SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 1. nóvember 2022

HUGLEIÐING UM TILURÐ ÁSTARSÖGU eftir Steinunni Ásmundsdóttur

Síðsumars árið 2019 fór ég að hugleiða næsta viðfangsefni í skáldsagnaskrifum. Manneskjusaga hafði komið árið áður og fengið mjög sterk og góð viðbrögð lesenda. Ljóðabók var að koma úr prentvélunum á vegum Dimmu. Það var því kjörinn tími til að ákveða efni næstu bókar.

Þá blasti við, líkt og efni Manneskjusögu hafði blasað við mér og í raun verið óumflýjanlegt næsta verk, að þessa sögu yrði ég að segja. Gefa innlit í líf ungra manneskja á því geggjaða ári 1986 í Reykjavík, þegar alþjóðlegir straumar urðu sem flaumur um hina steingeldu smáborg og líkt og í spéspegli mátti skoða snarpar andstæður hvarvetna. Borgin og allt landið fóru á hvolf með ofsahraða, handtök urðu óhemju snör og allir vildu standa fremst og fá að snerta þessa augnabliksfrægð.

Við sem vorum ungt fólk á þessum tíma fórum ekki varhluta af þessari bylgju sem reið yfir og enginn var ósnortinn eftir. Allt í einu fengum við gleggri sýn langt út fyrir landsteina, út í ystu kima, út fyrir okkur sjálf. Heimurinn stækkaði til allra muna og veruleiki manns sjálfs minnkaði kannski sem því nam einnig. Svo ríður ástin, sjálft lífsaflið, auðvitað ekki við einteyming og fór á stökk þarna eins og annars staðar, í þessum gerjunarpotti eftirvæntingar og heimsendaskelfingar. Og svo fór sem fór. Að því er virtist rýr afrakstur leiðtogafundarins olli fyrst um sinn gífurlegum vonbrigðum á heimsvísu en þegar frá leið mátti sjá markverð áhrif hans á framgang veraldarsögunnar.

Nú er hins vegar eins og við séum komin í hring og um leið og við upplifum stríð á jaðri Evrópu má glögglega sjá móta enn á ný fyrir sívaxandi fjandskap hinna stærstu valdablokka sem sýna tennurnar með yfirgangi, peningaafli, vopnavaldi og þrúgandi kjarnorkuógn. Á sama tíma og öllu skiptir að jarðarbúar séu sameinaðir í átaki gegn þeirri miklu náttúruvá af manna völdum sem mun kosta útrýmingu tegundar okkar innan fárra kynslóða ef ekki nást bönd á.

Mig langaði sem sagt að skrifa um þennan tíma og þessar tilfinningar sem ég upplifði sjálf og skapaði þannig Ástarsögu grundvöll og lét svo skáldskapinn fylla í eyðurnar. Ég stúderaði sögusviðið vandlega til að gera mér fyllri mynd af því sem raunverulega átti sér stað, sendi ástina á skeið og breiddi svo yfir allt hina hárfínu blæju spurningarinnar „Hvað ef“ sem flest fólk burðast með í hugskotinu til dauðadags.

 

post scriptum

Nú hafa tveir þekktir einstaklingar ritað saman og gefið út glæpasögu sem liggur, að hluta til í það minnsta, á nákvæmlega sama sögusviði og Ástarsaga, það er að segja á og umhverfis leiðtogafundinn í Höfða haustið 1986. Þetta er Reykjavík-glæpasaga þeirra Katrínar Jakobsdóttur og Ragnars Jónssonar. Það er skondið að sjaldan er ein báran stök og hugmyndir eiga það til að birtast samhliða úr ólíkum uppsprettum.

Ámóta var þegar ég heyrði af því að ungar skáldkonur hefðu bundist samtökum undir heitinu Yrkjur nú í vetrarbyrjun 2022. Ég setti skáldvef minn Yrkir.is í loftið haustið 2016 og hef unnið með þetta nafn síðan í hugverkabirtingum og útgáfu. En svona er þetta bara, maður situr víst ekki einn að neinu í henni veröld.

Steinunn Ásmundsdóttir

 

 

Tengt efni