Ritstjórn∙ 8. september 2021
STABAT MATER DOLOROSA eftir Dagnýju Kristjánsdóttur
Eftirfarandi grein birtist fyrst í Andvara 1988
„Stabat Mater dolorosa“
Um Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur
Ég vil heldur nota hugtakið „lestur“ en hugtakið „greiningu“ til að undirstrika að túlkun mín á Gunnlaðar sögu1 eftir Svövu Jakobsdóttur er persónubundin, er það sem ég og textinn höfum að segja hvort við annað. Aðrir kunna að túlka Gunnlaðar sögu, á annan hátt og þær túlkanir eiga að sjálfsögðu jafn mikinn rétt á sér og mín.
Þó hef ég heyrt eina túlkun á þessari bók sem á ekki rétt á sér að mínu mati — sem ég hika ekki við að segja að sé röng — en hún felst í því að túlka átök Gunnlaðar sögu sem tvíhyggju (dualisma) og lesa bókina sem verk um baráttu góðs og ills. Átök Gunnlaðar sögu eru ekki af því tagi. Bókin fjallar vissulega um andstæður og átök en út úr þeim átökum þróast uppástunga um þriðju leiðina, um nýja hugsun og öðru vísi skilgreiningar. Um það verður fjallað hér á eftir.
Ég dreg inn í umræðuna þær fræðikenningar sem að gagni koma, en mest ber þó á búlgarsk-franska sálgreinandanum Juliu Kristevu (sem er að verða Íslendingum að góðu kunn).2 Ástæðan fyrir því að ég dreg kenningar Kristevu svo mjög inn í lesturinn á Gunnlaðar sögu Svövu Jakobsdóttur er sú, að þessir tveir höfundar hugsa ekki ólíkt um ástina, valdið og hið skapandi orð.
Gunnlaðar saga
Sögumaðurinn í Gunnlaðar sögu er vel stæð, miðaldra kona. Hún er á leið heim frá Kaupmannahöfn í flugvél ásamt dóttur sinni, Dís, og tveimur gæslumönnum hennar. Saga móðurinnar er upprifjun á því sem gerðist í Kaupmannahöfn um sumarið.
Dóttirin hefur verið tekin föst þar sem hún var að ræna forngrip á Þjóðminjasafni Dana, gullkeri, ómetanlegu til fjár. Móðirin heimsækir hana á hverjum degi í fangelsið og hlustar á sögu dótturinnar sem er sjálfstæð frásögn í verkinu, sögð í þriðju persónu fyrst af móðurinni en síðan í fyrstu persónu af Dís.
Dís staðhæfir að hún hafi ekki ætlað að ræna kerinu heldur „endurheimta“ það. Hún segist hafa sogast á yfirskilvitlegan hátt gegnum tíma og rúm, kölluð til fortíðarinnar til að lifa á ný örlög Gunnlaðar.
Gunnlöð er að taka við embætti hofgyðju í trúarkerfi sem byggist á samræmi manns og náttúru, guðdómurinn er kvenlegur, gyðjan. Sem hofgyðja verður Gunnlöð verndari hins heilaga kers gyðjunnar. Þegar nýr konungur er vígður til embættis er honum gefinn drykkur lífsins úr kerinu og fyrsta embættisverk Gunnlaðar á að vera að vígja Óðin til konungs.
Saga dótturinnar heldur áfram frá degi til dags og myndar fortíðarsvið í bókinni. Á nútímasviðinu öðlast móðirin reynslu sem er bæði andstæð og hliðstæð sögu Gunnlaðar. Sögurnar tvær mætast í kontrapunkti, í glæp Óðins á fortíðarsviðinu og Tjernóbýlslysinu á nútíðarsviðinu.
Dönsk yfirvöld hafa frá upphafi tvenns konar skýringartilgátur varðandi sögu Dísar/Gunnlaðar: önnur er sú að stúlkan sé á vegum hryðjuverkamanna, hin er að hún sé geðveik. Að undirlagi móðurinnar verður síðari skýringin ofan á, Dís er dæmd óábyrg gerða sinna og svift sjálfræði — en í lok sögunnar taka málin óvænta stefnu og lokakaflinn kastar nýju ljósi á alla söguna.
Tíminn er eins og hringur
Í greininni Tími kvenna ræðir Julia Kristeva um það hvernig menning Vesturlanda hefur skilgreint tímann sem línu eða strik; tíminn er verkefni, framþróun, það er farið af stað, ferðast áfram, komist á leiðarenda. Þessi tímaskynjun liggur líka til grundvallar skriftinni þar sem hvað rekur annað; frá stórum staf eftir línunum að punktinum þar sem ný ferð hefst frá hægri til vinstri o.s.frv. Með því að þessi tímaskynjun er byggð inn í skriftina og málkerfið stýrir hún líka hugsun okkar og hugmyndum um veruleikann. Hinn línulaga tími þjónar athafnasemi og aga og virkni svo að um munar. Svona tími nær tökum á fólki, stýrir því og á máli sálgreiningarinnar er talað um að fólk sé „haldið“ af hugmyndum á borð við þessa.
Konur hafa upphaflega annars konar tímaskynjun, segir Julia Kristeva; annars vegar er tími hringsins, sem á upptök sín í taktfastri hringrás kvenlíkamans — hins vegar er tími eilífðarinnar, sem er eins konar nærvera allra tíma eða vissa um eitthvað sem ekki er lokið, eitthvað sem mun halda áfram og sú hugmynd endurspeglast meðal annars í goðsögnum allra menningarsamfélaga um upprisu eða endurholdgun. Móðursjúk kona (eða karl) upplifir reynslu sína, minningar sínar, oftast sem hringlaga ferli eða vitneskju sem alltaf hefur verið til.3
Það að skilja tímann sem hringrás er eldra og upprunalegra og þannig var tímaskilningur hinna elstu akuryrkjusamfélaga jarðarinnar þar sem náttúran var viðmið fólks á öllum sviðum. Hringrás náttúrunnar er alltaf sú sama og skilji fólk tímann sem hringlaga ferli þýðir það í raun að tíminn stendur í stað,4 „ekkert“ gerist vegna þess að allt er í raun endurtekning einhvers sem hefur gerst áður og mun gerast aftur. Fólk væntir þess ekki að neitt nýtt eða óvænt eigi sér stað.5 „Tíminn er innra með manni,“ segir Dís, dóttirin í Gunnlaðar sögu, „og hann streymir þar háttbundið eins og blóð. Hlusti maður á tímastreymið innra með sér verður aldrei neitt of snemma eða of seint. Allt verður samræmi og kemur af sjálfu sér.“ (7)
Þetta þýðir að hinn hringlaga tími, tími endurtekningarinnar hefur aðeins eitt tímasvið sem er nútíðin. í Völuspá er talað um örlaganornirnar þrjár, Urði (fortíðina), Verðandi (nútíðina) og Skuld (framtíðina). í sögu Dísar/Gunnlaðar á fortíðarsviði Gunnlaðar sögu er örlaganornin aðeins ein — Urður — og hún sameinar hlutverkin þrjú.
Urður þekkir fortíðina og þess vegna þekkir hún líka framtíðina; hún sér fyrir óorðna hluti, en hún segir þá ekki fyrir, af því að hin siðferðilega ábyrgð á því að hringrásin geti óhindrað átt sér stað er bæði einstaklingsbundin og sameiginleg, trúarleg og þjóðfélagsleg. Þessari ábyrgð getur enginn kastað frá sér, allir verða að fylgjast grannt með þeim breytingum sem gefa til kynna einhvers konar röskun á lifandi takti alheimsins. Það að sjá fyrirboðana og geta þýtt þá, er að vita um vilja guðanna — en það er ofmetnaður að halda að maður geti breytt honum sér í hag. Svo kennir Urður.
,,Allt veit Urður“ segir Gunnlöð, en þekkingu Urðar eru engu að síður takmörk sett. Það sem Óðinn gerir hefur nefnilega aldrei verið gert áður, það sem hann gerir er óheyrt, óhugsandi. Urður les fyrirboðana, næmi hennar segir að eitthvað skelfilegt sé í aðsigi en hún er bundin af siðfræði sinni og getur ekki hindrað sjálf svikin.
Á nútímasviði Gunnlaðar sögu er móðirin, sögumaður okkar, og hún hefur hvorki næmi Urðar né Dísar/Gunnlaðar gagnvart hrynjandi síns eigin líkama eða náttúrunnar. Hún sér ekki að hún situr og horfir á deyjandi tré í Kaupmannahöfn, sér ekki að það sem virðist vera falleg tjörn í borginni er forarvilpa — en minnst er þó næmi hennar gagnvart tilfinningalífi sínu og annarra. Samt þekkir hún tíma sem Gunnlöð og Urður þekkja ekki í rás sögunnar. Það er minning eða óljós vitneskja um sokkið land, land sektarinnar:
Löngu fyrir mitt minni sökk það í djúpið eins og Atlantis og enginn kemst þangað nema hætta lífi sínu. Og þangað liggur enginn sími og jafnvel þótt rödd mín gæti borist þér þaðan mundirðu ekki skilja þá tungu sem ég talaði. Það er ekki mannamál því að landið er eingöngu byggt konum og rödd þeirra er hljóðari en þögnin. Einstaka kona heldur því samt fram að komið geti fyrir þegar svo stendur á um straumhvörf að fiskarnir greini niðinn af máli þeirra í djúpsoginu. (97)
Þrisvar sinnum er móðirin spurð: ,,Hver var hún eiginlega þessi Gunnlöð?“ og þrisvar svarar hún, sjálfkrafa: „Óðinn stal frá henni skáldskapnum“. Svarið er sjálfkrafa, það vitnar um ómeðvitaða þekkingu sem hefur verið bæld, er dulvituð, þekkingu sem á heima í landi sektarinnar. Þess vegna vísar móðirin henni frá sér — afneitar henni þrisvar, með því að krefjast þess að dóttirin verði úrskurðuð geðveik. Svik hennar við dótturina og sjálfa sig eiga sér stað í upphafi frásagnarinnar, en í rás sagnanna tveggja verður móðurinni smám saman ljóst í hverju svik hennar felast.
Það er tími kvennanna, hinn hringlaga tími og tími eilífðarinnar sem Svava Jakobsdóttir notar í byggingu Gunnlaðar sögu. Form sögunnar er hringur, í lok bókarinnar erum við komin aftur að upphafi hennar, en ekki til þess að loka hringnum heldur til þess að opna nýjan hring. Innan þessa ramma hreyfist frásögnin í hringlaga mynstri í tíma og rúmi; hún hefst í flugvél, 30 þúsund fetum yfir sjávarmáli í samtímanum og gerist að miklu leyti í iðrum jarðar, þrjú þúsund árum fyrir Krist. Slík er spennuvídd þessarar sögu. Og sú sem miðlar sögunni og tengir öll svið hennar saman fyrir okkur, er móðirin.
Ástin
„Stabat Mater dolorosa“ þýðir orðrétt „stóð móðirin hin þjáða“ og er tilvitnun í miðaldasálminn sem Pergolesi (1710-36) gerði undurfallegt tónverk við.
Í bókinni Sögur um ástina talar Julia Kristeva um ástina og leggur leið sína gegnum heimspekilega texta, trúarbragðafræði, bókmenntir og sálgreiningu. Hvað er ást? spyr Kristeva og ef við spyrjum svo hljótum við að spyrja: Hvað er ást í augum hvers? Hvað skilur karlmaðurinn með ástinni? Hvað skilur konan? Hver er munurinn á ástum karla og kvenna — ef er munur þar á? Ef við tölum um mun á kynjunum tveimur og tölum út frá kenningakerfi sálgreiningarinnar7 þá liggur sá munur fyrst og fremst í móðurhlutverki konunnar, segir Kristeva í kaflanum: „Stabat Mater“.8 Allar konur taka afstöðu til móðurhlutverksins, ekki síður þær sem geta ekki orðið mæður eða velja að verða það ekki. Að verða móðir klýfur vitund konunnar í tvennt; annars vegar gerist eitthvað í líkama hennar, sköpun sem engin vitni eru að, líf kviknar og vex og hún hefur hvorki vald né yfirráð yfir þeirri reynslu. En um leið og barnið er fætt verður það hlutverk hennar að leiða þetta nýja líf inn í reglu föðurins, hina táknrænu reglu málsins, samfélagsins og losa barnið frá sér svo að það megi verða heilbrigt andlega og lifa af. Móðirin verður þannig að ógilda sína sterkustu reynslu með því að kenna barni sínu (og sjálfri sér) að annað skipti meira máli en hún. Þessi krafa gerir það að verkum að mæður tala oft um að orðin geti ekki lýst reynslu þeirra — það myndast gjá á milli hins raunverulega og hins táknræna og á mörkum þessara tveggja heima er ást móðurinnar til barns síns.
Þetta er það sem móðirin í Gunnlaðar sögu upplifir eins og líkamlegan sársauka — þetta er hin fyrsta „mótsögn kærleikans“ í bókinni:
Síðan geng ég á eftir fangaverðinum inn um dyr og eftir þröngum rökkvuðum gangi með rammgerðum svörtum stálhurðum og fæ skyndilegt högg fyrir bringspalirnar svo að ég næ varla andanum og ég er ekki lengur ég heldur sársaukinn persónugerður sem man lítið barn í fangi sér. Varnarleysi undursins veldur svo sárri hryggð að eitt andartak óska ég þess að það verði aldrei stórt, — að armar mínir megi að eilífu mynda töfrahring um líf þess til að hlífa því við þjáningum og vernda það fyrir vonsku heimsins. Og þó óska ég þess af öllu hjarta að það stækki og dafni og fái að lifa. … (mér finnst) sem ég fái ekki risið undir þessari mótsögn kærleikans sem veldur mér slíkum þjáningum. Ég óska þess að við gætum skipt á hlutverkum, að ég gæti tekið á mig þessa ógæfu sem hún hefur ratað í úr því að mér reyndist um megn að bægja henni frá. Mótsögn kærleikans, segi ég. Er hugsanlegt að þetta kunni að vera brestur í kærleikanum? Ekki mótsögn? Æ, ég veit ekki af hverju mér kemur þetta í hug. Brestur í kærleikanum! Er slíkt til! Er það ekki andstætt eðli kærleikans … ég á við, er ekki einhver rökvilla í þessu? (19)
Ástin er full af mótsögnum og rökvillan getur verið „sannari“ en hin formlega „rétta“ rökleiðsla, það upplifir sögumaðurinn í rás sögunnar. Ástin, blíðan og þjáningin sem flæðir gegnum hana á leið til Dísar, endist ekki lengi en hún er byrjuð að vilja skilja tilfinningar sínar, kafa undir yfirborðið sem lítur svona út:
Ég bjóst við skilyrðislausri uppgjöf í þessu tveggja manna stríði en nú lét hún enn eins og áhyggjur mínar af henni sýndu vanstillingu, jafnvel stjórnsemi. Í gamalkunnum vanmætti yfir skilningsleysi hennar á tilgangi mínum og líðan hneig ég niður á harðan bekkinn sem hún hafði sofið á tvær undanfarnar nætur. Gat barnið aldrei skilið að ég vildi henni aðeins það besta … Ætlaði hún í alvöru að láta eins og ég væri að gera úlfalda úr mýflugu? Ósjálfrátt brynjaði ég mig gegn henni. (19-20)
Þetta er gamalt og endurtekið stríð; barátta þar sem markmið móðurinnar eru völd, yfirráð og ákvörðunarréttur yfir dótturinni sem ver sjálfstæði sitt. Móðirin vill að Dís verði hvort tveggja í senn, sjálfstæð persóna og þó nákvæm eftirmynd foreldranna — það er henni „fyrir bestu“. Eða hefur móðirin í raun viljað að Dís yrði sjálfstæð persóna? Sú spurning leiðir inn í aðra og þriðju mótsögn kærleikans sem hin þjáða móðir hugsar um í Gunnlaðar sögu. Í annað skipti sem hún notar þetta orðalag, situr hún á bekk í garði í Kaupmannahöfn og horfir á gömul hjón, gamla konu og karl, sem styðja sig hvort við annað. Hvorugt getur dottið án þess að draga hitt með sér, hvorugt getur dáið vegna þeirrar ábyrgðar sem þau hafa tekið að sér hvort á öðru. Þau eru löngu orðin kynlaus, eins og Adam og Eva í Paradís, áður en kynskiptingin fékk inntak og dauðinn kom inn í líf mannanna. Þetta er hin önnur mótsögn kærleikans, það að leita svo ástríðufullt að samruna við þann sem elskaður er, en vita innst inni að sá samruni er óhugsandi óðru vísi en sem blekking eða geðveiki.
Myndinni af gömlu hjónunum fylgir sorg en í næsta skipti sem móðirin hvolfist yfir Dís/Gunnlöðu með umvandanir blandnar sjálfsréttlætingum og sjálfshafningu gerist þetta:
… mér var ekki nokkur leið að þagna … ég vildi bara sjá til þess að þú gætir bjargað þér í lífinu áfallalaust … og giftist almennilegum manni. Og yrðir hamingjusöm í þessu lífi … yrðir hamingjusöm … rödd mín var orðin loðin af þoku … eins og í segulbandi undan kodda heyrði ég ávæning af þessari þulu og var sjálf hætt að skilja hana. Eiginlega var hún að drepa mig úr leiðindum. Það var ekki ég sem samdi hana enda hafði ég ekki lengur vald á henni. Þulan hafði náð valdi á mér og bærði varirnar á mér endalaust eins og vél sem ég kunni ekki að stöðva … Það var ekki einu sinni mín eigin rödd lengur … það var hljómur margra radda … misgamalla … (109)
Það er samfélag og siðvenja sem tala gegnum móðurina og hún veit það. Hvar er hennar rödd? Leit móðurinnar að sinni eigin rödd hlýtur að leiða hana bæði gegnum ást og hatur. Eftir að hafa upplifað sitt eigið tóma orð á þennan hátt, kemur bakslag í sjálfsgreiningu móðurinnar og svo brýst reiði hennar fram; öskureið og árásargjörn rífur hún dúkana úr veitingahúsi Önnu og þvær úr þeim skítinn og óhroðann um leið og hún veitir útrás reiði sinni og heift í garð Dísar/Gunnlaðar og hinnar montnu Urðar og hugsar þeim þegjandi þörfina. Eftir þessa húsmóðurlegu hreinsun eða skírslu, er hún tilbúin til að halda áfram, hún getur stigið niður og farið í sína ferð gegnum undirheimana eins og Óðinn, til að skilja aðskilnaðinn og dauðann.
Fiskurinn fylgir henni og hún ferðast frá hinu „eðlilega“ götulífi gegnum innflytjendahverfi þar sem framandlegt fólk stendur í hópum og horfir á hana sem aðskotahlut. Út úr þessu jaðarsvæði samfélagsins liggur leiðin inn á þriðja og síðasta svæðið þar sem ryk og skítur fjúka um auða götuna. Þarna er þó fólk, stundum tveir og tveir saman, en þó eru allir einir, einangraðir í eigin heimi, eigin veruleika.
Og þarna sér hún madonnuna, ungan eiturlyfjaneytanda með nýfætt barn á horuðum brjóstum sínum og barnið „tottaði öðru hvoru máttleysislega líkt og það væri að sjúga í sig meiri svefn.“ (124) Þessi hryllilega helgimynd lýstur móðurina eins og ,,högg fyrir bringspalirnar“. Myndin af svipbrigðalausri madonnunni með barnið — merkt svefninum, tómlætinu, dauðanum. Þetta er samfélagið sem hún hefur varið í rifrildum þeirra Dísar og móðirin unga er ekki „Mater dolorosa“, það er engin þjáning af því það er engin trú á lífið eða ástina, hvort tveggja hefur verið afskrifað.
Móðirin er komin þangað í ferð sinni að saga Dísar/Gunnlaðar af ástum þeirra Loka fær djúpa merkingu fyrir henni. Loki hefur ákallað Gunnlöðu, í nafni ástar þeirra; hann kallar á hana í örvæntingu sinni og ótta og biður hana að vera sér móðir, taka við hlutverki gyðjunnar, hinnar góðu og elskandi gyðju, sem er horfin honum og í hennar stað er komin refsandi, ógnandi gyðja sem hann skelfist.
Og Gunnlöð svarar: ,,Ég er ekki gyðjan. Ég er Gunnlöð“ og hún heldur áfram: „Jafnvel þegar gyðjan tekur sér bólfestu í mér er hún þar öll. Líka í sinni verstu mynd. Annars væri ég sem brotið ker.“ Og hún segir „Þú verður sjálfur að ákalla gyðjuna. Hún er í þér ekki síður en mér.“ (147)
Og svo grætur Gunnlöð — vegna þess að hún þráir líka blekkinguna, þráir líka að sjá í Loka það sem hún vill sjá — en hún verður að vera sjálfstæð persóna, það er skylda hennar og ábyrgð að vera heilsteypt, öðru vísi getur hún ekki túlkað hinar mörgu hliðar gyðjunnar.
Ég sat hljóð í fangelsisklefanum. Skynjaði að hún hafði líka verið að tala til mín. Ekki veit ég hvort hún áttaði sig á því sjálf en hún var að skilja mig eftir í sorg minni. Hún var að þvo hendur sínar af þjáningu minni, skilja mig eftir eina. Töfrahringurinn brast … hún var farin … ég stóð ein … opið ógnvekjandi eins og úlfskjaftur … ég hafði ekki kraft … mjólkin löngu þorrin … ekkert í brjóstunum nema svefn … Ég þoli ekki að vita þig þjást, hafði ég alltaf sagt við hana. Það er satt en á þessari stundu var kvöl eigin einsemdar þungbærari. Enn ein mótsögn kærleikans að nota aðra sem hlíf gegn eigin þjáningu. Vandfarið er hið hárfína einstigi grimmdar og ástar. (147)
Aðskilnaðurinn og tómleikinn sem honum fylgir er kjarni sjálfsins, það stig sálarlífsins sem öll önnur stig ganga út frá. Freud gerði sér æ betri grein fyrir því í praxis sínum og kenningasmíð að hið fyrsta narsissíska skeið ungbarnsins er fullt af spennu og átökum. Lacan bætti um betur og talaði um tilurð sjálfsins sem þróunarferil sem hverfist um vöntunina, tómið. Þaðan liggur leiðin gegnum þrenns konar aðskilnað, þrenns konar vanlíðan, skerðingar og sviftingu flests þess sem er gott og sæluríkt.
Fáir sálgreinendur hafa þó fyllt meira upp í mynd okkar af hinum fyrsta narsissisma en Julia Kristeva sem hefur sett fram kenningar um tilurð sjálfsins sem tímabil tilfinningalegra hamfara; dýpstu sælu og skelfilegustu ógna. [9] Málið snýst um fyrstu fjóra til sex mánuðina í lífi okkar og að sjálfsögðu er allt það sem hér fer á eftir tilgátur. En — eins og Kristeva segir: Nútíma vísindi ganga út frá því að jörðin hafi orðið til eftir gríðarlega sprengingu í geimnum í árdaga. Enginn hefur séð þá sprengingu, enginn getur sannað að hún hafi nokkurn tíma orðið — en það er svo ótal margt sem ekki verður skýrt öðru vísi en að gera ráð fyrir henni.10
Kristeva telur eins og Lacan að barnið fæðist sálfræðilega þegar það skynjar að það er aðskilið frá móðurinni. Sjálf barnsins er ekki orðið til, af því að það hefur ekki mál eða hugtök og barnið er klofið á milli eins konar ástar og eins konar viðbjóðs eða hryllings á móðurlíkamanum, sem það þráir og óttast. Um þetta fjallar Kristeva í bókinni Vald hins óhugnanlega. [11] Í Sögur um ástina fjallar hún síðan um það, hvernig hið ástríðufulla tvenndarsamband barns og móður er rofið af þriðju stærðinni sem hún, eins og Freud, kallar ,,föður hinnar persónulegu forsögu“.
Hvers konar fyrirbæri er „faðir hinnar persónulegu forsögu“ í sálarlífinu? Freud gerði ráð fyrir að hann væri sambland af frummóðurinni og föðurnum. Þessi stærð á allra fyrsta mótunarskeiði einstaklingsins er merkt föðurnum, fallosinum, til að undirstrika að sálarlífið er alltaf formað sem þríhyrningur. Kristeva tekur þetta upp og leggur áherslu á að það sé móðirin sem opni þessa leið fyrir barnið, móðirin lætur barnið skilja að það sé til eitthvað annað eða einhver annar sem hún þrái, sem hana vanti og þetta ,,eitthvað annað“ — er ekki barnið sjálft.
Hin elskandi móðir er ekki sú sem elskar barnið fyrir sjálfa sig, vegna sjálfrar sín — heldur sú sem elskar barnið með öðrum og skapar þar með möguleikann á „föður hinnar persónulegu forsögu“ sem er fyrir barninu fyrsti möguleikinn á upphafningu, ást.12 Síðar verður „faðir hinnar persónulegu forsögu“ að óskamynd sjálfsins og loks að Reglu föðurins, tungumálinu, táknkerfinu, og þegar barnið er komið þangað er hinn endanlegi aðskilnaður við móðurina og yfirráðasvæði hennar orðinn.
Málið er þannig viðurkenning þess að við erum ein, og getum aðeins táknað þrá okkar óbeint, gegnum eitthvað annað sem er málið. Og gegnum málið, sem byggir á aðskilnaðinum og táknar hann, skiljumst við að í sitt hvort kynið og játumst undir þann aðskilnað sem felst í dauðanum. Í málinu getum við líka afneitað aðskilnaðnum með því að nota það sem vopn, kúga aðra undir okkur — eða við getum notað málið sem náðarmeðal, gjöf, í auðmýkt og þakkarskuld.
Þegar móðirin í Gunnlaðar sögu getur viðurkennt aðskilnað sinn og barnsins, þegar hún er tilbúin til elska Dís á hennar forsendum verður henni ljóst í hverju svik hennar felast:
Það var ég sem sveik. Ég vissi það allan tímann að Gunnlöð var saklaus … Samt trúði ég ekki minni eigin rödd og fór fram á það fyrst allra að dóttir mín yrði send í geðrannsókn. Því að rödd mín bjó í fjallinu þar sem landið reis hæst og því landi hafði ég sökkt þegar ég sveik Gunnlöðu. Talaði ekki máli hennar. Týndi niður máli hennar. (178-179)
Frekar en að viðurkenna dóttur sína sem sjálfstæða mannveru drepur móðirin hana, afneitar henni sem vitsmunaveru með því að krefjast þess að hún verði dæmd geðveik. Móðirin hafnar ljósu stúlkunni sína — af því að hún kunni ekki að elska hana og varð að drepa hana til að læra að það að eiga er ekki hið sama og það að elska. Þetta er harmleikur og svikin verða aldrei, aldrei tekin aftur — eða hvað? Hver skilgreinir það? Það er spurning um siðfræði, myndi einhver segja — en siðfræðin er ákvörðuð af samfélaginu, af handhöfum valdsins hverju sinni. Þau skilyrði sem ástinni eru búin eru ekki bara sálfræðileg heldur líka samfélagsleg og byggjast á því hver setur „lögin“.
Valdið
Í Gunnlaðar sögu er einn kankvís ritdómur um söguna í sögunni. Geðlæknirinn er að tala við móðurina um Dís:
Hann fór auðvitað að tala um söguna. Spurði hvort hún segði mér þetta sama. Ég jánkaði því og hann sagði eitthvað í þá átt að þetta væri merkilegt! Það væri fremur óvenjulegt að fantasíusjúklingar — auðvitað notaði hann eitthvert fagorð en merkingin var þessi — væru svona samkvæmir sjálfum sér og skipulegir í hugsun, allt að því raunsæir í fantasíu sinni. Þarna væri hún búin að byggja upp heilt ríki með föstu þjóðskipulagi: konungi, blótgoða og bændafólki, verslun með raf og gull. Gull og grænir skógar. Friður. Hann talaði allt í einu eins og ferðamálafrömuður að selja mér sumarferð og eitt andartak smaug í rödd hans nánast ómerkjanlegur tregi. Ég heyrði ekki betur en hann langaði þangað sjálfan! (81)
Það er heilt bronsaldarsamfélag sem Svava Jakobsdóttir hefur búið til á fortíðarsviði Gunnlaðar sögu. Það er akuryrkjusamfélag, þar sem hin efnahags- og félagslegu völd heyra undir konunginn. Trúarbrögð þessa samfélags eru hins vegar byggð upp kringum kvenlegan guðdóm, gyðjuna.
Í öllum menningarsamfélögum sem við þekkjum eru spor eftir forsögulega frjósemisdýrkun þar sem hinn frjói kvenlíkami var uppspretta tilbeiðslu og átrúnaðar. Þessi frjósemisdýrkun er forsöguleg í þeim skilningi að hinir svokölluðu „sögulegu tímar“ hófust með skriftinni og nýrri skilgreiningu á tímanum sem línu. Hvort tveggja þýddi að gömlu kvennamenningunni hafði verið kollvarpað.
Þegar feðraveldið gerði byltingu sína gegn hinu forna mæðraveldi var öllum goðsögnum sem fjölluðu um vald kvenna vísað á bug og þær túlkaðar upp á nýtt; allt yfirskilvitlegt var stokkað upp og vald sköpunarinnar var fært frá legi konunnar yfir í heila karlmannsins, segir Amaury de Riencourt í bókinni Kyn og vald í sögunni.13
Yfirskilvitleg tiltekt (eða stórþvottur) af þessari stærðargráðu tók óhjákvæmilega langan tíma, ekki síst vegna þess að bændurnir héldu fast við frjósemisdýrkunina, hringrás náttúrunnar hélt áfram að vera sú sama og það var erfitt að venja bændur af helgisiðum sínum og goðsögnum.
Gyðjan í Gunnlaðar sögu er ekki heildstætt fyrirbæri á borð við guð kristninnar. Gyðjan er miklu fremur lögmál, lífslögmálið, sem er fullt af þversögnum en þó í samræmi. Gyðjan er ekki persóna, það er ekki hægt að gera mynd af henni en birtingarmyndir hennar eru margar og margvíslegar, þær heilögustu eru sólin og hringurinn.
Hlutverk Gunnlaðar sem hofgyðju er að stuðla að því að hringrásin geti ótrufluð átt sér stað; hún gefur guðum og mönnum táknræna næringu með því að vökva lífstréð á mörkum deyjandi dags og nætur sem er að fæðast, þannig að máni fari fyrir sólu og lífið haldi áfram. Það er líka embættisverk hennar að vígja nýjan konung og helga konungdóm hans eftir að hann hefur staðist þolraunirnar sem gera hann hæfan til að stjórna ríki sínu af visku og auðmýkt gagnvart lögmáli gyðjunnar.
Hinn nýi konungur gefur gyðjunni hring að fórnargjöf, þá opnast skaut jarðarinnar og klæddur í slönguskinn smýgur karlmaðurinn inn í neðanjarðarhvelfinguna þar sem hann skal deyja fórnardauða. Hann er bundinn við rót lífstrésins, hann verður miðja alheimsins, hann skal pyntaður uns hann horfist í augu við dauðaótta sinn og getur fæðst á ný — óttalaus. Vegna þess að gyðjan hefur sýnt honum að sú tilvistarlega einsemd sem hann upplifir á mörkum lífs og dauða, er forsenda lífsins og gefur því merkingu. Hún sýnir honum að meginandstæðurnar eru ekki líf og dauði, heldur lífið og óttinn.
Nóttina sem þetta gerist, níundu nóttina, grætur allt sköpunarverkið konunginn úr helju og jörðin fæðir hann að nýju. Hofgyðjan veitir honum drykk lífsins úr kerinu helga og gyðjan holdgast í ungum líkama stúlkunnar sem helgar konunginn á táknrænan hátt lífinu, frjóseminni, jörðinni, sólinni og vatninu með samförum.
Þetta fer fram í salnum sólu fegri, hinum heilaga bústað gyðjunnar sem er skreyttur táknum hennar, sólartáknum úr gullinu sem hún fæðir af sér í vötnum og árfarvegum þegar hún er reiðubúin til þess, þegar tími hennar segir svo til um (65). Járnið er til í dalnum, í akuryrkjusamfélaginu, og það er notað en það er óhreinn málmur og bannlýstur á mannamótum og í viðurvist gyðjunnar. Það er ekki hægt að framleiða járnið. Sjálf hugmyndin er hryllileg. Hún þýðir að málmurinn er sóttur í jörðina, jörðin er rist á hol, líkami hennar er limlestur, afskræmdur og ærð af sársauka og reiði mun jörðin slá frá sér og heimurinn mun farast. Þetta er lögmál gyðjunnar sem Óðinn játast undir þegar hann sver eiða sína og er helgaður konungur.
En Óðinn er nútímamaður. Hann hefur farið víða og lært af öðrum þjóðum, öðrum siðum og hann hefur sínar hugmyndir um efnahagslegar framfarir, hernaðarlega uppbyggingu, útþenslu og yfirráð. Þegar konungdæmi hans hefur verið helgað í faðmi Gunnlaðar brýst hann út úr helgidóminum — og tekur með sér hið heilaga ker.
Svikin
Svik Óðins eru ekki fólgin í því að stela skáldamiðinum. Honum er gefinn mjöðurinn og mjöðinn er hægt að búa til aftur (ef maður kann uppskriftina). Glæpur Óðins og svik eru fólgin í því að eigna sér það sem hvorki er hægt að gefa né þiggja. Kerið er einstakt, ólýsanlegt, helgi þess er óskoruð. Það er tákn — tákn táknanna í því kerfi sem Óðinn hefur svarið að vernda og viðhalda.
Ef Gunnlaðar saga er lesin með sálgreiningu Lacans í huga er kerið kvenlegt tákn, tákn legsins, og í kerfi gyðjunnar er legið hið yfirskipaða tákn, tákn táknanna sem er fallosinn í hinni táknrænu reglu feðraveldisins. Með því að eiga persónulega þennan fallos getur Óðinn gert sjálfan sig að guði. Hann lofar hermönnum sínum eilífu lífi og sviftir þannig bæði dauðann og lífið merkingu sinni. Jörðinni er misþyrmt, vötn hennar og mýrar fyllast af líkum, fórnum til hergoðsins, móðirin þjáist og börn hennar líka — ekki síst Óðinn:
Fram að þessu hafði hann látið sér nægja að seiða til sín Urði, og þá lá hún sem dauð meðan hann neyddi hana til að segja sér öriög sín því að óttinn kvelur hann. Friðlaus er hann og treystir engum, tortrygginn og kvalinn óttast hann eiðbróður sinn sem mun rísa gegn honum og úlfinn sem mun gleypa hann og fullur ótta safnar hann dauðum í hersveitir sínar því að alltaf er spádómurinn hinn sami. Allt veit Urður. (187)
Eiðrofin færa Óðni ekki aðeins völd heldur líka ótta og ofsóknarbrjálæði, hann er „haldinn“ af þeim dauða sem hann hefur afneitað.
En Gunnlaðar saga er ekki ný saga um syndafallsgoðsögnina. Kerfi Óðins er vont — en var kerfi gyðjunnar gott? Lýsinguna á því fáum við frá Dís/Gunnlöðu sem á fyrir höndum að verða einn af æðstu embættismönnum þessa trúarkerfis og hún efast ekki, aldrei, um ágæti þess. Hins vegar byggist vald gyðjunnar, eins og öll trúarbrögð, á eins konar samfélagslegu samþykki, eins konar sameiginlegri ákvörðun um siðfræðileg grundvallaratriði. Komi upp ágreiningur eða andstaða gegn kerfinu, snýst valdið alltaf til varnar sér og trúarkerfi gyðjunnar er engin undantekning þar á. Hótunin er byggð inn í kerfið: Ef þú (grefur eftir járninu) —þá mun ég (eyða þér og heiminum).
Metnaður og þrá karlmannsins er skuggi í hinum bjarta heimi gyðjunnar. Gunnlöð veit ekki hvað það þýðir — en það gerir móðir hennar. í Gunnlaðar sögu er byggt upp á fortíðarsviðinu eins konar „lögmál móðurinnar“ sem táknræn regla, en það lögmál er ekki von eða framtíðarsýn bókarinnar. Stríð milli kynjanna getur hvorugt kynið unnið án þess að það leiði til tortímingar, persónulega (Óðinn) og pólitískt (Gunnlöð). Þess vegna verður hið heilaga ker að fá nýtt tákngildi.
Kerið
Hið heilaga drykkjarker er þekkt minni úr goðsögum og trúarbrögðum fjölmargra þjóða. Fegursta og dulúðugasta gerð sagnarinnar er riddarasagan um Parceval og hinn heilaga graal. Enginn veit hvað graalinn er, enginn getur lýst honum með orðum, enginn getur skilgreint hann eða sagt með vissu hvað hann táknar og þó leituðu göfugustu riddarar Artúrs konungs hans allt sitt líf. Í Parcevals sögu segir frá því að Parceval elst upp í skóginum og kemur út úr honum fáfróður en leitandi ungur sveinn, fullur af metnaði og vilja til að ná langt í lífinu. Hann er námfús og er svo heppinn að hitta einn ríkan mann sem gerir hann að riddara. Hann leggur heilræði þessa velgjörðamanns síns vel á minnið; hið helsta er að riddari eigi ekki að vera málugur eða spurull komi hann á ókunnan stað.
Á ferðum sínum kemur Parceval að dularfullri höll þar sem hann finnur gamlan, lamaðan mann, Fiskikonunginn. Meðan Parceval situr á tali við hann fara undarlegir hlutir að gerast. Furðulegar skrúðgöngur fara fram og aftur um salinn með alls konar tilburðum og það verður öllum ljóst að það er verið að segja Parceval eitthvað og texti sögunnar verður spenntari og spenntari, en Parceval hefur verið sagt að hann megi ekki spyrja neins og hann spyr einskis.
Eftir nóttina hverfur höllin og aumingja Parceval fær að vita að hann hefur ekki bara klúðrað sínum málum heldur alls mannkynsins, vegna þess að hann var útvalinn, honum einum hlotnaðist að sjá hinn heilaga graal og hefði hann spurt um merkingu hans hefði gamli konungurinn fengið máttinn aftur og sannleikurinn hefði gert okkur öll frjáls.14
Nú kann einhverjum að blöskra þetta óréttlæti, vegna þess að Parceval gerði ekki annað en það sem honum var sagt að gera — og hver er þá sekt hans? Leikreglunum er breytt allt í einu þannig að sá sem veit ekki betur en hann sé saklaus er allt í einu orðinn sekur. Og það er líka meiningin. Þannig vinna lögin, segir skáldið og fræðimaðurinn Héléne Cixous.15 Við erum sek áður en við brjótum nokkuð af okkur. Lögin eru alhliða neikvæð, þau eru einhlít, gefa engar útskýringar, bara skipunina: ,,þú skalt ekki …“ þar sem kjarninn er skipunin „EKKI“ eða „NEI“. Héléne Cixous telur að karlmenn flestir eigi auðveldara með það en konur og skáld að lúta lögunum, taka skipunina gilda, án þess að spyrja um það hvað hún feli í sér. Þess vegna át Eva eplið í Paradís án þess að hugsa sig um tvisvar. „Svo segir í Biblíunni og það er sennilega satt“, segir Cixous.
Gunnlöð í Gunnlaðar sögu spyr ekki um það hvað sé að baki laganna, með hvaða rétti kerið heilaga, graalinn, sé tákn táknanna. Óðinn efast ekki heldur um að yfirráðin yfir kerinu skipti sköpum. En móðirin í sögunni gengur hvorki að forsendum Gunnlaðar né Óðins.
Ferð móðurinnar í bókinni sýnir henni smám saman að saga dóttur hennar Dísar/Gunnlaðar snýst ekki um veruleika heldur um sannleika16 og að saga dótturinnar er sönn, er sannur skáldskapur sem enginn getur svikið nema svíkja þar með sjálfsvitund sína og sjálfsvirðingu. Hvort tveggja hefur hún gert og þess vegna hefur hún líka svikið Dís og Gunnlöðu. En hún getur ógilt þau svik með því að ógilda kerfið sem skilyrti þau. Hún getur látið þann heim farast og búið til nýjan heim, nýja hugsun.
Þess vegna stelur hún kerinu og endurtekur afbrot dóttur sinnar og í þetta sinn er ránið á kerinu meðvituð, pólitísk aðgerð með fullri vitund um afleiðingar aðgerðarinnar.
Ég tók kerið og var með fullu ráði þegar ég tók það. Ekkert annað mun ég láta uppi við réttarhöldin. Ég verð því dæmd í fangelsi. Dís gat ég ekki bjargað en ég ætla að sjá til þess að sannleikurinn hennar verði ekki lokaður inni á geðveikrahæli í þetta sinn. Hlutverk ætlaði hún mér … þegar hún leit til mín og ráðstafaði mér … Þegar ég er sest í fangelsið ætla ég að skrifa niður allt sem ég hef rifjað upp á leið minni um háloftin. Og fiskurinn ljái ykkur heyrn því að ég ætla að tala máli okkar. Sannfæra ykkur öll um að ég/Dís/Gunnlöð hafi verið að endurheimta kerið. Ekki stela því. (196)
Kerið skal endurheimt fyrir skáldskapinn, fyrir hið skapandi orð, fyrir sögu þeirra þriggja.
Kerið hefur ekki sömu táknrænu merkingu fyrir móðurinni og fyrir Dís/Gunnlöðu. Móðirin játast ekki undir lögmál og kerfi gyðjunnar á sama hátt og Gunnlöð, þó að hún samþykki lífsboðskap hennar. Og þegar hún spyr hvað sé að baki „Laganna“ og tekur sér stöðu með skáldskapnum, gerir hún uppreisn gegn lögmáli föðurins og Óðins. Vegna þess að skáldskapurinn getur ekki gengið neinu lögmáli á hönd, hann hlýtur alltaf að vera í uppreisn gegn hinum viðteknu bönnum. Kerið fær nýtt tákngildi í endi og upphafi Gunnlaðar sögu — eins og ég les hana. Kerið verður tákn leitarinnar, uppreisnarinnar, nýrrar hugsunar sem viðurkennir bæði kynin — ekki með því að afneita muninum á þeim, heldur með því að viðurkenna hann og vinna úr honum á skapandi hátt. Og það er móðirin, sú sem stendur á mörkum tveggja heima og þekkir báða, sú sem þekkir bæði gleðina og þjáninguna sem fæðir sjálfa sig og dóttur sína í nýjum heimi sem aðeins er mögulegur í sönnum skáldskap:
Og þið munuð sjá grannar hendur rétta fram kerið og bjóða ykkur að bergja lífsins vatn úr gullinni uppsprettu sem aldrei þrýtur meðan ykkur þyrstir … það hrærist … vatnið hrærist … það ólgar … það steypist sem voldug ljóðbylgja yfir barma uns ymur fyllir loft … og loks … í eldi úr brjósti fangans rís land. Og þá … Já, tvö tré á ströndu.
Tilvísanir
1) Svava Jakobsdóttir: Gunnlaðar saga, Forlagið, Rvk. 1987.
2) Kenningar Juliu Kristevu hafa m.a. verið kynntar og notaðar hér á landi af mér (TMM, 3, 1985), Helgu Kress (Skírni, 1986 og TMM, 1, 1988), Soffíu Auði Birgisdóttur (Mbl. 25. 10. og 1. 11 1987), Ástráði Eysteinssyni (TMM, 3, 1987) og Garðari Baldvinssyni (Ársrit Torfhildar, Félags bókmenntafræðinema við H.Í., 1987 og 1988). Auk þess vil ég vísa til þriggja ákaflega góðra yfirlitsgreina um verk Kristevu fyrir þá sem vilja kynna sér þau, en þau eru: Ebba Witt Brattstrom: „Den framande kvinnan — presentation av Julia Kristeva“ (Kvinnovetenskaplig tidskrift, 2-3, 1984). Þessi þekkta grein Ebbu Witt Brattstrom var fyrsta vandaða kynningin á kenningum Kristevu á Norðurlöndum. Toril Moi: The Kristeva Reader (Basil/Blackwell, 1986) er safn greina eftir Kristevu með góðum formála og skýringum eftir Toril Moi sem hefur einnig skrifað aðrar góðar yfirlitsgreinar um Kristevu á norsku. Ég vil sérstaklega benda á greinina: Toril Moi: „Depresjonens svarte sol“ (Vinduet, 4, 1987) þar sem tekin er fyrir þróun Kristevu og hin umdeilda síðasta bók hennar: Soleil noir: dépression er mélancolie (Paris Gallimard, 1987).
3) Julia Kristeva: „Womens's Time“ í The Kristeva Reader, 1986, bls. 191-192.
4) Takið eftir hvernig krafan um framkvæmdir er byggð inn í bæði tímahugtakið og málið.
5) Heimspekingurinn Benkt-Erik Benktson telur að hið línulaga tímaskyn eigi ekki rót sína að rekja til Grikkja eins og svo margt annað í vestrænni hugsun, heldur höfum við þetta frá gyðingum. Trú þeirra á framtíðina, á Messías, hafi boðað nýja sögusýn, nýtt tímahugtak. (Karen Davies: „Manlig tid och kvinnors verklighet“, Kvinnovetenskaplig tidskrift, 4, 1987). Við erum semsagt komin hringinn — ef það er rétt að framtíðin sé „glötuð“, hafi glatast um leið og „sannleikurinn“ og „merkingin“ — og að það sé þetta sem greini okkar postmoderniska tímaskeið frá þeim fyrri.
6) Julia Kristeva: Tales of Love, Columbia University Press, 1987.
7) (Frá félagslegum og pólitískum sjónarhóli litu málin að sjálfsögðu öðruvísi út).
8) Sama, bls. 234-263. Sjá einnig greinina: „Motherhood According to Giovanni Bellini“, Desire in Language, Basil Blackwell, 1986 og viðtal við Juliu Kristevu: Marie Louise Sodemann: „At elske og at kunne . . .“(Kritik 71, 1985).
9) Julia Kristeva valdi hina klassísku sálgreiningu Freuds sem fræðilegan grundvöll þegar hún byrjaði sjálf í sálgreiningu 1974, en allir sem ætla að stunda sálgreiningu þurfa að byrja á því að gangast undir sálgreiningu sjálfir. Kristeva sniðgekk þannig vísvitandi hinn áhrifamikla Lacanskóla í París, en það breytir því ekki að kenningar og hugsun Jaques Lacans hafa haft mikil áhrif á kenningar hennar. Þannig notar hún þrískiptingu Lacans á sjálfinu, ekki Freuds og hún notar hugtakið „þrá“ (e. desire, n. begjær) í skilgreiningu Lacans ekki Freuds. Um það hugtak hef ég m.a. fjallað í grein um Gerplu (TMM, 3, 1988). Ýmis af hugtökum Lacans eru raunar löngu orðin sjálfsagðir hlutir í hugtakanotkun franskra heimspekinga, táknfræðinga og bókmenntafræðinga.
Kristeva byggir ekki aðeins á kenningum Freuds og Lacans; hún notar einnig kenningar breska sálgreinandans Melanie Klein á persónulegan hátt og tekur afstöðu til hinnar nýju narsissisma — umræðu bæði í austri (Ungverjalandi) og vestri (Bretlandi, Bandaríkin).
10) Julia Kristeva: „Women's Time“. Toril Moi: The Kristeva Reader, bls. 197.
11) Julia Kristeva: Powers of Horror, New York: Columbia University Press, 1982.
12) Julia Kristeva: Tales of Love, bls. 34-35.
13) Karen Davies: „Manlig tid och kvinnors verklighet“. Kvinnovetenskaplig tidskrift, 4, 1987, bls. 31.
14) Þýðandi Parcevalssögu á 13. öld hefur átt í einhverjum erfiðleikum með þessa yfirskilvitlegu frönsku hugmynd — einsog sjá má: „Því næst gekk inn ein fögur mær og bar í höndum sér því líkast sem textus væri, en þeir í völsku máli kalla graull, en vér megum kalla gangandi greiða.“ „Parcevals saga“, Bjarni Vilhjálmsson: Riddarasögur, fjórða bindi, Rvk. 1951, bls. 246.
15) Héléne Cixous: „Reaching the Point of Wheat …“. New Literary History, volume 19, Number 1, Autumn, 1987, bls. 3-5. Þegar Cixous talar um „lögin“ í heimspekilegri merkingu er ekki átt við lagabálka heldur þær siðferðilegu og samfélagslegu reglur sem okkur eru settar og við tökum gild. „Lögin“ samsvara þannig „samvisku“ kristinna manna og „yfirsjálfi“ sálgreiningarinnar.
16) „…i den psykoanalytiske gjenerindring dreier det seg ikke om realitet, men om sannhet, for virkningen av den hele meningsfulle tale er á skape en ny orden i fortidens tilfeldige hendelser idet man gir dem den mening som peker i retning av det som nodvendigvis má komme: …“ Jaques Lacan: Det symbolske, Gyldendal, 1985, bls. 27-28.