SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Elínborg Angantýsdóttir (Ella)

Ella ( Elínborg Angantýsdóttir) er fædd 12. nóvember 1952 í Eyjafirði. Foreldrar hennar voru Torfhildur Jósefsdóttir og Angantýr H. Hjálmarsson sem var skólastjóri í Sólgarði þar sem hún ólst upp frá 5 ára aldri.

Í Sólgarði var skóli, félagsheimili og bókasafn sveitarinnar. Þar sem foreldrar hennar voru ekki með búskap fór hún öll sumur á barnsaldri í vist á ýmis sveitaheimili. Fjórtán ára gömul var hún að mestu farin úr foreldrahúsum eins og tíðkaðist stundum með unglinga í sveitum á þeim tíma. Þá var farið í skóla á vetrum og unnið á sumrin.

Ella las mikið sem barn, en nóg var til af alls konar bókum í Sólgarði. Ella fæddist á afmælisdegi afasystur sinnar Elínborgar Lárusdóttur skáldkonu. Þegar eldri Elínborg frétti af barnsfæðingunni spurði hún foreldrana afar ákveðið hvort það væri búið að skíra litlu stúlkuna. Hún fékk nafnið, kallaði hana nöfnu sína og lét hana njóta þess á ýmsan hátt, en þó kynntust þær ekki mjög vel þar sem þær bjuggu í sitt hvorum landshlutanum.

En þegar Ella var komin í skóla í Reykjavík, 18 ára gömul kynntust þær aðeins betur. Sú yngri hjálpaði nöfnu sinni eitt sinn fyrir jólin. Sú hjálp var fólgin í því að pakka inn ótal jólagjöfum. Þetta voru gjafir sem áttu að fara til fátæks fólks eða þeirra sem á einhvern hátt máttu sín minna í samfélaginu. Þetta fannst yngri Elínborgu vera vel gert. Hún fór að líta upp til nöfnu sinnar, en áður hafði hún notið þess að lesa bækurnar hennar. Þær hafa átt það sameiginlegt nöfnurnar að hafa áhuga á  andlegum málefnum og því að vilja standa með lítilmagnanum.

Ella útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1974 og starfaði sem hjúkrunarfræðingur hér heima og nokkur ár í Miami, Florída. Hún hefur að mestu leyti starfað með öldruðum og var deildarstjóri á hjúkrunarheimilinu Skjóli í 10 ár. Hún hætti störfum vorið 2021.

Ella hefur skrifað dagbækur, hugleiðingar og ljóð af og til í gegnum árin. Hún hefur sótt nokkur ritlistarnámskeið síðustu ár sér til ánægju og á námskeiði hjá Ólöfu Sverrisdóttur byrjaði hún að skrifa söguna sína - Þræðir í lífi Bertu - þó ætlun hennar með því að sækja það námskeið hafi ekki verið að skrifa skáldsögu. Á meðan hún skrifaði söguna naut hún góðrar handleiðslu Guðrúnar Evu Mínervudóttur. Hvatning Guðrúnar Evu varð til þess að Ella ákvað að gefa söguna út og nú er hún byrjuð á framhaldi þeirrar bókar.

Ella býr í Reykjavík. Hún er í sambúð með Hrólfi Gunnlaugssyni og á 3 uppkomin börn með fyrri eiginmanni.


Ritaskrá

2022  Þræðir í lífi Bertu

Tengt efni