SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir10. júlí 2018

FÓTBOLTAFÁRIÐ - Fótboltasögur, tala saman strákar

Allt snýst um fótbolta þessa dagana enda spennan á HM orðin gríðarleg. Ekki þykir knattspyrna efni í miklar bókmenntir að öllu jöfnu en skáldkonan Elísabet Jökulsdóttir hefur sjaldan legið á liði sínu. Örsagnasafn hennar frá 2001 nefnist Fótboltasögur, tala saman strákar og er tilvalið að glugga í hana meðan fárið geisar.

Sérstaða Elísabetar sem skálds og frásagnartækni hennar njóta sín vel í þessari bók. Fótboltasögur hennar eru ferskar, léttar og leikandi, sagðar í belg og biðu (oft án greinarmerkja). Sögurnar eru íronískar og oft felst broddurinn í tungumálinu sjálfu, orðaleikjum eða þversögnum. Margt spennandi og óvenjulegt er hér á ferð eins og Elísabetar er von og vísa, t.d. er ungumál innvígðra skáldlegt og táknrænt í sögunum og gamlar fótboltatuggur og klisjur öðlast nýtt líf. Nefna mætti Kantmanninn (18) sem dæmi en um hann segir: „...það var eins og enginn hefði áttað sig á því að hann væri kantmaður af lífi og sál og enginn virtist heldur átta sig á sálarlífi kantmanna enda væri hann ekkert að hampa neinu sérstöku sálarlífi, hann vildi bara fá að koma á óvart, og búa eitthvað til svona utanfrá og koma því svo inn; þetta var alveg eins og þegar hann kynntist konunni sinni, hún hefði auðvitað haldið að hún væri að reyna við hann og hefði alls ekki gert sér grein fyrir því að hann var búinn að senda á hana... (18-19).

Sjúkraþjálfarinn er miðja allra sagnanna. Þreyttir, sveittir, vonsviknir eða sigurglaðir koma leikmennirnir til hans og trúa honum fyrir andlegri og líkamlegri líðan. Körlunum finnst þeir vera vanmetnir eða þeir eru einmana og ástlausir (t.d. miðjumaðurinn og vinstri bakvörðurinn). Hlutverk sjúkraþjálfarans er ekki aðeins að nudda aum hné og bólgna vöðva og kæla eða hita þreytta líkamshluta. Fyrst og fremst er hann hlustandi og sálfræðingur. Hlutverk leikmannanna ýmist endurspeglar eðli þeirra og tilfinningar eða stangast harkalega á við þessa þætti en þá skapast spenna sem þeir eiga oft erfitt með að vinna úr. Dómarinn er t.d. viðkvæmur eins og öræfablóm (55) og hefur fyrir löngu skrúfað fyrir öll skilningarvit út af skítkasti og svívirðingum sem á honum dynja. Varamaðurinn er örmagna þar sem hann þarf að lifa við sífellda óvissu um hvenær hann fái að koma inná, hann er sífellt á varðbergi og röddin þanin eins og háspennulína (38). Potarinn liggur undir ámæli um að skora ljót mörk og vera „annars flokks markaskorari“ þótt það sé hann sem puði mest í leiknum. Honum tekst stundum að að pota inn einni og einni sögu (40). Svíperinn saumar upp í öll göt á leiknum eins og saumakonan amma hans (67) og svo mætti lengi telja.

Í sögum Elísabetar blandast tvö ólík svið saman á nýstárlegan hátt; þær snúast um fótbolta og fárið í kringum hann en ekki síður um sálarlíf og tilfinningar, tungumál og veruleika – og þær hitta í mark.

Greinin er lítillega breytt, hún birtist fyrst í Morgunblaðinu, 8. desember 2001

Mynd af Elísabetu er af vef Kjarnans

Elísabet er í Skáldatalinu

 

Tengt efni