SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðný Jónsdóttir frá Klömbrum

Guðný Jónsdóttir fæddist 21. apríl 1804 í Saurbæ í Eyjafirði. Móðir hennar hét Þorgerður Runólfsdóttir og faðir hennar var Jón Jónsson prestur.

Þegar Guðný er 23 ára gömul fluttist fjölskyldan að Grenjaðarstað í Þingeyjarsýslu. Þar giftist Guðný séra Sveini Níelssyni (1801-1881), aðstoðarpresti föður síns og hefja þau búskap að Klömbrum.

Guðný þurfti að þola mikinn missi og verður sorgin henni oft að yrkisefni. Hún eignast fjögur börn en tvö þeirra, Jón Aðalsteinn og Sigríður, létust einungis um ársgömul. Eftir dauða þeirra eignast Guðný annan Jón Aðalstein og aðra Sigríði. Sveinn kemur Sigríði í fóstur þegar hún er aðeins tíu mánaða gömul.

Árið 1835 skilur Sveinn við Guðnýju og er þá Jóni Aðalsteini komið fyrir á næsta bæ. Guðný fer því barnlaus með systur sinni, Hildi, og mági til Raufarhafnar. Hún lifir ekki lengi eftir þennan aðskilnað og deyr 1836. Margir töldu víst að aðskilnaðurinn og barnamissirinn hafi dregið hana til dauða.

Ljóðið Endurminningin er svo glögg birtist í Fjölni árið eftir að Guðný dó og er það fyrsta ljóðið sem birtist á prenti eftir nafngreinda konu. Allnokkur kvæði hafa varðveist eftir Guðnýju en heildarsafn þeirra rataði ekki á bók fyrr en árið 1951.

 

Heimild og frekari upplýsingar:

Helga Kress. 1997. „Líf og ljóð: Guðný Jónsdóttir frá Klömbrum.“ Íslenskar kvennarannsóknir. Erindi flutt á ráðstefnu í október 1995, bls. 23-32. Ritstjórar: Helga Kress og Rannveig Traustadóttir. Rannsóknastofa í kvennafræðum, Reykjavík.

Grein Helgu má finna í greinasafninu hér á Skáld.is.

 

 

 


Ritaskrá

  • 1951  Guðnýjarkver (Helga Kristjánsdóttir á Þverá bjó til prentunar)  

 

Tengt efni