SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 9. apríl 2023

SÁLMAR Á PÁSKUM

 
Það er ekki úr vegi að huga að ljóðamenningu er tengist páskahátíðinni, nú þegar messur eru í öllum kirkjum og sálmar lesnir í útvarpinu; sálmar sem við þekkjum öll og kunnum allavega lögin við þá sem hafa fylgt okkur út lífið. En ortu konur sálma?
 
Íslenskar sálmabækur hafa að geyma nokkra sálma eftir konur. Í sálmabók frá 1945 eru alls 687 sálmar, þar af eru 6 sálmar eftir konur. 
 
En hvað eru sálmar og um hvað er verið að yrkja? Skoðum örlítið brot úr grein eftir Svein Yngva Egilsson þar sem kynntar eru kenningar fræðimanna um kjarnann í sálmakveðskap. Hér er fyrst örlítið brot úr sálmi nr. 333 eftir Herdísi Andrésdóttur.
 
Upp hef ég augun mín,
alvaldi Guð, til þín.
Náð þinni´ er ljúft að lýsa
lofa þitt nafn og prísa.
Við erum gleymskugjörn
gálaus og fávís börn
en þú sem aldrei sefur
á okkur gætur hefur.
 
Sveinn Yngvi Egilsson er höfundur bókarinnar Textar og túlkun, greinar um íslensk fræði árið 2011. Þar kennir margra grasa og gaman er að grúska í henni. Í formála segir svo að bókin innihaldi greinar um íslenskar bókmenntir og menningu síðari alda, ritaðar af ýmsu tilefni á löngu árabili (Textar og túlkun, bls. 7). M.a. er fjallað um myndmál sálma og gerð tilraun til túlkunar með hliðsjón af sálgreiningu Jacques Lacan en hann var m.a. áhrifamaður í túlkunarfræði og málvísindum strúktúralisma.
 
Sveinn Yngvi telur sálma búa yfir ákveðnu myndmáli og eigi rætur sínar að sækja til Biblíunnar. Þá er í myndmáli sálmanna fólgið að mælanda og þeim sem er ávarpaður er markaður ákveðinn staður og að mælandinn sé oftar en ekki barn eða dýr eða smá jurt. Hinsvegar er það hinn ávarpaði, yfirleitt óhlutbundinn guðshugmynd, persónugerður sem faðir sonur/bróður en sjaldan móðir (Textar og túlkun, bls 41).
 
Þá segir ennfremur að kjarninn í sálminum sé fjölskyldugerðin/menningin sem svipar til orðræðu innan fjölskyldunnar. Ræðan í sálminum einkennist þá af því að mælandinn, barnið eða blómið, er þá í stöðu þess vanmáttuga gagnvart hinum ávarpaða, guði eða föður. Samkvæmt Lacan er það sektarkennd eða ótti eða þrá eftir velþóknun sem birtist í þessu samhengi. Lacan þróaði kenningar sínar í sálgreiningu sem byggðu á kenningu Freuds um ödupusarduldina. 
 
Herdís Andrésdóttir yrkir t.d. svo sannarlega sína sálma undir þessum formerkjum. Hún lofar Drottin og prísar en börn hans eru gálaus og fávís. Hann hefur á þeim gætur, er hinn alsjáandi sem aldrei sefur.
 
Lesum í tilefni dagsins fyrstu erindi af þeim sex sálmum eftir fjórar konur úr sálmabókinni sem út kom árið 1945. Skáldkonurnar eru Herdís Andrésdóttir, Margrét Jónsdóttir, Ólöf á Hlöðum og Ólína Andrésdóttir. Fallegir sálmar sem gaman er að lesa.
 
Gleðilega páska öll sömul!
 
 
Skín, guðdóms sól, á hugarhimni mínum,
sem hjúpar allt í kærleiksgeislum þínum,
þú, Drottinn Jesú, lífsins ljósið bjarta,
ó, lýs nú mínu trúarveika hjarta.
 
 
Guðdóms elsku eðlið djúpa,
Inn til þín ég mæni klökk
Ó, ég þarf að krjúpa, krjúpa,
koma til þín heitri þökk.
 
Sálmur 333 eftir Herdísi Andrésdóttur
Ég veit að aldrei dvín
ástin og mildin þín
því fel ég mig og mína,
minn Guð, í umsjá þína.
 
Sálmur 451 eftir Margréti Jónsdóttur
Þótt kveðji vinur einn og einn
og aðrir týnist mér,
ég á þann vin, sem ekki bregzt
og aldrei burtu fer.
 
Sálmur 460 eftir Herdísi Andrésdóttur
Lækkar lífdaga sól.
Löng er orðin mín ferð.
Fauk í faranda skjól,
fegin hvíldinni verð.
 
Sálmur 461 eftir Ólínu Andrésdóttur
Þótt missi ég heyrn og mál og róm
og máttinn ég þverra finni.
Þá sofna ég hinzt við dauðadóm,
ó, Drottinn, gef sálu minni
að vakna við söngsins helga hljóm
í himneskri kirkju þinni.

Tengt efni