SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir15. febrúar 2023

HUGMYNDARÍKT ÁSTARBARN - Um Þræði í lífi Bertu

Vert er að vekja athygli á skáldsögunni Þræðir í lífi Bertu sem út kom á síðasta ári. Bókin er eftir Ellu (Elínborgu Angantýsdóttur) sem gefur hana út sjálf og er þetta hennar fyrsta bók.

Eingöngu konur koma að útgáfunni; í formála kemur fram að bókin er skrifuð í ritlistarnámskeiði hjá Ólöfu Sverrisdóttur og í Bláa húsinu í bakgarði Guðrúnar Evu Mínervudóttur, kápumynd er eftir Þórdísi Bjarneyju Hauksdóttur, umbrot og kápuhönnun sá Ester Magnúsdóttir um, Dagný Maggýjar gaf ráð og las yfir og Ella lét prenta bókina hjá Héraðsprenti á Egilsstöðum.

Sagan hefst í sumarbyrjun 1961 og er rakin í tímaröð en inn á milli horfið til nútímans þar sem aðalsöguhetjan er á krossgötum í lífinu. Athyglinni er aðallega beint að tveimur fjölskyldum sem eru ólíkar en standa saman í gegnum þykkt og þunnt. Farið er úr sveit til borgar, frá sakleysi bernskunnar til þroskaára þar sem erfiðar minningar, efasemdir og ofbeldi, sorg og áföll marka persónurnar.

Sögumaður dvelur með ró og yfirvegun við atburði og stundir, fólk og staði og ekki hægt annað en að hrífast með. „Það er líkt og Guðrún frá Lundi og Gunnar Gunnarsson hafi eignast jarðbundið en hugmyndaríkt ástarbarn sem með einlægri frásagnarlist sinni hlýtur að sigra hjörtu okkar“ er haft eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur á bókarkápunni. 

 

 

 

 

 

Tengt efni