HUGLEIÐING UM FJÖRUVERÐLAUNIN
Þeir sem ganga á fjörur rekast stundum á dýrgripi sem hafa borist til lands á háflóði og sitja eftir þegar fjarar út. Heiti bókmenntaverðlauna kvenna, Fjöruverðlaunin, vísar í þetta og þegar til verðlaunanna var stofnað lá sú hugsjón að baki að með tilnefningum til verðlaunanna ætti að lyfta upp bókum sem höfðu lent undir yfirborðinu í (jólabóka)flóðinu og týnst, dýrgripum sem vert væri að benda bókaunnendum á.
Því miður virðist sem þessi hugsjón sem í upphafi lá að baki Fjöruverðlaununum sé nú týnd og tröllum gefin og undirrituð hefur orðið vör við að margir skilja ekki heitið á verðlaununum. Jafnvel má halda því fram að Fjöruverðlaunin hafi orðið markaðsöflunum að bráð og hafi enga sérstöðu lengur aðra en kynjamismuninn. Hér á eftir verður farið aðeins yfir sögu þessara merku bókmenntaverðlauna, rýnt í tilgang þeirra, markmið, leiðir og árangur.
Upphafið
Fjöruverðlaunin voru fyrst veitt árið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Á heimsíðu verðlaunanna kemur fram að hugmyndin um verðlaunin kviknaði árið 2006 innan grasrótarhóps kvenna í Rithöfundasambandi Íslands og Hagþenkis. Meðal ástæðna þess að hópurinn taldi sérstök kvennaverðlaun nauðsynleg var ójöfn kynjaskipting handhafa Íslensku bókmenntaverðlaunanna en á tímabilinu 1989–2011 fengu 36 karlar og 11 konur verðlaun. Einnig gætti ójafnvægis í úthlutunum úr Launasjóði rithöfunda en samkvæmt lauslegri könnun á úthlutunum árin 2000–2007 voru kynjahlutföllin 65% karlar, 35% konur.
Svipaðar ástæður lágu fyrir því að farið var að veita sérstök bókmenntaverðlaun fyrir konur í Bretlandi þar sem Women’s Prize for Fiction (áður Orange-kvennabókmenntaverðlaunin og Bailey’s-kvennabókmenntaverðlaunin) hafa verið veitt í langan tíma en stofnað var til þeirra vegna óánægju með hlut kvenna við úthlutun bókmenntaverðlauna. Verðlaunin hafa í gegnum árin vakið athygli á fjölmörgum kvenrithöfundum sem skrifa á ensku sem ef til vill hefðu ella ekki náð athygli lesenda.
Fyrstu fjögur árin voru bækur sem hlutu Fjöruverðlaunin ekki kynntar fyrirfram með tilnefningum en því var breytt árið 2011, þá voru í fyrsta sinn kynntar tilnefndar bækur áður en til sjálfrar verðlaunaafhendingarinnar kom og síðan þá hafa þrjár bækur verið tilnefndar í þremur flokkum, í desember ár hvert. Þetta var gert til að enn fleiri góðar bækur eftir konur fengju verðskuldaða athygli og auka líkur á að fjölmiðlar fjölluðu um bækurnar og verðlaunin.
Góuhópurinn
Tvær helstu upphafskonur og stofnendur verðlaunanna voru rithöfundarnir Ingibjörg Hjartardóttir og Jónína Leósdóttir. Ásamt fleiri konum stofnuðu þær hóp árið 2006 sem kallaður var Góuhópurinn og vísaði nafnið til þess að verðlaunin voru veitt í lok Góu, sem sagt eftir að jólabókaflóðið var yfirstaðið og gengnar höfðu verið fjörur.
Fyrstu árin eftir að Góuhópurinn kom saman var tilhögunin þessi, verðlaunin voru veitt snemma árs á nokkurs konar bókmenntahátíð kvenna, Góugleði, þar sem ekki voru bara veitt verðlaun heldur einnig lögð áhersla á dagskrá sem tengd var á einhvern hátt ritstörfum eða verkum kvenna. Þetta var sannkölluð uppskeruhátíð, vel sótt og skemmtileg í alla staði. Jafnvel voru fengnir erlendir gestir á hátíðina. Kate Mosse, einn af stofnendum og stjórnarkonum Baileys-kvennabókmenntaverðlaunanna, ávarpaði Góugleðina 2010, Sandi Toksvig, leikkona og þáttagerðarkona hjá BBC, sótti Ísland heim 2011 og frú Vigdísi Finnbogadóttur hélt heiðursræðu á hátíðinni 2012.
Einnig var undir merkjum Fjöruverðlaunanna efnt til pallborðsumræðna um bókmenntir eftir konur og kvenrithöfunda á Góugleðinni og árið 2014 var dagskráin sérstaklega helguð Jakobínu Sigurðardóttur (1918–1994) og verkum hennar. Góuhópurinn stóð í nokkur ár fyrir kynningu á nýútkomnum bókum eftir konur undir titlinum „Kellingabækur“, og var sú hátíð haldin í samstarfi við menningarmiðstöðina í Gerðubergi. Þessa uppskeruhátíð, sem haldin var í nóvembermánuði, sóttu mörg hundruð gestir þau ár sem hún var haldin.
Tímamót áttu sér stað árið 2014 í starfi Fjöruverðlaunanna þegar formlegt félag var stofnað um starfsemina, Fjöruverðlaunin – félag um bókmenntaverðlaun kvenna. Hið formlega félag tók við af hinum óformlega Góuhópi. Vel var mætt á stofnfundinn sem haldinn var á Hallveigarstöðum fimmtudaginn 23. október 2014 og voru þær Ingibjörg og Jónína gerðar að heiðursfélögum.
Árið 2014 var í fyrsta skipti haldið upp á sérstaka lestrarhátíð í Hannesarholti, þar sem rithöfundar tilnefndir til verðlaunanna lásu upp úr verkefnum sínum. Sú hátíðin var haldin í upphafi desembermánaðar, til að styðja enn betur við höfunda sem tilnefndir eru í jólabókaflóðinu. Félagið hefur sömu markmið og hlutverk og fyrirrennarinn, að halda utan um skipulagningu Fjöruverðlaunanna og skipa dómnefndir sem tilnefna til verðlauna í jólabókaflóðinu bækur eftir konur í þremur flokkum, það er að segja fyrir barna- og unglingabókmenntir, fræðibækur og rit almenns eðlis, og fagurbókmenntir.
Árið 2019 gerðist félagið aðildarfélag í Kvenréttindafélagi Íslands.
Fyrstu verðlaunaveitingarnar
Það er mjög áhugavert að skoða hvaða bækur hlutu Fjöruverðlaunin fyrstu árin og bera það saman við tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Árið 2007 hlutu eftirfarandi bækur (útgefnar 2006) Fjöruverðlaunin:
Kristín Steindóttir – Á eigin vegumSigríður Dúna Kristmundsdóttir – Ólafía. Ævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur
Héléne Magnússon – Rósaleppaprjón í nýju ljósi
Þorgerður Jörundsdóttir – Mitt er betra en þitt
Anna Cynthia Leplar og Margrét Tryggvadóttir – Skoðum myndlist
Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bækur útgefnar 2006 hlutu Ólafur Jóhann Ólafsson fyrir Aldingarðinn og Andri Snær Magnason fyrir Draumalandið. Tilnefndar konur voru Auður Jónsdóttir fyrir Tryggðapant, Ingunn Snædal fyrir Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást og Þórunn Erlu Valdimarsdóttur fyrir Upp á Sigurhæðir.
Eins og þarna má sjá kom engin af þeim bókum sem hlutu Fjöruverðlaunin við sögu í tilnefningum Íslensku bókmenntaverðlaunanna og markmiðinu með að benda á dýrgripi sem höfðu orðið undir í flóðinu var svo sannarlega náð. Í viðtali við Kristínu Steinsdóttur sem tekið var af þessu tilefni má m.a. lesa:
Margir eru á þeirri skoðun að jólabókaflóðið og þær markaðsaðferðir, sem þá ráða ferðinni, gefi ekki rétta mynd af þeim fjölbreyttu ritverkum sem gefin er út á Íslandi þar sem fjöldi áhugaverðra bóka nær sér ekki á flot í því mikla flóði. Telja ýmsir að bókum eftir konur sé sérlega hætt við slíkum örlögum. Kvenrithöfundar héldu Góugleði á dögunum og verðlaunuðu þá fimm stallsystur sínar fyrir nýjar frumsamdar bækur sem komu út fyrir síðustu jól en saga Kristínar, Á eigin vegum, var ein þeirra. Upphefð þessi er kennd við Fjöruverðlaunin og það lítur út fyrir að framhald verði á þeim auk þess sem þar gefst kærkominn vettvangur fyrir rithöfunda til að skiptast á skoðunum og ræða sín mál. „Mér þótti ósköp vænt um að fá þessi verðlaun,“ segir Kristín og bendir á að það hafi komið sér á óvart hversu margar bækur komu út eftir konur í fyrra en fjöldi frumsaminna titla var í kringum sextíu. „Það var gaman að sjá allar þessar bækur og tilheyra þessum hópi. Að ég tali nú ekki um þau forréttindi að fá að vera ein af þessum fimm sem voru valdar út.“
2008 hljóta eftirfarandi bækur Fjöruverðlaunin (bækur gefnar út 2007):
Elísabet Jökulsdóttir – Heilræði lásasmiðsins
Auður A. Ólafsdóttir – Afleggjarinn
Kristín Marja Baldursdóttir – Karítas án titils og Óreiða á striga
Sigurbjörg Þrastardóttir – Blysfarir
Ingunn Ásdísardóttir – Frigg og Freyja. Kvenleg goðmögn í heiðnum sið
Kristín Helga Gunnarsdóttir – Draugaslóð
Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bækur gefnar út 2007 ár hlautu Minnisbók Sigurðar Pálssonar og Ljóðhús. Þættir um skáldskap Sigfúsar Daðasonar eftir Þorstein Þorsteinsson. Nokkrar bækur eftir konur hlutu tilnefningar: Gerður Kristný fyrir Höggstað, Þórunn Erlu Valdimarsdóttir fyrir Kalt er annars blóð og Vigdís Grímsdóttir fyrir Söguna um Bíbí Ólafsdóttur, Danielle Kvaran fyrir Erró í tímaröð og Mary Ellen Mark fyrir Undrabörn/Extraordiary Child.
2009 hljóta eftirfarandi bækur Fjöruverðlaunin (bækur gefnar út 2008):
Álfrún Gunnlaugsdóttir – Rán
Kristín Ómarsdóttir – Sjáðu fegurð þína
Æsa Sigurjónsdóttir – Til gagns og til fegurðar
Hallfríður Ólafsdóttir og Þórarinn Már Baldursson – Maxímús Músikús
Íslensku bókmenntaverðlaunin fóru til Einars Kárasonar, fyrir Ofsa, og Þorvaldar Kristinssonar, fyrir Lárus Pálsson leikari. Bækur eftir konur sem hlutu tilnefningu voru Rán eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur fyrir, Skaparinn eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Örlög guðanna eftir Ingunni Ásdísardóttur og Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur.
2010 hljóta eftirfarandi bækur Fjöruverðlaunin (bækur útgefnar 2009):
Ingunn Snædal – Komin til að vera, nóttin
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir – Á mannamáli
Kristín Arngrímsdóttir – Arngrímur apaskott og fiðlan
Margrét Örnólfsdóttir – Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi;)
Íslensku bókmenntaverðlaun fóru til Guðmundar Ólafssonar fyrir Bankster og Helga Björnssonar fyrir Jökla á Íslandi. Rán eftir Álfrúnu sem hlaut Fjöruverðlaunin hafði einnig hlotið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og einnig voru tilnefndar Góði elskhuginn eftir Steinunni Sigurðardóttur, Auður eftir Vilborgu Davíðsdóttur, Svavar Guðnason eftir Kristínu G. Guðnadóttur og Á mannamáli. Ofbeldi á Íslandi eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur.
2011 verður, eins og áður sagði, sú breyting á fyrirkomulagi Fjöruverðlaunanna að farið er að tilnefna bækur og velja svo verðlaunahafa síðar úr tilnefndum verkum og verðlaunaflokkarnir urðu þrír: fagurbókmenntir, fræðirit og barna- og unglingabækur. Það ár hlutu verðlaunin (bækur útgefnar 2010):
Kristín Steinsdóttir – Ljósa
Kristín Loftsdóttir – Konan sem fékk spjót í höfuðið
Vala Þórsdóttir og Agnieszka Nowak – Þankaganga Mysoblég
og tilnefndar voru:
Gerður Kristný – Blóðhófnir
Vilborg Dagbjartsdóttir – Síðdegi
Sigríður Pálmadóttir – Tónlist í leikskóla
Sigrún Pálsdóttir – Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar
Ingrid Markan, Laufey Leifsdóttir og Anna Cynthia Leplar – Íslensk barnaorðabók
Áslaug Jónsdóttir, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal – Skrímsli á toppnum
Íslensku bókmenntaverðlaunin hlaut Gerður Kristný fyrir Blóðhófni og Helgi Hallgrímsson fyrir Sveppabókina - Íslenskir sveppir og sveppafræði. Enginn Fjöruverðlaunabókanna hlaut tilnefningu en tilnefningu hlutu hins vegar Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir fyrir Mörg eru ljónsins eyru, Margrét Guðmundsdóttir fyrir Sögu hjúkrunar á Íslandi á 20. öld og Sigrún Pálsdóttir fyrir Þóru biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar.
Hér verður þessi samanburður ekki rakinn lengra en af þessum fyrstu verðlaunaveitingum og tilnefningum má sjá að markmiðið að lyfta upp bókum sem höfðu orðið undir í flóðinu hefur að mestu leyti haldist á upphafsárunum.
Hvaða bækur eru bestar?
Alltaf má deila um gæði bóka og skoðanir fólks skiptar á því hvað telst best. Aðall Fjöruverðlaunanna, að mati undirritaðrar, hefur verið sá að benda á bækur sem eru góðar og eiga skilið að á þær sé bent en hafa einhverra hluta vegna ekki náð athygli. Þegar tilnefningar og verðlaunaveitingar síðustu ára eru skoðaðar kemur í ljós að dómnefndir Fjöruverðlaunanna virðast hafa misst sjónar af þessu upphaflega markmiði verðlaunanna. Kannski þekkja þeir sem hafa setið þessar dómnefndir á síðustu árum ekki þetta markmið?
Á þessu ári hlutu eftirfarandi bækur, gefnar út 2022, Fjöruverðlaunin:
Gerður Kristný – Urta
Kristín Svava Tómasdóttir – Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25
Arndís Þórarinsdóttir – Kollhnís
Auk þess voru tilnefndar:
Auður Ava Ólafsdóttir – Eden
Kristín Eiríksdóttir – Tól
Anna Sigríður Þráinsdóttir og Elín Elísabet Einarsdóttir – Á sporbaug. Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar
Sigríður Víðis Jónsdóttir – Vegabréf: Íslenskt. Frá Afganistan til Bosníu og Búrkína Fasó
Kristín Björg Sigurvinsdóttir – Bronsharpan
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir – Héragerði
Allt eru þetta svo sannarlega bækur verðugar verðlauna og tilnefninga! En ekki er hægt að segja að þær hafa flotið undir yfirborði jólabókaflóðsins. Þvert á móti hafa þær flestallar hlotið fleiri tilnefningar og verðlaun - og mikla athygli. Þessi tilhneiging, að verðlauna og tilnefna til Fjöruverðlaunanna það sama og aðrir hefur færst í aukana á síðustu árum og meginmarkmið verðlaunanna því glatast. Það er miður því það eru svo margar frábærar bækur eftir konur sem drukknuðu í flóðinu og hefðu átt skilið meiri athygli.
Á heimasíðu Fjöruverðlaunanna má lesa:
Árið 2020 voru Fjöruverðlaunin verði útvíkkuð, svo að til verðlaunanna koma til greina bækur eftir konur (sís og trans), trans, kynsegin og intersex fólk. Er þessi útvíkkun í anda grasrótarinnar sem upphaflega stofnaði til verðlaunanna, að vekja athygli á verkum rithöfunda sem verða útundan í karllægri uppbyggingu bókmenntaheimsins. Líkt og konur, hefur trans, kynsegin og intersex fólk þurft að finna á eigin skinni fordóma feðraveldisins og verið njörvað niður í fjötra kynjakerfisins.
Fjöruverðlaunin eru því í dag fyrir alla nema kalla. Það væri fróðlegt að sjá hvort sú tölfræði sem vísað var í hér í upphafi um kynjahlutfall í verðlaunaveitingum og úthlutunum úr launasjóði rithöfunda er enn í gildi. Að sinni verður ekki lagst í rannsóknir á því.
Undirrituð vill hins vegar hvetja til þess að Fjöruverðlaunin hverfi aftur til baka til sinna upphaflegu hugsjóna og markmiða. Og einnig að Félag um Fjöruverðlaun blási glæðurnar í Góuhátíðina, haldi málþing og standi fyrir pallborðsumræðum og kynningum á bókmenntum kvenna! Og síðast en ekki síst: Stuðli að því að Fjöruverðlaununum fylgi verðlaunafé! Þótt verðlaunagripur Koggu sé gullfallegur kemur hann ekki að gagni í brauðstriti rithöfunda. Það er einhvern veginn svo dæmigert að konur gefi vinnu sína (listakonan Kogga gefur verðalaunagripina!) og þiggi heiður í stað peninga!