Kveður í runni
Verðlaun og viðurkenningar
- 1956 Skáldastyrkur úr ríkissjóði
Þýðingar
- 1970 Patrick Moore: Hellarnir á tunglinu
- 1966 Michel de Castillo: Ljós í myrkrinu
- 1962 Kalevala (ásamt Karli Ísfeld)