SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 5. febrúar 2022

ÞEGAR SVAVA OG VILBORG SKRUPPU TIL ÍSRAELS

Árið 1987 fóru þær Svava Jakobsdóttir og Vilborg Dagbjartsdóttir á alþjóðlegt þing kvenrithöfunda, sem haldið var í Ísrael það árið í fyrsta sinn. Gestir voru um 70 frá mörgum löndum, þeirra á meðal frægir femínistar, fræðikonur og rithöfundar eins og Marylin French frá Bandaríkjunum (1929-2009), Margaret Drabble frá Bretlandi (f. 1939) og Dea Trier Mørch frá Danmörku (1941-2001). Í Þjóðviljanum 7. júní 1987 er rætt við skáldkonurnar:

Þetta var mjög skemmtilegt allt, sagði Vilborg. Við settumst ekki niður eins og skandinavískir kvenrithöfundar gera einatt og fórum yfir kennisetningar og félagsfræði sem lúta að stöðu konunnar. Við lásum upp úr verkum okkar (á ensku eða frönsku), og stóðum síðan fyrir svörum og öll áhersla var á bókmenntirnar sjálfar en ekki á félagsleg vandkvæði ýmiskonar. Og allt var þetta á mjög góðu plani.

Svava var boðin tii ráðstefnunnar af fyrrgreindum kvennasamtökum, Vilborg sótti um styrk til ferðarinnar til íslenskra stjórnvalda en fékk ekki (þess má geta að sjö kanadískar skáldkonur mættu til leiks á kostnað sinna stjórnvalda). Ísraelsku samtökin hlupu svo undir bagga með henni að nokkru.

Þær lögðu mikla áherslu á að íslenskir höfundar þyrftu að nota tækifæri sem þessi - ef vel tekst til er hægt að vekja athygli annarra höfunda og útgefenda á því sem við erum að skrifa.“

Vilborg las Kyndilmessu og Skammdegisljóð á þinginu og var spurð um reynslu sína og skoðanir, ekki síst í trúmálum. Svava las Sögu handa börnum og var m.a. spurð um viðtökur á Íslandi.

Það fór ekki hjá því að stjórnmál væru rædd á þinginu en Palestínumenn áttu t.d. engan fulltrúa þar. Nánar um bókmenntaþingið og land margra trúarbragða og þjóðerna í Þjóðviljanum.

 

Tengt efni