SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Helga Jónsdóttir 3. apríl 2019

GEGNUM ORÐAHJÚPINN. Líf og ljóð Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbrum - eftir Helgu Kress

Myndskreyting: Gegnum orðahjúpinn - Líf og ljóð Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbrum

I Takmark ferðarinnar

Í bréfi sem Haraldur Níelsson skrifaði Ólöfu Sigurðardóttur á Hlöðum tæpum mánuði eftir lát konu sinnar Bergljótar, og dagsett er í Reykjavík 14. ágúst 1915, þakkar hann henni enn og aftur fyrir samúð og segir svo:

[...] sízt má eg gleyma því, að þakka þér fyrir það, sem þú mintist á ömmu mína Guðnýju. Hana hefi eg elskað, síðan eg man eftir mér. Sorgarsaga hennar greip huga minn sem barn, og eg lærði mjög ungur hið viðkvæma kvæði hennar, sem prentað var í Fjölni. Og nú skaltu vita þetta: allri norðurferðinni var hleypt af stað, til þess að eg gæti fengið að sjá Grenjaðarstað og komið að Klömbrum, þar sem hún varð fyrir sorginni. Eg ætlaði norður í Þingeyjarsýslu frá Akureyri: ætlaði að skoða Slútnes, koma að Reykjahlíð, og halda þaðan norður að Grenjaðarstað; það var takmark ferðarinnar.1

Ferðin að Klömbrum var aldrei farin, því í þann mund sem Haraldur var að leggja af stað frá Akureyri, þar sem hann hafði dvalist um skeið við fyrirlestrahald, fékk hann tilkynningu um lát Bergljótar og sneri við svo búið heim.

Í löngu bréfi sem Ólöf skrifar Haraldi og dagsett er á Hlöðum 19. og 21. júlí 1915 vitnar hún í samtal þeirra á Akureyri nokkrum dögum fyrr um væntanlegt ferðalag hans að Klömbrum. Það er ekki aðeins að hún fylgi honum eftir í huganum „þarna norður á þjáningar-stöðvum hennar Ömmu þinnar,“ heldur gerir hún sig, með hans orðum, að ömmunni um leið og hún afsakar hvað hún hefur skrifað mikið um sjálfa sig:

Nú ertu sennilega orðinn þreyttur á að lesa þessar sjálfslýsingar, sr. Haraldur , sem ekkert er eiginlega markvert við, nema ef vera skyldi það, að þjer yrði skiljanlegri sú tilfinning þín, að þjer finnst að jeg vera Amma þín, sú sem þjer er svo einkar mæt.

Áður en Ólöf hefur lokið þessu bréfi fær hún bréf frá Haraldi, dagsett á Akureyri 19. júlí 1915, þar sem hann segir henni frá láti Bergljótar. Í því biður hann Ólöfu að „setja saman lítið ljóð“ um hana og gefur að því forskrift. Eigi það að byrja á línum sem Ólöf hafði áður sent honum, fjalla um andlátið í sambandi við akureyrardvöl hans og „vera ávarp til okkar Bergljótar beggja frá þér“. Ef marka má dagsetningar var bréfið tvo daga á leiðinni frá Akureyri til hlaða. Í samúðarbréfi Ólafar, dagsettu 21. júlí 1915, kl. 4 e.h., segist hún hafa fengið bréfið frá Haraldi fimm klukkustundum fyrr og sé þegar byrjuð á ljóðinu sem hann hafi beðið hana um:

Hvort jeg vildi geta sagt eitthvað gott nú handa þjer! Fyrst þú þá líka ljetst þjer koma til huga að óska þess. Jeg fór, auðvitað, undireins að reyna, þó mjer finnist þjer ekkert fullgott það sem að jeg get sagt, og ekki svipað því. 3 vísur eru komnar á miðann og læt jeg þær líklega fara, af því að jeg held að þær sjeu heitar, þó annars sjeu þær ekki mikils virði.2 Undir lok bréfsins huggar hún Harald með því að minnast á ömmu hans:

Jeg man ógreinilega eptir hjartnæmri sorgarsögu um Ömmu þína, Guðnýju, sem mikið var umtalað kringum mig unga, og vakti mikla samúð hjá konum. Heit og sterk ljóð voru sögð ort af henni, sem að jeg lítið man úr, en nú, innfrá, vaktist þetta alt upp fyrir mjer, af viðtali við gömul hjón sem kunnu ljóð hennar og mundu meir enn jeg um hana, og þau gáfu einnig þá upplýsingu, að yfirburðir þínir og gáfur væru frá henni komnar. Þjer er að sjálfsögðu kunnugt um þjáningar Ömmu þinnar, og alt þetta.

Það er við þessum orðum sem Haraldur bregst í bréfinu frá 14. ágúst og vitnað er til hér í upphafi. Hann spyr hver gömlu hjónin séu sem kunniljóð ömmu hans, segir frá eigin söfnun á ljóðunum og tengir ömmusystur sinni, Hildi:

 

Haraldur Níelsson

Eg hef safnað öllum þeim ljóðum, er menn kunna og varðveizt hafa eftir hana. Hildi systur hennar, þá gamalli konu, kyntist eg á Hafnarárum mínum, og hún fræddi mig mjög. Hildur ömmusystir mín held eg sé kristnasta, og yndislegasta konan að ýmsu leyti, sem eg hefi kynst á æfinni. Hún var mér afburðagóð árin sem eg kyntist henni. Amma mín Guðný hafði verið gædd einhverjum dulrænum gáfum, sá stundum sýnir, fann margt á sér, sagði stundum fyrir óorðna viðburði, og hana dreymdi merkilega drauma, t.d. einn um það, hve gamlar þær yrðu systurnar; rættist hann nákvæmlega. Hildur sagði mér hann sjálf, var þá ein eftir lifandi af fjórum. Því miður held eg, að lítið af gáfum hennar hafi gengið í arf til mín. En móðir mín (Sigríður Sveinsdóttir og Guðnýjar) var mjög gáfuð kona; svo var og um Jón Aðalstein albróður mömmu. En eg held eg hafi erft eitthvað af tilfinningunum frá ömmu minni. Aftur á móti nokkuð af tápi og fjöri frá föður mínum, held eg. –

Það er athyglisvert að Haraldur telur ekki til neins sérstaks skyldleika við móðurafa sinn en rekur tilfinningar sínar og viðkvæmni til kvenleika móðurömmunnar og styrkleikann til karlmennsku föðurins. Lýsingin á Guðnýju sem Haraldur hefur eftir Hildi gæti eins átt við um Ólöfu sem einnig var gædd dulrænum gáfum, sá sýnir og dreymdi merkilega drauma. Báðar voru þær skáld og í lýsingu Ólafar eru ljóð Guðnýjar „heit“ eins og hennar eigin.

Í bréfinu vitnar Haraldur í tvö kvæði eftir ömmu sína, „Á heimleið“ og „Endurminningin er svo glögg“, en bæði fjalla þau um sáran aðskilnað móður og barna. Um fyrra kvæðið segir hann og leggur áherslu á tildrög þess:

Til er vísu-brot eftir ömmu, sem eg elska og mér finst lýsa henni furðuvel: gáfum hennar, viðkvæmni, guðstrú og stillingu. Hún orti það, þá er hún var neydd til að koma mömmu minni fyrir á öðrum bæ um túnasláttinn fyrir önnum heima. Mamma var þá á 1. eða 2. ári, að mig minnir.

Hann vitnar síðan í brot úr kvæðinu sem því miður vanti línur í og segir: „Þetta er svo einfalt, en þó fallegt, og tilfinningarnar, sárar og viðkvæmar, gægjast alstaðar út gegnum orðahjúpinn.“

Þá skrifar hann upp erindi „úr einu kvæða hennar, sem margir kunna“, og er lokaerindið í því „viðkvæma kvæði“ sem hann segist fyrr í bréfinu hafa lært mjög ungur:

Vonin og kvíðinn víxlast á, veitir honum þó langt um betur, hvort börnin muni og megi hjá mér framar hafa gott aðsetur. Sú áhyggjan er söm og jöfn sælu þar til eg kemst í höfn.

Þannig er það tjáning viðkvæmra tilfinninga sem hann, kennimaðurinn, leitar að og finnur í skáldlegu tungumáli ömmu sinnar. Bréfinu lýkur hann síðan á þessum kveðjuorðum til Ólafar: „Ef við hittumst síðar á æfinni, sem eg vona, skal eg sýna þér það, er eg á til af kvæðum eftir hana.“

Í svarbréfi Ólafar, dagsettu á Hlöðum 8. október 1915, er hún uppteknari af „trúspekinni“ en gömlu hjónunum og hún svarar spurningu Haralds um þau bara óbeint og á spássíu: „húsfreyja bóndans hjer á Hlöðum var eitt ár í þjónustu Ömmusystir þinnar gömlu frú Hildar á Akureyri og segir að hún hafi margar sögur sagt sjer af ömmu þinni og þótti konunni hjerna merkilegt að heyra af mjer, að þú værir dóttursonur þeirrar frægu konu sem svo mikill orðstír fór af hjer norðanlands og kannske um land alt, sem þó ekki þá var títt um konur.“

Í bréfi, dagsettu í Borgarnesi 10. ágúst 1917, trúir Haraldur Ólöfu fyrir áfalli sem hann hafi orðið fyrir og sé honum slík hugarkvöl og hann langi ekki til að lifa lengur: „Eg ætla ekki að segja þjer meira af mínu harmsefni,“ skrifar hann. „En mikið hlakka eg til að losna við jarðlífið – það á víst að verða mjer nær því óslitin sorg.“3 Í beinu framhaldi verður honum hugsað til ömmunnar sem hann bæði samsamar sig og sækir til styrk: „Eg er dóttursonur ömmu minnar Guðýjar sem m.a. kvað þetta,“4 segir hann og vitnar í „Endurminning er svo glögg“ eins og Ólöf kunni framhaldið: „hugprýðin verður heldur smá / hjartað sorgunum léttir varla; / á morgnana kvíðvænt þykir þá / þennan að lifa daginn allan o.s.frv.“ Þannig leitast hann við að orða tilfinningar sínar á skáldlegu máli ömmunnar um leið og hún verður honum táknmynd óslitinnar sorgar.

Eins og sjá má á bréfaskiptum þeirra Ólafar skipti amman miklu máli í lífi Haralds. En það voru ekki aðeins ljóð hennar sem höfðu áhrif á hann heldur einnig ævi hennar og sorgarsaga í munnlegum frásögnum Hildar og bréfunum sem hún skrifaði systur sinni og systurdóttur.5

II Myrkt er af kvíða

Ljóð Guðnýjar sem varðveist hafa eru ekki mikil að vöxtum, alls 28 í Guðnýjarkveri sem kom út árið 1951 í vandaðri útgáfu Helgu Kristjánsdóttur og með ítarlegum inngangi eftir hana. Áður, eða í meira en heila öld, höfðu ljóð Guðnýjar gengið manna á milli í fjölmörgum uppskriftum. Sýnir það vinsældir þeirra, og það kannski fyrst og fremst meðal kvenna, eins og Ólöf líka nefnir í bréfinu til Haralds 19. júlí 1915. Í handritinu „Kvennaljóðmæli“ sem hefur að geyma ljóð eftir 18 skáldkonur frá 18. og 19. öld og varðveist hefur á Landsbókasafni Íslands eru ljóð Guðnýjar höfð fremst.6 Ekkert af ljóðum hennar er til í eiginhandarriti. Að mati Helgu Kristjánsdóttur mun margt hafa glatast af skáldskap hennar „og sumt viljandi eyðilagt“.7

Guðný er fædd 21. apríl 1804 í Saurbæ í Eyjafirði, næstelst sjö systkina, og voru foreldrar hennar séra Jón Jónsson (1772-1866) og kona hans, Þorgerður Runólfsdóttir (1776-1857).8 Hún ólst upp með foreldrum sínum, fyrst á Auðbrekku í Hörgdal og síðan Stærra-Árskógi þar til þau fluttust vorið 1827 að Grenjaðarstað í Þingeyjarsýslu.9 Þar giftist Guðný síðsumars aðstoðarpresti föður síns, séra Sveini Níelssyni (1801-1881). Þau Guðný hefja búskap að Klömbrum austan Laxár, gegnt Grenjaðarstað, og eignast fjögur börn. Þau missa tvö þau fyrstu, soninn Jón Aðalstein, og dótturina Sigríði, bæði um ársgömul.

 

Guðný missti tvö börn, soninn Jón Aðalstein og dótturina Sigríði, bæði um ársgömul.

Eftir soninn yrkir Guðný þrjú ljóð, eitt þeirra í orðastað hans, ómálga barnsins, þar sem hann er látinn þakka Hildi, móðursystur sinni, fyrir umönnun og hugga hana í sorginni: „Sé ég þig / syrgja mig horfinn / af döprum hug, / mín dýra fóstra." Honum þykir leitt að geta ekki lýst fyrir henni þeirri sælu sem honum er gefin á himnum svo að hún geti glaðst með honum:

Þó að framar þér ég vildi herma frá högum mínum máli jarðnesku, má ekki það skýra mig svo að skiljir þú. 10

Með þessu kvæði hefur móðir hans gefið honum skáldlegt mál í dauðanum og gert hann að skáldi. „Sorgartölur saknandi móður“ er eitt af átakanlegustu kvæðum Guðnýjar og það sem flestar uppskriftir eru til af í handritum. Þegar sonurinn veikist liggur Guðný á sæng að öðru barninu og er kölluð að banabeði hans á Grenjaðarstað. Kvæðið er lengsta kvæði hennar, alls 19 erindi, og svo áköf er sorgin að það er eins og það geti ekki hætt því að þá muni hún missa samband við barnið. Hún talar við soninn látinn þar sem hann liggur „hulinn í mold“, minnist þjáninga hans og dauða, horfir á litlu fötin hans sem vermdu hann lifandi og hugsar um tungumálið sem hann aldrei fékk:

Eg gat ei svoddan yndis notið orða þinna að merkja skil, því æviskeið var áður þrotið, aldursins þess er komstu til. Nú lærir andlegt englamál elskuverð þín hjá guði sál.11

Eins og fleiri kvæði Guðnýjar endar þetta á tilraun til sátta. Hún huggar sig við að sonurinn sé á góðum stað með nýjum leikfélögum og hlakkar til endurfunda á himnum. Dóttirin nýfædda lifir ekki nema tæpt ár og Guðný yrkir einnig eftir hana: „illa nú grónar / undir mér blæða, / þegar Sigríði / sé ég náfölva.“ Þannig horfir hún á barnið dáið um leið og hún trúir ljóðinu fyrir því að hún muni eiga nýtt barn í vændum: „ei veit nema vaxi / og að viði gerist, / aðrir sem þeygi / enn bólar á.“12

Átta mánuðum eftir lát Sigríðar eignast Guðný soninn Jón Aðalstein (1830-1894) og rúmu ári síðar dótturina Sigríði (1831-1907), móður Haralds Níelssonar. Ekki fær Guðný að hafa litlu dótturina hjá sér, því 10 mánaða gamalli kemur Sveinn henni fyrir í fóstri hjá Þuríði ljósmóður hennar í Reykjahlíð, „til þess, eins og sagnir herma, að Guðný gæti gengið út til heyvinnu“.13 Guðný fór sjálf með dóttur sína í fanginu yfir heiðina til Reykjahlíðar og á leiðinni heim yrkir hún enn eitt ljóðið um sáran aðskilnað og missi. Þetta er stutt kvæði, það sama og „vísubrotið“ sem Haraldur dóttursonur hennar vitnar til í bréfinu til Ólafar. Sársaukinn er beinlínis líkamlegur og Guðný grætur fram ljóðið í eins konar þulu:

Á heimleið

Myrkt er af kvíða. Meybarnið fríða menn frá mér taka. Faðmur er snauður, alheimur auður, oft mænt til baka. Samt má ei gleyma, að sonurinn heima semur mér yndi. Augað hægt grætur, til alls liggja bætur, ef hver það fyndi.14

Ljóðið einkennist af skilyrðistengingum og viðtengingarhætti (og á það sameiginlegt með ljóðum margra kvenna): Samt má ei gleyma; til alls liggja bætur ef hver það fyndi. Einnig er í því athyglisverð og á þessum tíma djörf ásökun: „menn frá mér taka“. Það er samfélagið, karlinn, sem rífur barnið úr fangi móðurinnar með valdi og metur tilfinningar hennar einskis. Þannig má oft í ljóðum Guðnýjar sjá tvær raddir, þar sem önnur er rödd þægrar og þakklátrar konu, eins og samfélagið vill hana, og hin rödd kúgaðrar og óhamingjusamrar konu, bönnuð rödd, en um leið í uppreisn.

III Að heyra og sjá hennar dauðastríð

Vorið 1835 sagði Sveinn skilið við Guðnýju, leysti upp heimilið og fluttist í aðra sýslu. Guðný flosnaði upp og fór með systur sinni, Hildi, og manni hennar til Raufarhafnar. Dóttirin var enn í Reykjahlíð og syninum var komið fyrir á næsta bæ. Í athugasemd um burt vikna úr Grenjaðarstaðasókn 1835 skrifar séra Jón faðir hennar við nafn Guðnýjar: „kastað úr hjónabandi saklausri af manni hennar.“15

Guðnýju leið illa á Raufarhöfn, hún saknaði mjög heimilis síns og barna og upplifir sig í útlegð. „Hér er eyðimörk hin mesta,“ segir hún í ljóðinu „Að norðan“ sem hún sendi Kristrúnu systur sinni á Grenjaðarstað í bréfi:

Nóg af tjörnum, keldum, klungri, klettum grettum, sandmöl þungri sem hylur landið lengst við haf.

Það eina sem hún fellir sig við eru skipin í höfninni, líklega vegna þess að á þeim mátti fara burt:

En það er líka þar með búið, þykir mér allri prýði rúið þetta landsins leiða stél.

Undir lok kvæðisins þrengist sjónarhornið við soninn sem hún sér með augum systur sinnar og biður hana fyrir: „Kveðju mína beztu berðu / barnið þegar frá Klömbrum sérðu, / sem föður og móður fjarlægt er.“16

Dvöl Guðnýjar á Raufarhöfn varð ekki löng. hún lést þar eftir rúmt misseri. „almenningur trúði því, að hún hefði dáið úr sorg.“17 Og faðir hennar skrifar í kirkjubókina: „Dó af sjúkdómi, orsökuðum af skilnaðargremjunni, á Raufarhöfn 11. jan. 1836.“18

Í bréfi til Kristrúnar, dagsettu á Raufarhöfn 12. janúar 1836, lýsir systirin Hildur andláti Guðnýjar, þjáningum hennar og síðustu orðum af næstum klínískri nákvæmni í bland við hamslausa sorg sem flæðir fram og ætlar engan endi að taka:19

Diddína mín! Hjartans mín! Æ, á sunnudagskvöldið sem nú er þriðjudagskv. skrifaði eg þér eymdarástandið allt, besta mín, og er þá að segja frá framhaldinu til endans þó sorglegur sé. – Þegar Guðný fór var hún þolanleg um nóttina, svitnaði undur mikið og svaf nokkuð, hafði um morguninn eptir góða rænu [...] svo fór að bólgna og blása upp allt lífið, sem ei lét undan neinu sem eg hafði [...], þorstinn ógnarlegur og þrautin og óhægðin á allan veg, sem á engan veg gat ko

, hvað sem við reyndum, þessi þraut hélt áfram með ógnar óróa og sárri tilfinningu, samt talaði hún alltaf við mig og spurði mig hvört þetta mundi ei vera sjálfur Dauðinn, eg sagði henni svo mundi vera. Harður ertu, dauði, sagði hún, Jesús minn sér það, að eg nú enga ró finn. Stór eru nú gjöld minna synda. Sá skal deyja sem syndgar hér, soddan úrskurður réttur er. Svo sagði hún, hvað er annað en biðja Guð, æ! miskunnaðu mér, æ! skiptu þér nú af mér, Jesú, sonur Davíðs, líkna þú mér, þú getur einn hjálpað mér, Guð minn! Þetta og annað eins lét hún ganga allan þennan þunga dag, því meir sem meira þrengdi að, og svo sem 2 tímum áður en frelsið kom las hún með svoddan styrk og stillingu hátt og greinilega versið Afl Dauðans eins nam krenkja etc. og litlu þar á eftir, Jesú Jesú Jesú minn, eg reiði mig á etc., nema í staðinn fyrir tvær seinustu hendingarnar setti hún: enda nú mína alla neyð, ó, faðir kær, með sælum deyð, og margt annað dýrðlegt og guðlegt sem hún sagði. Eg ætlaði að deyja af sorg að heyra og sjá hennar dauðastríð.

Þetta er lýsing á píslardauða og Guðnýju deyjandi líkir Hildur hvað eftir annað við frelsarann sem þær ákalla til skiptis, Guðný á banabeði og Hildur í bréfinu. Smám saman dregur af Guðnýju: „og þegar rökkva fór um kvöldið fóru að kólna höndur og fætur og andlit“ og „svo þóknaðist Guði kl. 10 um kvöldið þann 11. jan. að taka sína blessuðu eign, sálina, úr þessu kvalafulla hreysi." Viðbrögðum sínum lýsir Hildur á mjög svo myndrænu biblíumáli sem hentar þó ekki alveg aðstæðunum:

Eg átti að verða fegin og eg varð það að sönnu, æ, en mér kom þetta svo óvart, eins og vant er, ó, hvað eg á bágt með mig. Hugur minn vill vera svo fastur við þennan kvalabústað líkamann sem var sú ógnar hryggðarmynd, eg er að reka hann, hugann, á eftir þeim sæla anda, til að skoða hennar fögnuð og sælu sem eg eftir Guðs fyrirheitum veit að hún samstundis öðlast hefur, af að finna sín heittelskuðu 2 börn [...]. Þetta er eg mér til huggunar að mála upp fyrir mér, æ, eg er orðin svo margorð um þennan sorgaratburð. Guð er sá sem þessa beiskju skammtar, og ætlast til við kunnum að gjöra okkur það að góðu, æ, hún var inni dauð í sólarhring . [...] aldrei hefi eg séð sýnilegri dauða á nokkurs andliti en hennar, æ, Guð minn góður, hvað líkaminn verður fljótt auðvirðilegur, það sést fljótt að allt það verulega er sálin, ó, hvað mig langar til ykkar að gráta með ykkur. Svona gengur. Hana langaði svo mikið til að lifa.

Undir lok bréfsins er Hildur komin aftur til hversdagsleikans og hún biður systur sína ef hún skrifi Sveini að hlífa honum hvergi og útmála vel fyrir honum þjáningarnar. „Sárt er mér við hann.“

Í bréfi sem Hildur skrifaði Kristrúnu nokkrum dögum síðar og hefur aðeins varðveist í broti víkur hún að söknuði Guðnýjar eftir Sveini og segir frá bréfum sem hún átti frá honum og las sér til huggunar í dauðanum. Eins og oftar vitnar hún í beina ræðu Guðnýjar: „hvört eg lifi eða dey eru öll bréfin míns hjartkæra vinar til; og ljóðmælin þar í sem hann skrifaði mér.“ Þá segir hún að Guðný hafi oft sungið í huga sér „eitt stef úr þeim: Stund er sú stríð og þungbær, er minn fjærri þér fyllir aldur.“ Um eftirlátin ljóð Guðnýjar segir hún í sama bréfi um leið og hún fagnar því að „aminn“, uppspretta ljóðanna, sé frá henni vikinn:

[...] ei átti mín hjartkæra G. meira skrifað af ljóðmælum en eg hefi sent þér, það sem eg sendi þér seinast skrifaði hún á nýársdagskvöld eftir háttutíma, og það var sem þú manst hennar seinasti heilbrigði dagur; ó, svona er. Enginn veit, hvað langur dagurinn er; oft hugsa eg um það síðan, glöð er eg nú orðin yfir burtför hennar. Guð sér það. Hvað sem mér amar, verð eg svo fagnandi af að vita, að enginn ami nær framar til hennar.

IV Allt er þetta svo minnilegt

Rúmum tveimur mánuðum eftir lát Guðnýjar var hún jarðsett á Skinnastað í Öxarfirði, langt frá grafreit barna sinna á Grenjaðarstað og að fjölskyldu sinni fjarstaddri. Vegna ófærðar og veðurs var ekki hægt að jarðsetja hana fyrr. Í bréfi sem Hildur skrifar séra Vernharði Þorkelssyni, presti á Skinnastað, og dagsett er á Raufarhöfn 25. febrúar 1836, biður hún hann að halda ræðu yfir kistu Guðnýjar og þar sem hún geti ei „notið þeirrar sorglegu sælu” að vera viðstödd pári hún honum til að láta hann vita „helstu atriði úr hennar (sorglegu) ævisögu”. Hún segir:

Ég þekti hana altaf, hennar ævi og get því sagt það sanna um hana. Hún fæddist 1804, 21. apríl í Saurbæ í Eyjafirði, giftist 21. ágúst 1827 (þér vitið hvörjum), átti fjögur börn, hvar af 2 lifa, en 2 dóu árs gömul, henni til stórrar sorgar, hvört árið eftir annað. En nú á næst liðnu ári endaði hjónaband þetta (eins og þér vitið) henni til ógnarlegrar sorgar. Mótlæti hennar var mörgum kunnugt, en þó eins og vant er margt af því mönnum hulið. Hún bar það með þolinmæði og staklegu umburðarlyndi við manninn, því hún lofaði honum að ráða öllu án þess eitt orð um höfuðorsökina að tala, en lét hann eða lofaði honum að kasta orsökinni á lunderni sitt. Um þetta er ég orðin of margorð.

Þá segir hún að Guðný hafi verið „í mesta máta guðrækilega sinnuð“, „gáfuð í besta máta“ og „skáld gott“. Í lokin afsakar hún mjög bréfið, segir að maðurinn sinn muni skrifa greinilegar síðar og biður prestinn að forláta sér dirfsku sína „að mæða yður með þessum kvenlega og óreglulega graut, það sem ég segi um hana er sannleikur, þó hann sé óreglulega fram settur, þér nýtið eitthvað úr því minn góði prestur!”20

Líkræða prestsins, séra Vernharðs Þorkelssonar, sem varðveist hefur á handritadeild Landsbókasafns, er löng og ýtarleg og í henni bregður hann upp átakanlegri mynd af skilnaði þeirra Guðnýjar og Sveins:

En svo gjörðist þessi frábæri gáfu- og snildarmaður – af fágætum orsökum – fráhverfur, að hjónabandið varð henni óbærileg byrði og sorg, og það fyr og í fleiru en alþýða merkt gat. Hún gaf honum hjarta sitt með höndinni, hún girntist að leiða hann til dauðans og fylgja honum með trúfesti. Heiður og húsfriður stóð af henni á heimilinu; blíðka vildi og reyndi hún hann þegar bágt ljet, hverja stund vildi hún gjöra honum annari yndislegri; hún vildi þau skipti með sjer sorg og sælu; hreinskilning og hjartans staðfesta fylgdi henni alla tíð; samt gat ekki það hugarfar sem var í Jesú Kristi varðveitt beggja hjörtu í innbyrðis elsku. Þó raskaði það ekki þolgæði hennar og staka umburðarlyndi og jafnaðargeði við mann sinn, því þolinmóðari sálu munum vjer vart finna, og sáttgjarnara hjarta mun varla brjóst bera. Aldrei ámælti hún manni sínum, og ekki þá svo langt var komið á næstliðnu vori þegar honum voru veittir Blöndudalshólar, að hann ljet fjarlæginguna gefa sjer tilefni til að beiðast upphafningar á hjónabandinu og skaut skuldinni uppá fjarstætt lunderni hennar sínu eigin; miklu heldur viðurkendi hana sem mestu og beztu konu, því ekkert annað játaði hann sig fyrir forlíkun – geta að henni fundið; heldur viðurkendi hana sem mestu og beztu konu. Alt þetta umbar hún án þess að mæla þar eitt orð á móti, einungis af elsku til rósemdar hans, ef ske mætti að ánægja hans yrði að meiri. En hvort meira vegur á rjettlætisins eilífu metaskálum: hans sakargipt eða hennar þegjandi tár á meðan, er þeim ofvaxið að dæma, sem ekki skynja hvað býr í afkimum hjartans.21

Það er athyglisvert að þrátt fyrir einlæga samúð með Guðnýju nefnir séra Vernharður hvergi að hún hafi verið skáld eða að hún hafi látið eftir sig ljóð. Á einum stað lætur hann að því liggja að hún hafi átt það til að setja saman „gamansbögu“ sem hafi þó ætíð verið með guðrækilegu ívafi.

Bjarni Thorarensen nefnir ekki heldur skáldskap Guðnýjar í bréfum til vina sinna, þar sem hann segir frá örlögum hennar. Bæði eru bréfin dagsett 14. febrúar 1836. Í bréfi til Gríms Jónssonar, segir hann: „Madm Guðný kona þrælsins Sveins fyrrum djákna Níelssonar, nú prests á Blöndudalshólum, er nú dáin!“22 og í bréfi til Finns Magnússonar: „Sr Magnús á Hrafnagili dáinn, og Madm. Guðný hálffráskilin kona fants nokkurs núorðins prests sr. Sveins Níelssonar í Blöndudalshólum.“23

Tæpu hálfu ári eftir lát Guðnýjar kvæntist sér Sveinn aftur, stofnar nýja fjölskyldu og verður farsæll prestur. Jón Aðalsteinn, sonur þeirra Guðnýjar, fór til föður síns og ólst upp með honum. „fátt var jafnan með þeim feðgum,“ segir Helga Kristjánsdóttir.24 hann fluttist síðar til Danmerkur og lést þar. hann eignaðist ekki afkomendur. Sigríður ólst upp í Reykjahlíð til sex ára aldurs. Í kirkjubók Grenjaðarstaða má lesa þessa kuldalegu lýsingu í skrá yfir innkomna í sóknina 1837, skrifaða af afa hennar: „innkomin til Grenjaðarstaða Sigríður Sveinsdóttir, 6 ára, tökubarn. Kemur frá Reykjahlíð.“25

Næstu fjögur árin dvaldist hún hjá afa sínum og ömmu á Grenjaðarstað, „en saknaði sárt Þuríðar fóstru sinnar.“26 10 ára fór hún til Kristrúnar móðursystur sinnar og manns hennar að Hólmum í Reyðarfirði. Rúmlega tvítug fluttist hún til föður síns vestur að Staðastað og þar giftist hún Níelsi Eyjólfsssyni haustið 1855. Þau eignuðust átta börn og er Haraldur þeirra næstyngstur. Upplifun Hildar af dauða Guðnýjar og dauðastríði varð áfall fyrir hana sem hún komst aldrei yfir og hún kemur aftur og aftur að í bréfum sínum. Í löngu bréfi sem Hildur skrifar Sigríði systurdóttur sinni frá Kaupmannahöfn, þá komin á níræðisaldur, og dagsett er á dánardegi Guðnýjar, 11. Janúar 1890, rifjar hún enn upp atburðinn:

Mér finnst í dag, að eg engum geti skrifað nema þér, því það er dagurinn (stóri), sem hún móðir þín sál. dó á, og það eru í dag 54 ár síðan, og þó er dagurinn frá morgni til kvölds mér svo fyrir augum eins og allt var þá.27

Hún lýsir banalegu Guðnýjar á svipaðan hátt og hún hafði gert í bréfinu til Kristrúnar rúmum fimmtíu árum fyrr en bætir ýmsu við. Hún segir að Guðný hafi viljað láta flytja sig látna að Grenjaðarstað, en ef það væri ekki hægt, þá að Skinnastað í Axarfirði. Henni hefði þótt þar svo fallegt. Hún talar um leiði hennar sem hún ætlar að láta setja „dálitla marmaraplötu“ yfir í sumar og láta versið sem hún fór með í andlátinu standa á henni. Þá segir hún að Jón, bróðir Sigríðar, sé nú að safna kvæðum móður þeirra og biður Sigríði að senda sér eins mikið af þeim og hún geti, „helzt þau alvarlegu“.

 

Jarðaför Guðnýjar

Sjálf kunni hún nokkuð en hafi lánað „eins og gikkur“ það sem hún lét skrifa og telur að það sé glatað.28

Daginn eftir heldur hún bréfinu áfram og segir frá jarðarförinni:

Þennan 12. á Raufarhöfn var líkið borið út í stórri og fallegri kistu, sem snikkarar bjuggu til. Lá hún meira en tvo mánuði í litlu timburhúsi rétt við íbúðarhúsið okkar. Alltaf var ótíð með miklum snjóhörkum. Samt voru bjartir dagar á milli. Svo var ráðizt í að smíða stóran skíðasleða, og þrír menn gengu á skíðum fyrir sleðanum svoleiðis, að þeir bundu um sig löngum strengjum af sextugu færi, svo þeir gengu fríir með staf í hendi nógu langt hver frá öðrum, og náðu rétt yfir Hólsstíg að Efrihólum og gistu þar um nóttina, og daginn eftir að Skinnastöðum [...]. Þessi ferð var byrjuð 17. mars, þó í 10 gr. frosti. Allt er þetta svo minnilegt og ólíkt öðrum jarðarförum. 29

Um haustið sama ár og bréfið er skrifað kom Haraldur Níelsson til náms í Kaupmannahöfn. hann hefur því rétt náð því að fræðast af Hildi og heyra frásagnir hennar síðustu mánuðina sem hún lifði, en hún dó í júlí 1891.

 

V Einnar konu er skylt að minnast

Ljóð Guðnýjar „Endurminningin er svo glögg“, sem hún orti á Raufarhöfn og sendi Kristrúnu systur sinni í bréfi, birtist í Fjölni árið 1837 og er fyrsta veraldlega ljóðið sem prentað er eftir íslenska konu. Það birtist í fréttabálkinum þar sem sagt er frá tíðindum liðins árs, og talinn er skrifaður af Tómasi Sæmundssyni, aftast í eftirmælum eftir þá merkismenn, allt karla, sem látist höfðu á árinu 1836:

Eínnar konu er skjilt að minnast meðal þeírra er önduðust þetta ár; því þó lítt hafi hennar gjætt verið – eíns og vandi er um konur – voru samt kjör hennar og „gáfur“ íhugunarverðari, enn almennt er á Íslandi. Það var Guðní, elzta dóttir merkjisprestsins á Grenjaðarstað. Hún þótti álitlega gjipt, er djákninn á Grenjaðarstað, „gáfu“-maður og atgjörvis, hafði feíngjið hennar; og aungvann hafði grunað, að hann mundi sjá sig það um hönd eptir 9 ára samvistir, að hann vildi breíta þessu, eíns og hann gjerði. Fór hann þá vestur í Húnavatnssíslu, að brauði, sem búið var að veíta honum, tók vígslu; og er nú gjiptur aptur; enn hún fór með mágji sínum og sistur norður á Raufarhöfn; og má vera, þetta hafi hana til bana dreigíð; því hún lifði ekkji fullt ár á eptir, og sálaðist 11. dag janúar-mán. 1836. Til að sína „gáfur“ hennar, þarf ekkji meíra, enn ljóð þessi, er hún kvað að norðan, til sistur sinnar á Grenjaðarstað, skömmu firir andlát sitt.30

Í fyrsta erindinu af ellefu ávarpar Guðný systurina og nefnir sjálfa sig með nafni:

Endurminningin er svo glögg um allt það, sem í Klömbrum skeði, fyrir það augna fellur dögg og felur stundum alla gleði. Þú getur nærri, gæskan mín, Guðný hugsar um óhöpp sín.

Líkt og mörg önnur kvæði Guðnýjar er þetta tregróf þar sem hún rekur raunir sínar og grætur. Hún þráir heimili sitt í Klömbrum, „raunabyrgið“, sem hún málar upp í huganum og staðsetur í stórri mynd ásamt húsinu á Grenjaðarstað:

Þegar óyndið þjakar mér, þá er sem málað væri á spjaldi, plássið kæra, sem innfrá er, frá efstu brún að neðsta faldi, og blessað rauna byrgið mitt, sem blasir rétt móts við húsið þitt.31

Þrátt fyrir þá miklu sorg sem kvæðið lýsir endar það á sáttum. „Guði sé lof, mér líður vel“ er niðurstaða þess í hróplegri andstöðu við lýsinguna sem á undan er komin. Sættirnar eru þó ekki einhlítar því að strax í næstu línu er minnt á „meinið þungt, sem gleði rænti“ og muni aldrei batna.32

Fyrsta ljóðið sem birtist á prenti eftir íslenska konu er í eftirmælum og því má segja að Guðný hafi borgað fyrir birtingu þess með lífi sínu. Þannig er Guðnýjar líka helst minnst í bókmenntasögunni fyrir sorgleg örlög sín þar sem mikil áhersla er lögð á að finna skýringar á skilnaðnum. Til eru tvær ævisögur séra Sveins Níelssonar, nokkrar blaðsíður hvor, í handritum varðveittum á handritadeild Landsbókasafns. Önnur er eftir hann sjálfan og hin eftir Árna Halldór Hannesson. Í ævisögu sinni nefnir Sveinn konu sína Guðnýju sem aukaatriði. Hann segir þó að það hafi ekki legið fyrir sér að setja saman vísu.33 Þetta sama orðar Árni Halldór Hannesson svo: „Það vildi síra Sveinn vera að fást við ljóðagerð, en til þess hafði hann ekki gáfu.“34 Árni talar um skilnað þeirra Sveins og Guðnýjar og leitar á honum skýringar:

Það er sagt að þau hafi bæði verið í samkvæmi, hafi þá legið fyrir honum að svara einhverju orði eða setningu, og hafi hann ei getað, en hún hafi þá tekið að sér hans vegna að svara, hafi honum mislíkað svo mjög að hann gat ei orðið meiri og hafi ekki viljað láta hana gera sér oftar slíka hneisu.

Helga Kristjánsdóttir nefnir fleiri sögur sem ganga í sömu átt, m.a. að Guðný hafi leikið sér að því að semja stólræður sem þóttu betri en manns hennar.35 Samkvæmt þeim verður það Guðnýju að falli að hún talar, er skáld.

VI Hin hryggilega saga

Næst birtist ljóð eftir Guðnýju í Norðurfara 1848 með eftirfarandi inngangi, sennilega eftir ritstjórana Gísla Brynjúlfsson og Jón Thoroddsen sem nú vísa til örlaga Guðnýjar sem almannaróms:

Flestum mönnum á Íslandi mun vera kunnug hin hriggilega saga þessarar merkiskonu og skálds. Hennar hefur áður verið minnst í þriðja ári Fjölnis, og er þar prentað eitt af kvæðum hennar, sem bæði eru mörg og falleg, en því miður lítt kunn öðrum en nákomnustu vandamönnum hennar. Það er grátlegt til þess að hugsa að svo margt ágætt skuli farast og glatast á Íslandi, og mestan hlut af því engir vilja verða til að láta prenta það og verja það svo eyðileggingu og eilífri gleymsku – það er grátlegt að hugsa til þess að svo margt ágætt, sem þar fæðist í myrkri, skuli deyja eins í dimmu, ókunnugt öllum, þegar frá líður, þar sem menn þó sjá að í öðrum löndum er svo margt prentað, sem ekki er berandi saman við sumt af því, sem á Íslandi deyr útaf af hjúkrunarleysi. Vjer viljum gera það, sem oss er unnt, til þess að verja það litla, sem vjer náum til, frá gjörsamlegri eyðileggingu, og látum vjer því prenta hjer kvæði, sem Guðnýu heitinni er eignað. Það er ljóðabrjef, sem hún á að hafa kveðið á banasænginni, og viljum vjer ei tala fleira um hvernig á því stendur, en geta aðeins hins að ei er með öllu víst að kvæðið sje eptir hana; og hafa sumir eignað það Bjarna heitnum Thórarensen, og það verður heldur ekki varið að það í öllu ber mikinn keim af skáldskap hans. En hver sem nú hefur kveðið kvæðið, þá er það þó víst að það er ort undir nafni Guðnýar heitinnar og að það er fallegt kvæði.36

Þrátt fyrir skilningsrík orð og augljósa samúð með Guðnýju er látið að því liggja að hún hafi ekki ort ljóðið heldur sé það bara eignað henni eða ort undir hennar nafni, sem sagt of gott til að geta verið eftir konu, og sé í rauninni eftir annað og frægara (karl)skáld.

Ljóðið „Sit ég og syrgi“ orti Guðný til fjarstadds eiginmanns síns og er uppgjör við hann. Það hefst svo:

Sit ég og syrgi mér horfinn sárt þreyða vininn, er lifir í laufgræna dalnum, þótt látin sé ástin. Fjöll eru og firnindi vestra, hann felst þeim að baki. Gott er að sjá þig nú sælan, þá sigrar mig dauðinn.

Háttinn sækir Guðný í erfiljóð sem Bjarni Thorarensen orti eftir unga konu og birtist í Sunnanpóstinum 1835, en það er þrátt fyrir nýmæli háttarins mjög hefðbundið að efni. Í ljóði Guðnýjar talar kona í 1. persónu sem segir frá persónulegri reynslu og gerir uppskátt um hana. Ljóðið er þögult tal við karlmanninn sem hefur valdið og hún ýmist áfellist eða dáir. Í því lýsir hún sér sem útlaga þegar hann hefur kastað henni frá sér og myndmálið er mjög líkamlegt. Hún situr og syrgir, sér ekki fyrir gráti og getur ekki gengið: „sortinn mér syrtir í augum, ég sé ekki að ganga.“ Svo mikill er harmurinn yfir aðskilnaðnum að hún hefur einnig misst málið: „horfið var mál það af harmi / er hlaut þig að kveðja.“ Um leið er ljóðið hefndarfantasía. Hún hótar svikaranum með dauða sínum: „Gott er að sjá þig nú sælan, / er sigrar mig dauðinn.“ Hann er sæll á hennar kostnað og hún kemur inn hjá honum sektarkennd:

Heldur var hart þér í brjósti að hót ei nam klökkva er sviptir mig samvist og yndi mér svall það um hjarta.

Hún hlakkar til að deyja og „sönginn þann hefja hinn sæla / er sízt vildir heyra, / þá með þér ég dvaldist í mæðu / sem mér var þó dulin.“ En einnig hann mun deyja og ljóðið endar á samfundum þeirra á himnum þar sem hann hefur bætt ráð sitt og er hættur að skamma hana:

Leizt mig títt ljúfur í hjarta ég leit þig á móti. Leiðstu mig illa, er áttir, en eg leið þig kæran. Lýttir mig sök fyrir litla, því líða má harma. Þú lítur mig loksins á hæðum, en lýtir þá ekki.37

Prentun kvæðisins í Norðurfara verður tilefni fyrstu ritdeilu um bókmenntir kvenna. Þannig skrifar Guðmundur Bjarnason, prestur í Nesi, sem sá um dreifingu ritsins, til ritstjórans Gísla Brynjúlfssonar um eignarhald ákvæðinu í bréfi, dagsettu 8. febrúar 1849:

Sumum þykir þú ranglega eigna það ætt þinni, sem hún á ekki, og taka þann heiður frá öðrum, sem þeir eiga, t.a.m. þegar þú lætur brydda á því að Bjarni sál. amtmaður hafi gjört kvæði það sem Guðný sál. orti, og nákunnugir menn vita fyrir víst að hún gjörði, en enginn annar.38

Á öndverðri skoðun er Sigfús Jónsson, prestur á Tjörn, einnig í bréfi til Gísla, dagsettu á tjörn 2. október 1848. hann hrósar kvæðunum í heftinu sem honum þykja „yfirhöfuð dáfalleg, fjörug og náttúrleg“. En kvennaljóðið fer fyrir brjóstið á honum og hann segir:

Af einu hefði eg samt getað sjeð úr Norðurfara og það er „Guðnýjarkvæðið“; að vísu er kvæðið í sjálfu sér fallegt og skáldlegt, en bæði mun óhætt að segja að ekki þarf að kenna það við Guðnýju sál. – eins og þið líka minnist á – nema að því leyti sem það er kveðið undir hennar nafni, því auk þess sem skáldskapurinn mun lýsa höfundinum, er sumt það í kvæðinu, sem eg – sem kunnugur, og ef til vill, flestum kunnugri öllum samförum þeirra hjóna og skilnaðar aðdraganda, – þori að segja að hún á ekki, hefði hún viljað tala af hreinni einlægni, sem eg ætla henni þó af kunnugleika mínum á henni. Einkum er það samt hins vegna, að mér finnst ekki gustuk að skaprauna Sra Sveini meira enn búið var í Fjölnir forðum [...] mér er vel til Sr. Sv. og hann er sannarl. merkur maður – .39

Í bréfi til Gísla Brynjúlfssonar, dagsettu á Grenjaðarstað 28. janúar 1849, kvartar séra Jón, faðir Guðnýjar, undan prentvillum, einkum þeirri sem felst í því að Guðný er karlkennd í kvæðinu. Í stað „Þú leist mig fyrr ljúfur í hjarta“ stendur „Þú leist mig fyrr ljúfan í hjarta“ sem breytir allri merkingu. Hann mótmælir því einnig að kvæðið sé hugsanlega eftir annan en Guðnýju og færir fyrir því sjálfsævisöguleg rök:

Að Guðný mín sæla orkti sjálf kvæðið mun einginn maður annar en ég sannfærður um [...] hafði hún skemmtun af að raula eða syngja eitthvað gott og guðrækilegt til að hafa af sér leiðindin, því hún elskaði söng og hafði sjálf inntakandi og sætan róm. Hafði hann á því óbeit og lét hana merkja það í millum með bítandi orðum. Þetta var þeim báðum innbyrðis einum kunnugt og því segir hún í kvæðinu „og saunginn þann hefja hinn sæta, er síst vildir heyra“ – þannig gæti varla annað skáld að orði komist.40

VII Líf og ljóð

Öll eru ljóð Guðnýjar sjálfsævisöguleg, eftirmæli, endurminningar og tregróf, sprottin af aðskilnaði og því sem hún hefur misst. Í þeim yrkir hún um stöðu sína og sára reynslu sem kona og færir þannig líf sitt yfir í ljóð. Hún gerir uppskátt um togstreitu og tilfinningar, orðar það sem ekki mátti segja, síst af öllu karlmenn sem áttu að bera sig vel og máttu ekki gráta.

Þannig finnur Haraldur Níelsson í ljóðum hennar, jafnt sem sorgarsögu, farveg fyrir viðkvæmar tilfinningar sínar sem þar gægjast alls staðar í gegnum orðahjúpinn, þær tilfinningar sem hann í bréfinu til Ólafar segist hafa erft frá ömmu sinni og karlmönnum var meinað að tjá.

Eftirmálsgreinar

1. Bréfaskipti Ólafar Sigurðardóttur (1857-1933) og Haralds Níelssonar (1868-1928) hefjast með bréfi Haralds til hennar, dagsettu í Reykjavík 10. ágúst 1914, þar sem hann þakkar henni fyrir heimsókn til þeirra hjóna í Reykjavík þá um sumarið og „ljóðakverin bæði“ sem hún færði þeim.

Bréfaskiptin ná yfir um það bil tíu ára skeið. Síðasta bréfið sem varðveist hefur er frá Haraldi til Ólafar, dagsett í Reykjavík 22. júní 1923. Bréfin fjalla að mestu um sameiginlegt áhugamál þeirra, spíritismann, en einnig um persónulega hagi og viðkvæm einkamál. Bréf Haralds til Ólafar eru varðveitt í bréfasafni hennar á handritadeild Landsbókasafns Íslands. Bréf Ólafar til Haralds eru í vörslu Jónasar Haralz og er vitnað til þeirra hér með góðfúslegu leyfi hans.

2. Skv. bréfi Haralds til Ólafar, dagsettu 6. ágúst 1915, barst ljóð hennar of seint til að vera prentað fyrir jarðarförina en var lesið upp við húskveðjuna. „Kvæðið greip alla,“ segir hann. „Það þykir alment hér langbezt af þeim 3 kvæðum, er ort voru.“ Í eftirskrift segir hann: „Dr. Guðm. Finnbogason kvaðst hafa grátið, er hann heyrði kvæði þitt.“ Þá segist hann hafa komið kvæði hennar á prent og látið skýringu fylgja. Sjá Ísafold 31. júlí 1915, forsíðu.

3. Áfallið varðar trúlofunarslit hans og skáldkonunnar Guðrúnar Tómasdóttur, en frá henni og trúlofun þeirra segir hann Ólöfu í bréfi, dagsettu í Stykkishólmi 27. júní 1917, þá á leið með unnustunni til New York. Þaðan kom hann hins vegar einn og skrifar Ólöfu frá Borgarnesi á leiðinni til Reykjavíkur.

4. Leturbreytingin er hans.

5. Bréf Hildar til Sigríðar, systurdóttur sinnar og móður Haralds, eru varðveitt í skjalasafni hans í vörslu Jónasar Haralz. Bréf Hildar til Kristrúnar systur sinnar eru varðveitt á handritadeild Landsbókasafns, afhent af afkomendum hennar.

6. Handritið er bundið aftast við stórt kvæðasafn Páls Pálssonar, stúdents. lbs 167, to. Vísað er til þess á forsíðu með orðunum: „svo og kvennaljóð – aftan við.“

7. Guðnýjarkver, bls. 112-113. Við prentunina á ljóðum Guðnýjar studdist Helga Kristjánsdóttir við ýmis handrit, m.a. Hildar Valfells, dótturdóttur Sigríðar Sveinsdóttur, en um það segir Helga Kristjánsdóttir í kaflanum um heimildir aftanmáls: „Þessi kvæði skrifaði Hildur eftir handriti Haralds prófessors Níelssonar, en hann skráði þau kvæði Guðnýjar formóður sinnar, sem hann náði í. Nokkuð skrifaði hann upp eftir Jóni Aðalsteini í Kaupmannahöfn og eftir frú Hildi Johnsen.“Bls. 112. flest ljóðin eru þó prentuð eftir handritum á Landsbókasafni.

8. Helga Kristjánsdóttir telur Guðnýju fædda 20. apríl að auðbrekku í Hörgdal. Sjá Guðnýjarkver,bls. 7. Samkvæmt bréfi Hildar Johnsen til séra Vernharðs Þorkelssonar, dagsettu 25. febrúar 1836,og síðar verður vitnað til, er Guðný fædd 21. apríl í Saurbæ í Eyjafirði, og er það hér haft fyrir satt. Fæðingarstaðinn í Saurbæ staðfestir einnig Eiríkur Eiríksson með tilvísun til sannfærandi heimilda í Degi 18. ágúst 1995.

9. Systur Guðnýjar sem mjög koma við sögu hennar eru Kristrún (1806-1881) og Hildur (1807-1891). Kristrún var um skeið heitbundin Baldvini Einarssyni sem sagt er að hafi svikið hana í tryggðum. hún giftist síðar séra Hallgrími Jónssyni og fluttist með honum að Hólmum í Reyðarfirði. Hildur var fyrst gift uppeldisbróður sínum, Páli Þorbergssyni, lækni, en hann drukknaði í embættisferð eftir tæplega árs hjónaband. Síðari maður hennar var Jakob Johnsen, verslunarstjóri. Þau bjuggu á Raufarhöfn, Húsavík og Akureyri en fluttust síðan alfarin til Kaupmannahafnar.

10. Guðnýjarkver, bls. 72-73.

11. Guðnýjarkver, bls. 69.

12. Guðnýjarkver, bls. 79.

13. Helga Kristjánsdóttir. Guðnýjarkver, bls. 23.

14. Guðnýjarkver, bls. 91.

15. Helga Kristjánsdóttir. Guðnýjarkver, bls. 24.

16. Guðnýjarkver, bls. 96-98.

17. Helga Kristjánsdóttir. Guðnýjarkver, bls. 25.

18. Helga Kristjánsdóttir. Guðnýjarkver, bls. 25.

19. Bréfið er varðveitt í bréfasafni Kristrúnar Jónsdóttur á handritadeild Landsbókasafns. Lbs 4728,4to. Óregluleg stafsetning er samræmd en orðmyndir látnar halda sér. Bréfið sem Hildur vitnar til og segist hafa skrifað Kristrúnu „um eymdarástandið“ nokkrum dögum fyrr virðist glatað.

20. Bréfið hefur séra Vernharður lagt inn í bréf til Finns Magnússonar, dagsett 24. sept. 1836, og er það varðveitt í bréfasafni hans í ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn, 5943, a. i. 5.

21. Sjá Vernharður Þorkelsson, líkræða. Lbs 1740, 8vo.

22. Bjarni Thorarensen. Bréf. Fyrra bindi. Bls. 130.

23. Bjarni Thorarensen. Bréf. Fyrra bindi. Bls. 230.

24. Guðnýjarkver, bls. 32.

25. Helga Kristjánsdóttir. Guðnýjarkver, bls. 33.

26. Helga Kristjánsdóttir. Guðnýjarkver, bls. 33.

27. Konur skrifa bréf, bls. 209.

28. Konur skrifa bréf, bls. 210-211.

29. Konur skrifa bréf, bls. 211.

30. „Eptirmæli ársins 1836.“ Fjölnir 1837, bls. 30-31. Í textanum segir reyndar að Guðný hafi dáið í júní sem er rangt og er það leiðrétt hér.

31. Guðnýjarkver, bls. 99.

32. Guðnýjarkver, bls. 101

33. Sjá Sveinn Níelsson, „Ævisögudrög.“ Lbs 2252, 4to.

34. Sjá Árni Halldór Hannesson, „Æviþáttur af Síra Sveini Níelssyni.“ Lbs 1416, 8vo.

35. Guðnýjarkver, bls. 20-21.

36. „Guðnýar vísur.“ Norðurfari 1848, bls. 17-18.

37. Hér er vitnað til ljóðsins eins og það er í Guðnýjarkveri, bls. 103-105.

38. Sjá Bréf til Gísla Brynjúlfssonar frá Guðmundi Bjarnasyni. NKS 3263, 4to.

39. Sjá Bréf til Gísla Brynjúlfssonar frá Sigfúsi Jónssyni. NKS 3263, 4to.

40. Sjá Bréf til Gísla Brynjúlfssonar frá Jóni Jónssyni. NKS 3263, 4to.

Heimildir

Óprentaðar heimildir

Árni Hannes Halldórsson. ævisaga sr. Sveins Níelssonar. handritadeild Landsbókasafns Íslands. Lbs 1416, 8vo.

Bréf til Finns Magnússonar frá Vernharði Þorkelssyni. finnur Magnússon. Privatarkiv. Ríkisskjalasafnið í Kaupmannahöfn. Rigsarkivet 5943, a.i.5.

Bréf til Gísla Brynjúlfssonar frá Guðmundi Bjarnasyni. Gísli Brynjúlfsson. Brevsamling. Konungsbókhlaðan í Kaupmannahöfn. NKS 3263, 4to.

Bréf til Gísla Brynjúlfssonar frá Jóni Jónssyni. Gísli Brynjúlfsson. Brevsamling. Konungsbókhlaðan í Kaupmannahöfn. NKS 3263, 4to.

Bréf til Gísla Brynjúlfssonar frá Sigfúsi Jónssyni. Gísli Brynjúlfsson. Brevsamling. Konungsbókhlaðan í Kaupmannahöfn. NKS 3263, 4to.

Bréf til Haralds Níelssonar frá Ólöfu Sigurðardóttur á Hlöðum. Skjalasafn Haralds Níelssonar. Einkaeign í vörslu Jónasar Haralz.

Bréf til Kristrúnar Jónsdóttur frá Hildi Jónsdóttur. Bréfasafn Kristrúnar Jónsdóttur. Handritadeild Landsbókasafns Íslands. Lbs 4728, 4to.

Bréf til Ólafar Sigurðardóttur á Hlöðum frá Haraldi níelssyni. Bréfa- og handritasafn Ólafar Sigurðardóttur frá Hlöðum. Handritadeild Landsbókasafns Íslands. Lbs 19 nf.

Bréf til Sigríðar Sveinsdóttur frá Hildi Johnsen. Skjalasafn Haralds Níelssonar. Einkaeign í vörslu Jónasar Haralz. Kvennaljóðmæli. Handritadeild Landsbókasafns Íslands. Lbs 167, 4to.

Sveinn Níelsson. Ævisögudrög síra Sveins Níelssonar eftir sjálfan hann. Eiginhandarrit. Handritadeild Landsbókasafns Íslands. Lbs 2252, 4to.

Vernharður Þorkelsson. Líkræða yfir Mad. Guðnýju Jónsdóttur (konu síra Sveins Níelssonar) eftir sjera Vernharð Þorkelsson, m.h. Brynjólfs Jónssonar. Handritadeild Landsbókasafns Íslands. Lbs 1740, 8vo.

Prentaðar heimildir

Bjarni Thorarensen. Bréf. Fyrra bindi. Jón Helgason bjó til prentunar. Gefið út af hinu Íslenzka fræðafélagi í Kaupmannahöfn. Safn fræðafélagsins Xiii. bindi. Kaupmannahöfn 1943.

Eiríkur Eiríksson. „Guðný Jónsdóttir, kennd við Klömbur í Aðaldal.“ Dagur 18. Ágúst 1995.

„Eptirmæli ársins 1836, eins og það var á Íslandi.“ Fjölnir. Ársrit handa Íslendingum. Þriðja ár. 1837. Útgefendur Brynjólfur Pétursson, Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason og Tómas Sæmundsson. Kaupmannahöfn 1837.

Guðnýjarkver. Kvæði Guðnýjar frá Klömbrum. Búið hefur til prentunar Helga Kristjánsdóttir á Þverá. Reykjavík: Helgafell, [1951].

„Guðnýar vísur.“ Norðurfari 1848. Útgefendur Gísli Brynjúlfsson og Jón Þórðarson. Kaupmannahöfn 1848.

Konur skrifa bréf. Sendibréf 1797-1907. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Reykjavík: Bókfellsútgáfan, 1961.

Greinin er unnin upp úr fyrirlestri á málþingi um Harald Níelsson sem haldið var á vegum rektors Háskóla Íslands, Þjóðarbókhlöðu og Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands í Þjóðarbókhlöðu 30. nóvember 2008. Ég vil þakka Jónasi Haralz, syni Haralds Níelssonar, Pétri Péturssyni prófessor og Sjöfn Kristjánsdóttur á handritadeild Landsbókasafns fyrir áhuga, örlæti og aðstoð við öflun heimilda.

Helga Kress. (2009). Gegnum orðahjúpinn: Líf og ljóð Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbrum. Ritröð Guðfræðistofnunar, 28. (1), 35-57. Sótt af https://www.academia.edu/11641590/Gegnum_or%C3%B0ahj%C3%BApinn_L%C3%ADf_og_lj%C3%B3%C3%B0_Gu%C3%B0n%C3%BDjar_J%C3%B3nsd%C3%B3ttur_fr%C3%A1_Kl%C3%B6mbrum

Frá ritstjórn Skáld.is: Upplýsingar um Guðnýju frá Klömbrum í Skáldatalinu

Greinin er unnin úr PDF til birtingar. Ef einhverjar villur er að finna er það alfarið á okkar ábyrgð. Myndskreytingar eru okkar.

 

 

Tengt efni