Ritstjórn∙13. júní 2021
SKÁLD LÍFSÓTTANS eftir Silju Aðalsteinsdóttur
Þann 7. júní eru liðin 80 ár frá fæðingu Nínu Bjarkar Árnadóttur skáldkonu en hún lést fyrir aldur fram þann 16. apríl 2000. Í Dagblaðinu Vísi frá 2. maí 2000 skrifar Silja Aðalsteinsdóttir grein um Nínu í grein sem hún nefnir Skáld lífsóttans:
Nína Björk Árnadóttir er látin; sérstœð rödd hennar í íslenskri ljóðagerð þögnuð. En ljóð hennar lifa; til þeirra má leita um ókomin ár þegar við þurfum að heyra raust þeirra sem hún gaf mál og höfðu sumir aldrei fengið rödd í íslenskum ljóðum fyrr. Í mörgum ljóðum sínum og leikritum kannar hún á opinskáan hátt tilfinningalíff ólks á ystu nöf, einkum kvenna sem að mati samfélagsins eru sjúkar á geði.
Ástríður og hamsleysi einkenna strax fyrstu bók Nínu Bjarkar, Ung ljóð (1965), sem gæti verið svar ungrar konu við fyrstu ljóðabókum Dags Sigurðarsonar sem hafði komið fram fáeinum árum áður. Þar er ort um ástir, ástarþrá og ástarnautn á erótískan hátt frá sjónarhóli konu. En ef til vill þurfti ekki Dag til að leysa ástríður hennar úr höftum klisjanna því Stefán frá Hvítadal var ömmubróðir hennar í föðurætt, sá sem fyrstur talaði skýrt um ástaratlot í íslenskum skáldskap. „Svo heyrðirðu köll mín og komst / tókst mig og tæmdir mína þrá" segir hún undirgefin í ljóðinu „Núna":
Núna hvísla hendur þínar
leyndarmálum að líkama mínum.
Núna lít ég augu þín
uppfull af
tárum
tárum, sem frjósa í fœðingu.
Núna ferðu skjálfandi frá mér
og löngun þín seiðir
leikandi skaut mitt.
Í flestum bókum sínum lýsir Nína Björk og veltir fyrir sér flóknum samskiptum kynjanna í ljóðum sem voru líkamlegri en áður hafði sést í ljóðabókum kvenna. Konan í ljóðum Nínu tjáir allan tilfinningaskalann, frá blíðu og ástríðu til sorgar, en hún getur líka verið ofbeldisfull og í orðaforða ljóðanna eru frá upphafi áberandi hin þungu og dimmu orð, blóð, tár, sár og sársauki, myrkur og ótti - „því lifsóttinn / tók mig svo unga / í fang sér" eins og hún segir í sinni síðustu ljóðabók, Alla leið hingað (1996). Þessi ótti má heita leiðarstef í öllu höfundarverki Nínu Bjarkar, djúpur persónulegur ótti sem hún ýmist gefst upp fyrir eða býður birginn. Þessi ótti býr í myrkrinu í samræmi við hefðina í fyrstu ljóðabókum Nínu Bjarkar; seinna flytur hann sig stundum út í birtuna og daginn þar sem manneskjan verður berskjölduð fyrir honum en myrkrið verður þá felustaður hennar og skjól.
Maníó-depressjón Svartur hestur i myrkrinu (1982) kallast beint á við Ung ljóð með erótík sinni og hamslausri tilfinningatjáningu en er bæði þroskaðri bók og frumlegri. Eiginlega er fyrri hluta hennar best lýst með þvi að kalla hann maníó-depressívan, svo vel lýsa ljóðin geðsveiflum sem jaðra við sturlun. „Allt verður mér að sársauka" segir þar og ljóðið „Fugl óttans breytir sífellt um lögun" birtir niðurstöðu ævilangra rannsókna:
Fugl óttans er stór
hann tekur manneskjuna í klœrnar
og flýgur með hana
langt svo langt frá glðinni
en hann er líka lítill
þá flýgur hann inn í brjóstin
og veinar
og veinar þar
Seinni hluti þeirrar bókar „gerist" á geðsjúkrahúsi og segir sögu nokkurra sem þar dveljast. Þetta eru frásagnir, stundum með samtölum en oftar úr hugskoti, allar i þriðju persónu. Sumar eru fyndnar í hryllingi sínum, fleiri eru hjartaskerandi túlkun á mannlegri þjáningu. Þetta eru nýstárlegar „íslendingasögur" sem sumar gefa glögga mannlýsingu þótt stuttar séu.
Lengst nær Nína Björk í sínum sérkennilegu ævisögum í prósanum „Ég fékk að vera" í Engli í snjónum (1994), listilega gerðum texta þar sem kona segir í fyrstu persónu sögu sina og samskipta sinna við þrjá karlmenn og dregur upp lifandi mynd af kjörum sínum og sambýlisfólksins fyrr og nú. Lesandinn sækir ósjálfrátt í sápuóperubrunn sinn úr bókum og sjónvarpi og saga sem hægt hefði verið að segja í þriggja binda verki eða tíu þátta seríu verður sprelllifandi á aðeins tveimur blaðsíðum!
Jóhannes úr Kötlum segir í umsögn um aðra ljóðabók Ninu Bjarkar, Undarlegt að spyrja mennina, að heildarblær hennar lýsi sér „í átakanlegu umkomuleysi þess sem ann og þráir í veröld, þar sem eldtunga djöfulsins dregst aldrei saman nema andartak". Svo næm á andrúmsloft tímans var Nína Björk alla tíð.
-SA
Mbl. 7. júní 2013