SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir24. apríl 2023

SILKIKLÚTUR OG LÆSI - Um Guðnýju frá Klömbrum

Það kennir margra grasa í bókinni hennar Guðrúnar Ingólfsdóttur Í hverri bók er mannsandi sem út kom árið 2011. Og gaman að fletta henni samhliða því að lesa ljóð kvenna frá 19. öld. Bókin er doktorsritgerð Guðrúnar og þar segir frá gömlum handritum og upphafi bókmenningar á Íslandi. En hvernig koma silkiklútur og læsi þar við sögu?

Oft hef ég rekist á það bæði í ræðum og ritum að almenningur á Íslandi hafi hvorki verið læs né skrifandi og sennilega hefur það verið svo í margar aldir. Börn þurftu þó að kunna kverið til þess að fermast og taka guðstrú og læra um góða siði og til þess þurftu þau auðvita að geta lesið. Það var árið 1907 sem skólaskylda var fyrst sett á hér á landi fyrir tilstuðlan Guðmundar Finnbogasonar (1873). Guðmundur sem var lærður heimspekingur frá Kaupmannahafnarháskóla fékk tveggja ára styrk frá Alþingi til að kynna sér skólamál og menntun hér á landi. Í kjölfarið skrifaði hann bók sem ber nafnið Lýðmennt (1903). Bókin varð strax höfuðrit um íslenska skólasögu og lagður var grunnur að því að sem koma skyldi í menntun þjóðarinnar. Guðmundur hafði komist að því með rannsóknum sínum að menntun barna hér á landi væri ábótavant og eiginlega algerlega óviðunandi (Tímarit.is 1. janúar 2007).  

Í  grein Guðrúnar Ingólfsdóttur um Jón Ólafsson úr Grunnavík (1705-1779) , í bókinni Vitjun sína vakta ber (1999), kemur fram að ,,á 18. öldinni hafi læsi aukist til muna í Evrópu fyrir tilstuðlan kirkjunnar og stefnu hennar í barnafræðslu“ (Guðrún Ingólfsdóttir, bls. 33).  Í Evrópu höfðu forsprakkar Upplýsingarinnar fundið út úr því að mannshugurinn væri eins og óskrifað blað (tabula rasa) sem gott væri nú að kenna og þá sérílagi gott siðferði, trú og dyggðir. Hér á landi voru það aðallega heittrúarmenn (píetistar) sem fundu það út að það væri nauðsynlegt að allir kynnu að lesa ritninguna (bls 33). En hvernig var þá menntun kvenna háttað og hvernær hófst hún  fyrir alvöru? 

Í bók Erlu Huldu Halldórsdóttur Nútímans konur (2011) leitar Erla Hulda víða fanga um menntun kvenna frá 1850–1903 og segir meðal annars að fræðsluskylda barna fyrir fermingu hafi verið lögboðin á Íslandi frá því á átjándu öld. Var það til þess að tryggja að börn kynnu og gætu lesið guðsorð (Nútímans konur, bls 99). Ennfremur segir þar:

Stór hluti landsmanna hafi ekki kunnað að skrifa um 1840 ef til vill aðeins um 10-30% fullorðinna kvenna og 20-50% karla [...] Sú hugmynd að konur lærðu að skrifa og þeim þannig gefið tækifæri til þess að tjá hugsanir í orðum á blaði hafi verið býsna róttæk því að í þekkingu felst vald. Jafnvel hin minnsta reynsla af lærdómi feli í sér miðlun þekkingar sem að minnsta kosti sumar konur hafi getað nýtt sér til þess að ögra viðteknum hugmyndum um kvenleika og þannig leggja sitt af mörkum til breytinga á stöðu kvenna (Nútímans konur, bls 107).

 

Þetta leiðir hugann að skáldkonu sem fædd var snemma á 19. öldinni. Margir hafa fjallað um hana og dásamað í bak og fyrir en nú verður annars vegar lesið ljóð um trú og gott siðferði og hinsvegar fjallað um ljóðið ,,Brot“ sem hún orti til Kristrúnar systur sinnar.

Guðný Jónsdóttir frá Klömbrum (1804-1836) orti nokkuð af ljóðum og eftir hana liggur lítið kver ,,Guðnýjarkver”  sem  gefið var út 1951 af Helgu Kristjánsdóttur. Sennilega hefur Guðný kunnað bæði að lesa og skrifa enda komin af embættismönnum. Faðir hennar var séra Jón Jónsson fæddur 1772 og móðir Þorgerður Runólfsdóttir en hún var afkomandi Guðna Sigurðssonar sýslumanns og landfótgeta. Fólk úr efri stéttum gat leyft sér að senda börn sín til náms og má ætla að á heimilinu hafi menntun verið höfð í öndvegi - fyrir synina. Bókakostur alþýðufólks hefur verið lítill sem enginn og því hefur farið lítið fyrir kunnáttu alþýðunnar til þess að lesa og skrifa. en Guðný hefur notið þess að hafa aðgang að menntun, það sanna ljóðin sem fundist hafa eftir hana í íslenskum handritum.

Til eru mörg handrit í Landbókasafninu með ljóðum Guðnýjar. Helga Kristjánsdóttir safnaði saman ljóðum hennar og setti upp í lítið kver eins og áður sagði og er vísað í þau aftast í kverinu.  Í ljóðinu hennar ,Kveðja bls. 75 sem er að finna í handriti Lb 438 4to eru þessi fallegu orð um góðar dyggðir, trú og gott siðferði:

 

Drottinn gefur, drottinn burttekur,
drottinn okkar þanka svo vekur,
að forðum héðan himins til hæða
hana lof skulum daga og nótt ræða.
 
Unun skærust augnanna minna
er nú komin til forfeðra sinna.
skilnaður sár þótt skeri mitt hjarta
skal ei um drottins ráðstöfun kvarta.
 
Farðu nú vel úr faðminum mínu,
faðmi snú mót lausnara þínum.
Fyrir oss er fullsæld til reiddi,
faðminn hann á móti þér breiddi.
 
Æ, það verður fagnaðarfundur,
sem fá ei skilið harmarnir sundur,
að finna þig í friðarins landi
föður himna lofgjörð stærandi.
 
                               Guðnýjarkver,  1951

 

Í litla kverinu hennar Guðnýjar má líka skynja mannsanda sem segir frá hnökrum og djúpum dölum, einmanna sálum og sorgum. Ljóðabókin geymir flestar perlur Guðnýjar sem varðveist hafa. Í lok bókarinnar segir Helga frá því þegar Guðný lá banaleguna og eftir lát hennar hafi fundist lítið bréfasnifsi vafið innan í silkiklút sem bundin var um hálsinn á henni. Snifsið innihélt ljóð sem hún var með í smíðum. Ljóðið var ort til Kristrúnar systur hennar og var það eigi klárað.

Ljóðið er einstaklega fallegt og heitir ,,Brot” og það fjallar um þann sem gengið hefur í gegnum erfiðleika. Má lesa út úr ljóðinu að Guðný hafi verið að leggja sitt af mörkum til breytinga á stöðu kvenna en kannski illa getað komið því frá sér, heldur geymt það vafið innan í silkiklútinn sinn. Bréfið sannar að hún hafi sjálf skrifa ljóðin sín, verið bæði læs og skrifandi  og svo auðvitað firna gott skáld og hagyrðingur hinn besti. Silkiklúturinn góði og læsi eru því merki um þær breytingar sem urðu á stöðu kvenna í upphafi 19. aldarinnar. Mín skoðun, læt ykkur eftir að meta og vega.

 

Brot
 
Forðum úti á víðavangi
var ég ein á hægum gangi,
þar mér úti þótti frítt.
Allur sýndist ami fjarri,
ótal dýr og fuglar nærri
fold algræna fengu prýtt.
 
Þankinn var í þungum önnum.
Þarna stóð ég eina af mönnum,
lá því við að leiðast mér.
Eg óskaði, að eitthvað mætti,
sem ólundina mína bætt.
Oft kemur gott, þá getið er.
 
Auga þegar við ég vendi,
varð mér litið unglegt kvendi,
er alltaf færðist nær og nær
Sú var mædd og sein í gangi,
sem hún bæri þungt í fangi
enganveginn ferðafær.
 
Sá ég glöggt, að svona var hún:
Sár-einbrotin klæði bar hún
sem á kroppnum sátu nett.
Hvergi hafði gull til glansa,
gimstein eða blómsturkransa,
henni slíkt þó hæfði rétt.
 
Höfuð allt var hulið lokkum,
sem hrundu niður í bognum flokkum,
andlitið því ég ekki sá,
þar til Kára blær því breytti.
Blóma þann, er hana skreytti,
drósin fékk ei dulið þá
 
Ennið kúpta, breiða og bjarta
með blíðu og dökkva svipnum skarta
sýndust brúna blá við ljós.
Roðann hafði kinna klára.
Komst ég við, því straumur tára
hrundi um vanga á hringarós.
 
Hún mig tjáði síðan sæla.
Svona fyrst hún tók að mæla
sinnar ævisögu þátt:
Eg hef ferðast æði lengi,
ýmist regn eða sólskin fengið,
geð samt borið get ei hátt.
 
Eg nam fyrst í æsku kanna
eftirlæti foreldranna.
Heilsa og þroski hresstu mig.
Andvara sam ég á mér hafði,
sem umvöndunar skyldan krafði.
Hún er jafnan söm við sig.
 
                        Guðnýjarkver 1951

 

Svona varðveittust dýrustu perlur íslenskra kvenna, vafðar inn í silkiklúta.

 

 

 

 

 

 

 

 

Tengt efni