„ÉG GAF ÞÉR ÁSTINA OG SORGINA“
Árið 1946 gaf Elín Thorarensen út bók í litlu broti með titlinum Angangtýr. Þar sagði hún frá ástarsambandi sínu við Jóhann Jónsson skáld. Bókin olli miklu uppnámi hjá mörgum, bæði skyldmennum Elínar sem og mönnum í bókmenntakreðsu Ísland sem líkaði ekki að Elín væri að opinbera samband sitt við skáldið sem hafði öðlast goðsagnakennan stall í íslenskri bókmenntasögu. Árið 2011 endurútgaf Lesstofan þessa umdeildu bók með eftirmála þar sem farið er í saumana á tilurð bókarinnar og sambandi Elínar og Jóhanns. Hér er eftirmálinn endurbirtur um leið og Elínu Thorarensen er bætt við Skáldatalið.
Elín Thorarensen, Jóhann Jónsson og Angantýr
Af þöggun
Þegar Angantýr kom fyrst út árið 1946 varð ýmsum bilt við. Meðal skyldmenna Elínar Thorarensen voru aðilar sem óttuðust að frásögnin af ástarsambandi hennar og Jóhanns Jónssonar skálds gæti varpað skugga smánar á fjölskylduna og reyndu því hvað þeir gátu til að koma í veg fyrir að bókin væri lesin.1 Hafa ber í huga að hugmyndir manna um hvað teldist siðferðilega ásættanlegt voru aðrar á útgáfutíma bókarinnar en þær eru í dag, hvað þá á þeim tíma sem sambandið varaði frá sumrinu árið 1915 til haustsins 1916. Engu að síður eru viðbrögðin forvitnileg út frá fleiru en einu sjónarhorni. Að verki voru fordómar að ýmsum toga; fordómar gegn aldursmuni elskenda (það er að segja ef konan er eldri), fordómar gegn sambandi fólks af ólíkri stétt og stöðu, sem og fordómar gegn sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti fráskilinna mæðra (sérstaklega ef kynlíf var með í spilinu).2 Ekki er síður forvitnileg sú staðreynd að óróleikinn sem útgáfa bókarinnar vakti náði langt út fyrir raðir skyldmenna Elínar og Jóhanns; Angantýr var sem eitur í beinum manna sem ráðandi voru í opinberri orðræðu um íslenskar bókmenntir. Velta má fyrir sér hvort frásögn Elínar hafi hróflað við myndinni af Jóhanni Jónssyni sem hafði fest sig rækilega í sessi fyrir miðja síðustu öld og má líkja við goðsögn. Og því farið af stað það ferli sem við nú á dögum köllum „þöggun“.
Elsta dæmið um nafnorðið „þöggun“ í íslensku máli er að finna í tímaritinu Skírni frá árinu 1832. Þar er það notað til að lýsa þöggun frétta í frelsisstríði Pólverja og Rússa á fyrri hluta nítjándu aldar.3 Orðið kemur hins vegar ekki fyrir aftur svo rekjanlegt sé í ríflega eina og hálfa öld. Þá kemur það fram í umræðunni um konur og bókmenntir og fyrst í blaðaviðtali við Helgu Kress. Viðtalið var tekið í tilefni fyrirlesturs Helgu um slúður sem uppsprettu frásagnar í íslenskum fornbókmenntum og um það hvernig karlar reyndu að þagga niður í konum.4 Næstu árin eru flest dæmi um orðið þöggun í íslensku ritmáli tengd umræðunni um konur og bókmenntir en þaðan breiðist notkun þess út og verður almenn.5 Þöggun er því hugtak sem á einkar vel við þegar hugað er að sögu Angantýs enda tengist efnið umræðunni um konur og bókmenntir sem og slúðri um „óleyfilegar“ ástir og „margir vildu leggja orð í belg, bæði skyldir og vandalausir“ eins og Elín skrifar í formála. Þessi litla bók geymir líka sögu af „frelsisstríði“ Elínar og elskhuga hennar; stríði sem þau hlutu að tapa því tíðarandinn var þeim andsnúinn, jafnvel beinlínis fjandsamlegur. Þöggunin sem fylgdi í kjölfarið á útgáfu bókarinnar sýnir að málið varðaði ekki aðeins einkalíf fárra heldur snerist líka um það hver hefði rétt á að tjá sig og jafnvel um yfirráðarétt yfir íslenskri menningar- og bókmenntasögu. Hvað sem lesendum kann að finnast um hina tilfinningaþrungnu lýsingu Elínar Thorarensen á ást þeirra Jóhanns verður því vart á móti mælt að bók hennar bætir mikilvægum dráttum í þroskasögu þessa dáða skálds og ef til vill geymir hún einnig vísbendingar um leyndarmál sem enn er á fárra vitorði. Og það sem ekki er síst um vert: ný rödd bætist við íslenskar bókmenntir þegar bókin kemur loks fyrir almenningssjónir.
Tilurð bókarinnar
Angantýr var gefin út á kostnað höfundar árið 1946. Útlit bókarinnar var sérstakt; brotið lítið, kápan rauð og síðurnar fölbleikar að lit.6 Bókin skiptist í tvo hluta: I. Minningar um hann og II. Æfintýri og ljóð frá honum. „Hann“ er Jóhann Jónsson skáld (1896-1932) og „Angantýr“ er gælunafnið sem Elín gaf honum en hana kallaði hann „Brynhildi“. Bæði nöfnin hafa tilvísun til íslenskra fornbókmennta, Angantýr er skáldið í Hervarar sögu og Heiðreks og Brynhildur Buðladóttir er valkyrjan sem sagt er frá í Völsunga sögu og í eddukvæðum. Í formála Elínar kemur fram að tilefni bókarinnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi vildi hún með bókinni minnast Jóhanns sem hefði orðið fimmtugur þann 12. september 1946 hefði hann lifað. Í öðru lagi nefnir Elín tvær greinar Halldórs Laxness um Jóhann sem hvata þess að hún ákveður að rjúfa þögnina um ástarsambandið. Hér er annars vegar um að ræða greinina „Af Jóhanni Jónssyni“ sem birtist í ritgerðasafni Halldórs Laxness Vettvangi dagsins árið 1942.7 Þar er brugðið upp afar fallegri mynd af Jóhanni og sagt frá helstu æviatriðum hans. Hins vegar vísar Elín til frásagnarinnar „Vinur minn“ sem Halldór skrifaði árið 1932 – fljótlega eftir að hann frétti lát Jóhanns – og birtist í Fótaki manna ári síðar.8 Elín er Halldóri þakklát fyrir skrif hans en í fyrrnefndu greininni rekur hann helstu æviatriði Jóhanns án þess að minnast á Elínu en nefnir tvær konur í lífi skáldsins, Nikólínu Árnadóttur og Elísabet Göhlsdorf.9 Ekki er ósennilegt að fjarvera Elínar í skrifum um Jóhann látinn sé ein aðalkveikjan að bók hennar. Víst er að hún tekur áskorun Halldórs Laxness sem skrifar í formála sinn að Fótataki manna um ritun sagnanna: „Vinnan hefir einkum verið í því fólgin að leitast við að opna lesandanum nauðsynlegar útsýnir, svo að hann geti sjálfur skrifað hinar löngu sögur, er leynast á bak við. Ég hef verið að hlusta á fótatak manna og bið lesandann að hlusta með mér.“ Elín kann sögu sem „leynist á bak við“ fótatak Jóhanns og vill segja þá sögu „eins og hún var“ því „hálfsögð er sagan, ef einn segir“ – eins og hún orðar það.
Hver var Elín Thorarensen?
Elín var fædd 16. september árið 1881 á Hrófá í Hrófbergshreppi í Strandasýslu þar sem foreldrar hennar voru í húsmennsku. Hún var skírð Elín Elísabet Jónsdóttir og var fyrsta barn foreldra sinna, Jóns Einars Jónssonar stúdents sem síðar varð bóndi og kennari á Ingunnarstöðum í Geirdalshreppi í Austur-Barðastrandasýslu og Herdísar Andrésdóttur skáldkonu en hún var sjaldan nefnd öðruvísi en að með fylgdi nafn tvíburasystur hennar, Ólínu sem einnig var þjóðkunn skáldkona.10 Þær systur voru náskyldar Theódóru Thoroddsen og á heimili þeirra í Reykjavík voru tíðir gestir menningarvitar á borð við Theódóru, Sigurð Nordal og Þórberg Þórðarson.
Elín eignaðist sex systkini en fjögur þeirra dóu kornung. Auk hennar komust á fullorðinsár bræðurnir Jón Ólafur Jónsson málarameistari (1884-1945) og Einar Jónsson magister (1890-1947). Föður sinn missti Elín þegar hún var 8 ára gömul árið 1889. Dauði hans var gríðarlegt áfall fyrir fjölskylduna og víða í ljóðum Herdísar Andrésdóttur yrkir hún um sín djúpu sár. Eftir föðurmissinn flutti Elín með móður sinni og Jóni Ólafi bróður sínum að Bæ í Króksfirði til Elísabetar Ragnhildar Jónsdóttur föðursystur sinnar og eiginmanns hennar Ólafs Sigvaldason héraðslæknis. Einar bróðir hennar, sem fæddist rúmum fimm mánuðum eftir andlát föður þeirra, fór í fóstur til Guðrúnar systur Herdísar. Á Bæ ólst Elín upp og eins og hún segir var heimilið „ýkjulaust sagt eitt stærsta og fallegasta heimili í Breiðafirði á þeim tíma“ og þar leið henni vel.11 Árið 1901 giftist Elín Bjarna Jóni Jónssyni Thorarensen12 (f. 1872), sonarsyni Bjarna Thorarensens skálds, og flutti til hans að Stórholti í Saurbæjarhreppi í Dalasýslu þar sem hann var bóndi og hún húsfreyja þar til fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur árið 1908. Elín og Jón eignuðust þrjú börn: Jón (1902-1986),13 Jakobínu (1905-1981),14 og Ólaf (1908-1969).15 Eiginmaður Elínar starfaði sem bæjarfógetaskrifari í Reykjavík en þau skildu árið 1913.16 Um ástæður skilnaðarins er lítið vitað en það má leiða að því getum að eitthvað hafi það haft að segja að Jón eignaðist barn framhjá Elínu í janúar 1912.17
Vafalaust hefur það ekki verið auðvelt að vera ung fráskilin þriggja barna móðir á fyrstu áratugum síðustu aldar í Reykjavík. Eftir skilnaðinn bjó Elín í Þingholtsstræti 18 og sá fyrir sér og yngsta barni sínu með því að taka menn inn á heimili sitt í fæði. Eldri börnin tvö voru þá bæði farin í fóstur og ljóst er að það hefur verið Elínu mikil raun að sjá á eftir þeim.18 Þótt hún tali ekki opinskátt um þá reynslu í bókinni má skynja sársauka hennar í frásögninni af því þegar Jóhann Jónsson les fyrir hana kvæðið um „Agnete og Havmanden“: „Hann fór yndislega fallega með kvæðið. Þá fann ég allt í einu með hug og hjarta, að það var líkt á komið með mér og konunni í kvæðinu, og það greip mig sár kvöl. Þó að ég væri engum öðrum manni bundin, þá átti ég skyldur að inna af hendi“ (20-21).19 „Agnete og Havmanden“ er þjóðkvæði sem er þekkt víða á Norðurlöndum og segir frá stúlkunni Agnete sem verður ástfangin af marbendli og fylgir honum sjálfviljug í hafið. Agnete dvelur á hafsbotni í átta ár og elur marbendlinum sjö syni en þá snýr hún aftur til lands og yfirgefur mann sinn og syni.20
Þegar Jóhann Jónsson bankar upp hjá Elínu í júlímánuði 1915, til að falast eftir að kaupa hjá henni fæði, eru tvö ár liðin frá skilnaði hennar og hún heillast strax af þessum unga manni. „Við urðum strax góðir vinir,“ skrifar hún, „þó að allar ytri ástæður væru okkur andstæðar.“ Ástarsamband þeirra hefst að öllum líkindum 17. ágúst, „ágúst var mánuðurinn okkar“ skrifar hún, og þegar hún fær afmælisdagabók í jólagjöf áratugum síðar flettir hún strax upp á 17. ágúst til að sjá hvað stendur við þann dag og les: „Hvað varðar þá um vatnið, / sem vínið rauða teyga? /Hvað varðar þá um jörðina, / sem himininn eiga?“ Eflaust hafa þessar ljóðlínur Davíðs Stefánssonar yljað Elínu um hjartarætur á þessari stundu, þremur áratugum eftir að saga hennar og Jóhanns hófst.
Móðurarfur Jóhanns Jónssonar
Þegar Elín Thorarensen kynntist Jóhanni Jónssyni var hann tæplega nítján ára gamall og nýkominn til Reykjavíkur til þess að setjast á skólabekk. Jóhann var fæddur að Staðastað á Snæfellsnesi 12. september 1896 en ólst upp á Ólafsvík. Frábær heimild er til um bernskuár hans, frásögn Þorbjargar Guðmundsdóttur ljósmóður frá Ólafsvík en þau Jóhann voru systrabörn. Þorbjörg var trúnaðarvinkona móður Jóhanns, Steinunnar Kristjánsdóttur (1869-1944), og er lýsing hennar á Steinunni afar áhrifarík.21 Bernska Jóhanns var vörðuð erfiðleikum; fjölskyldan var fátæk og drykkjuskapur föður hans, Jóns Þorsteinssonar (1842-1920) jók á ógæfuna. Jóhann var mjög náinn móður sinni sem var „geysifróð eins og það er orðað á gamla vísu, kunni ódæmi af gömlum sögnum, sögum og ævintýrum“. Þá var hún „orðhög og djarfmælt“ og „mikil söngkona“.22 Það er ljóst af lýsingum Þorbjargar að Jóhann hefur erft marga eðliskosti móður sinnar og að samband þeirra mæðgina var einstakt.23 Eftir að Jóhann flutti að heiman skrifaði hann móður sinni bréf „með stuttu millibili, svo þetta var orðið mikið safn“. Þau bréf fóru í eldinn eftir lát Steinunnar og er hörmulegt að lesa lýsingu Þorbjargar á því. Hún, sem lesið hafði bréfin, segir að þar hafi verið hoggið „stórt óbætanlegt skarð í bókmenntir okkar [...] Þessi andlegi fjársjóður, bréf Jóhanns, [...] hefði orðið hans bautasteinn. [...] Þetta voru engin venjuleg sendibréf. Hann skrifaði móður sinni allt, sem í hugann kom, langanir og framtíðarhorfur, með glæsilegum litum. Segja má, að skáldskapurinn sindraði af hverju orði.“24
Þorbjörg leggur áherslu á að Jóhann hafi numið af vörum móður sinnar „allan alþýðufróðleik, sem hún hafði lært í æsku“. Og vitnisburður hennar um Jóhann er í samræmi við lýsingar Elínar Thorarensen:
Sálargáfur hans voru sérlega næmar og tilfinningarnar eins og þaninn strengur. Strax með tali bar á óvenju næmi og skilning á öllu, sem fagurt var, og slíkt óx með hverju ári. Hann gat farið á kostum í hugarheimi án umhugsunar. Ævintýrin streymdu af vörum hans, sköpuðust jafnóðum og hann sagði þau fram. Inn í þetta fléttaði hann smákvæðabrotum. Jóhann hafði mikla og óvenju glæsilega söngrödd og söng mikið. En veikin kom snemma og lokaði dyrum þessa dýrðarsalar.25
Eins og alkunna er veiktist Jóhann af berklum á unga aldri og tafði það skólanám hans um nokkur ár þar sem hann var rúmliggjandi mánuðum saman. Meinið var í öðrum fætinum og gerði hann haltan fyrir lífstíð.
Eftirtektarvert er að bæði í skapgerð og reynslu Steinunnar eru ýmsir þættir sem kallast á við skapgerð og ævi Elínar Thorarensen. Báðar reyna erfiðleika í hjónabandi og þurfa að láta frá sér börn, báðar eru þær lágvaxnar, fíngerðar, gáfaðar og fagrar, báðar eru þær heillaðar af heimi sagna, þjóðkvæða og skáldskapar og skapferli þeirra virðist hafa verið áþekkt ef marka má frásagnir þeirra sem til þekktu. Þorbjörg Guðmundsdóttir leggur áherslu á greiðvikni og fórnfýsi Steinunnar og á sömu þætti í fari Elínar leggur Sigríður Þórarinsdóttir áherslu í minningarorðum sem hún ritaði um hana í Morgunblaðið 1956.26 Sjálfur segir Jóhann um Elínu að hún sé „lang-lang-bezta konan í öllum heiminum“ og að sér þyki ósköp „vænt um þetta litla höfuð, sem er fullt af sögum, kvæðum og æfintýrum“ – og minnir hvorutveggja á afstöðu hans sem barns til móður sinnar eins og Þorbjörg Guðmundsdóttir lýsir í frásögn sinni.
Sköpun goðsagnar
Hinn harmræni æviferill Jóhanns Jónssonar hefur að geyma flesta þá þætti sem gildastir eru í sköpun goðsagnar og í umfjöllun um hann hefur verið lögð áhersla á að hann var fátækt, berklaveikt skáld sem tók út mikinn þroska snemma með vofu dauðans sífellt á hælunum. Í lýsingum á Jóhanni eru gjarnan nefndir í sömu andrá skáldin Jónas Hallgrímsson og Sigurður Breiðfjörð.27 Ýmsir hafa skrifað um Jóhann og þar á meðal eru áhrifamestu menn í íslensku bókmenntalífi tuttugustu aldar, Halldór Laxness og Kristinn E. Andrésson. Mynd þeirra af Jóhanni er að því leyti samhljóða mynd Elínar og Þorbjargar að Jóhanni er lýst sem einstaklega heillandi manni sem hafi lifað og hrærst í skáldskap. Elín orðar það þannig að Jóhann hafi átt „fannhvítan fjaðurham“ en Halldór Laxness skrifar: „Hann var mikið skáld, vera hans og vitund öll af heimi skáldskaparins.“28 Halldór skrifar líka að Jóhann hafi verið í augum vina sinna „sjálfur skáldskapurinn holdi klæddur“ og að hann hafi haft „mjög fullkomið skáldlegt ímyndunarafl.“29 Ekki spillir fyrir að Jóhann er fríður sýnum með seiðmagnaða rödd og helti hans eykur enn á þokkann því þar er bein tenging við Byron, skáldið sem mest var dáð á þessum síðrómantísku tímum: „Þetta var sú öld þegar Byron var tignaður á póstkortum. Um Jóhann sögðu stúlkurnar: fagur einsog Byron, skáld einsog Byron, haltur einsog Byron; en berklar höfðu skilið báða eftir með staurfót.“30 Í Grikklandsárinu skrifar Halldór Laxness að „öll Reykjavík“ hafi tignað Jóhann sem „framsögumann rómantískra ljóða á vönduðum skemtunum í bænum. Hann var gersemi bæjarbúa með úfið hárið í svarta snotra smókíngnum sínum, en þó aðeins uppá fjölunum, þar sem hann flutti ljóð sem voru í algerum samhljóm við persónuleik hans.“31 Eins og bent hefur verið á eru frásagnir Halldórs Laxness um Jóhann Jónsson „blandnar ljóðrænni eftirsjá“32 og sama má segja um eftirmæli Kristins E. Andréssonar. Kristinn var vinur Jóhanns og lýsir honum þannig í minningarorðum sínum:
Hver var Jóhann Jónsson?
Hið ytra: Fátækur íslenzkur sjómannssonur er fór menntaveginn, varð stúdent, sigldi – og kom ekki heim aftur, orti nokkur kvæði í skóla, birti örfá ljóð og smágreinar í tímaritum, þýddi eina skáldsögu Gunnars Gunnarssonar á þýzku, dó á bezta aldri frá hálfsaminni ljóðabók, hálfsömdum sögum, próflaus, embættislaus, berklaveikur, umkomulaus suður í Leipzig á Þýzkalandi.
Hið innra: Þyrst sál sem þráði vöxt og fullkomnun, íslenzkt orð er þráði að lifa í minni þjóðar sinnar, lifandi ljóð er þráði vandaðasta og fegursta málbúning, leiftrandi skáldsál er þráði eilífð sína í verki, tignarandi sem heillaði alla er honum kynntust, auðugt líf sem blakti á skari dauðans – og slokknaði hálfbrunnið í gjósti kaldrar ævi.“33
Í eftirmælum vina Jóhanns má einnig greina djúpa sektarkennd vegna örlaga hans. Kristinn E. Andrésson skrifar: „En Jóhann Jónsson kemur aldrei aftur. Verkin sem hann dó frá eru okkur glötuð um alla eilífð. Þjóðfélagið og kunningjar hans bera sökina. Undan þeirri ásökum getum við hvergi flúið.“ Og lokaorðin skrifar Kristinn með áherslu: „og ég vil að það sé skýrt tekið fram við minningu Jóhanns Jónssonar, að við vissum að hann var ein bezta skáldsálin sem við höfum eignazt, að við vissum að líf hans var í hættu – og horfðum á hann tærast og deyja, sljóir, kaldir, tilfinningalausir, án þess að hafast nokkuð að til að bjarga honum.34 Í líkræðu sem annar vinur Jóhanns, tónskáldið Jón Leifs, hélt við útför hans birtist sama tilfinning; að Jóhann hafi verið svikinn: „Vor alda gamla neyð, líkamleg og andleg hungursneyð, teygir arma sína fram í nútímann og eyðir enn listrænum frjóöngum Íslands, lætur þá deyja, áður en þeir fá borið sína bestu ávexti.“ Og Jón Leifs biður Jóhann látinn tvisvar fyrirgefningar, fyrir sína hönd og ættjarðarinnar: „Ísland biður þig og þína buguðu samherja fyrirgefningar [...] vjer biðjum þig fyrirgefningar.“35 Kannski er það þessi blanda af eftirsjá og sektarkennd sem skýrir goðsagnasmíðina í kringum minningu Jóhanns Jónssonar.
„Í mínum augum var hann fyrst og fremst æfintýraskáld“
Eins og fram er komið var Jóhann Jónsson að miklu leyti höfundur óskrifaðra verka. Til eru margar frásagnir af verkum sem bjuggu í huga Jóhanns en komust aldrei á pappír. Um þetta fjallar Halldór Laxness og segir reyndar að Jóhann hafi verið „sneyddur rithöfundarhæfileikum“.36 List Jóhanns virðist framar öðru hafa verið fólgin í fágætum hæfileika til munnlegrar tjáningar, um það bera allir þeir sem þekktu hann vitni og virðist þessi hæfileiki vera móðurarfur Jóhanns, eins og áður er lýst. Halldór Laxness skrifar: „Frá öndverðu virtist honum í senn þekkast og tamast að segja hug sinn í formi sem er óskylt ritlist: form hans var hin fyrirvaralausa munnlega frásögn til orðin í geðblæ ákveðinnar stundar í ákveðnum félagsskap, eintal í vinahópi eða undir fjögur augu.“37
Margar slíkar stundir – „undir fjögur augu“ – átti Elín með Jóhanni í „undralandi hans“ og hún skrifar: „Í mínum augum var hann fyrst og fremst æfintýraskáld“. Það virðist hafa verið draumur þeirra beggja að Jóhann myndi hasla sér völl í íslenskum bókmenntum með ævintýrum sínum. Elín hvetur hann áfram og segir oft við hann: „Við Íslendingar höfum aldrei átt neitt æfintýraskáld, en þú átt að verða það, Angantýr!“ Þetta mun reyndar hafa verið takmark Jóhanns á æskuárum því sjálfur skrifar hann í bréfi til æskuvinar síns Friðriks A. Friðrikssonar, dagsett 17. janúar 1914, að hann „yrki ekki neitt“:
„Enda ætla ég nú að reyna að fara að halda áfram með ævintýrin mín og við þau ein. [...] Ísland hefir ekkert ævintýraskáld átt ennþá og þetta er því alveg ný stefna í bókmenntum vorum. Aðeins að mér takist að hafa þau sem frumlegust. Þú ert nú kunnugur mörgum þeirra. Mörg eru nýfædd.“38
En hann er óöruggur með gæði verka sinna og það virðist reyndar hafa fylgt honum alla ævi og nefna margir „fullkomnunaráráttu“ í því sambandi. Hann spyr Friðrik:
Nú spyr ég þig enn einu sinni, þrátt fyrir það þótt þú oft hafir látið álit þitt í ljósi á ævintýrum mínum, heldur þú ekki að mér sé óhætt að leggja á vaðið með þau? Heldur þú að þau séu ekki nógu frumleg? Heldur þú að þau líkist nokkuð um of Andersens ævintýrum? Reyndar hefi ég orðið fyrir mörgum góðum áhrifum frá honum. Athugaðu þetta nú vel. Nú er ég miklu nær takmarkinu en þegar við vorum heima að rabba um þessi efni. Nú er ég kominn á 18. árið! Styrktu mig, vinur, því ég er veikur!“39
Af þessu má ráða að Jóhann hafi átt í handritum eitthvað af ævintýrum þegar hann kynntist Elínu. Þau birtust hins vegar aldrei og einu ævintýri hans sem hafa komist á prent eru þau sem Elín birtir í síðari hluta Angantýs.40 Meðal gagna Jóhanns á handritadeild Landsbókasafnsins er ein smásaga í ævintýrastíl sem byggir á goðsögninni um Frey og Gerði Gymisdóttur41 en af æskuverkunum sem hann talar um í bréfinu til Friðriks virðist fátt vera varðveitt.42 Ævintýrin sem birt eru í Angantý, „Draumurinn“ og „Ástin og sorgin“, skrifar Jóhann meðan á sambandi hans og Elínar stendur og þau eru skrifuð sérstaklega handa henni, eins og fram kemur í bókinni. Löngun Jóhanns til að verða fyrsta íslenska ævintýraskáldið verður að skoðast í ljósi þeirra nýrómantísku tíma sem ríktu á Íslandi á fyrstu áratugum síðustu aldar og hvarf hann alveg frá þeirri fyrirætlun eftir að hann fluttist til Leipzig árið 1921. Þar kynntist hann allt öðrum menningarheimi og allt öðrum bókmenntastraumum enda tími nýrómantíkurinnar þá á enda í Evrópu og Þýskaland í sárum eftir fyrri heimstyrjöldina.43 En þessum þætti í skáldskap Jóhanns og þroskaferli hefur verið lítill gaumur gefinn og jafnvel má merkja að lítið er úr honum gert. Æfintýraskrif hafa gjarnan verið tengd við barnaskap og ekki tekin gild sem „alvöru“ skáldskapur.44 Þegar Halldór Laxness gaf út fyrra ljóðasafn Jóhanns Jónssonar, Kvæði og ritgerðir, skrifaði hann í formála:
Í þessari litlu bók eru safnaðir þeir einir hlutir sem Jóhann setti saman eftir að hann náði þroska; hlutverk ritsins er að sýna hann fullveðja listamann, en rekja eigi þroskasögu skáldsins alt frá veikum frumsmíðum bernskunnar. Prentun únglíngsverka hans mundi eigi samrýmast þeirri minníngu sem skylt er að geyma um svo nákvæmt og hámenntað skáld sem sá var er Söknuð orti, og þau smákvæði önnur sem eru að efni og formi undanfari Saknaðar og aðdragandi.45
Varla þarf að deila um þá skoðun Halldórs Laxness og annarra að kvæðið „Söknuður“ er listrænn hápunktur í skáldskap Jóhanns Jónssonar. En í orðum Halldórs má líka greina þá tilhneigingu til að gera Jóhann að „eins kvæðis manni“46 og til að stýra því hvernig staða Jóhanns innan íslenskrar bókmenntasögu er metin. Hinar „veiku frumsmíðar bernskunnar“ samræmast ekki þeirri mynd sem haldið hefur verið á lofti af hinu „hámenntaða“ skáldi sem tjáði svo vel tilvistarangist nútímamannsins í tímamótakvæði sínu „Söknuði“. Vera kann að birting Elínar á „veikum frumsmíðum“ Jóhanns hafi verið meðal þess sem hinn hámenntaði bókmenntafræðingur Kristinn E. Andrésson reiddist svo að hann sá sig tilneyddan til að hnupla bókinni úr heimilisbókasafni vina sinna.47 Og kannski hefur rómantísk frásögn hennar á ástum þeirra Jóhanns ekki heldur samrýmst „þeirri minningu sem skylt er að geyma“ um skáldið að mati vina hans.
Halldór Laxness leggur alla áherslu á ljóðagerð Jóhanns en Eysteinn Þorvaldsson segir að metnaður hans – eftir að hann fór til Þýskalands – hafi fyrst og fremst staðið til þess að „semja skáldsögur. Til þess stóð hugur hans og listamannsmetnaður allt frá öndverðum æskuárum“.48 Eysteinn nefnir ekki að þær sögur sem Jóhann hafði metnað til að skrifa á æskuárum hafi fyrst og fremst verið af toga ævintýraskáldskaps. Fyrir þá sem unna skáldskap Jóhanns Jónssonar hlýtur að vera áhugavert að þekkja alla þroskasögu skáldsins og bók Elínar hefur að geyma mikilvægar upplýsingar um þá sögu. Það er Elín sem kynnir Jóhann fyrir kvæði Valdimars Ásmundarsonar „Glúmur og Geirlaug“ sem „kveðið var í stíl miðaldaþjóðkvæða“.49 Þegar Jóhann skrifar kvæðið upp fyrir Elínu hrífst hann svo af þjóðsagnablænum að sama kvöld yrkir hann þetta þekkta ljóð sitt:
Máninn líður.Dauðinn ríður.Skuggar gráir hljótt yfir hjarnið sveima.Gaman er um gæfu horfna að dreyma.Máninn líður.50
Jóhann átti eftir að yrkja mörg fleiri kvæði með „þjóðasagnablæ“ enda sækir hann þar í sömu uppsprettur og þegar hann skrifar ævintýri. Sem skáld þróast Jóhann því frá því að vera sannur fulltrúi þess nýrómantíska tíðaranda sem ríkti meðal ungra skáldhneigðra Íslendinga á fyrstu áratugum síðustu aldar yfir í að verða meðal fyrstu skálda sem orti „moderne Lyrik á íslenzku“, svo vitnað sé í orð hans sjálfs.51
Ástin, sorgin og sársaukinn
Frásögn Elínar Thorarensen bætir ekki aðeins dráttum í þroskasögu skáldsins Jóhanns Jónssonar, heldur bætir hún einnig við myndina af manninum. Í gegnum frásögn hennar sjáum við hann ástfanginn, hamingjusaman, örvæntingarfullan og breyskan. Framar öðru dregur frásögn Elínar þó fram mynd hins rómatískt þenkjandi sveimhuga sem samræmist fyllilega þeirri sjálfsmynd sem lesa má út úr sendibréfum Jóhanns til æskuvinar síns Friðriks A. Friðrikssonar.52 Bók Elínar gerir hvorutveggja að staðfesta ýmsa þætti í hinni goðkynjuðu mynd af Jóhanni og bæta við nýjum víddum án þess að nokkrum skugga sé varpað á minningu Jóhanns né hennar sjálfrar, eins og þeir virtust telja sem vildu þagga niður orðræðu bókarinnar.
Kvæðaerindin tvö eftir Matthías Jochumsson53 sem Elín velur sem einkunnarorð frásagnar sinnar eru auðsjáanlega valin af mikilli kostgæfni. Þau fanga fullkomlega inntakið í því sem á eftir fylgir; fyrra erindið fjallar um undravald minnisins sem vermir og nærir „vora dýpstu helgidóma“ en það síðara fjallar um sársaukann sem fylgir minningunum en gefur þó engu að síður „gróða mestan tregans barni.“ Greinilegt er að samband Elínar við Jóhann er dýpsti helgidómur lífs hennar, minningarnar um hann verma hana enn og næra þótt þrír áratugir séu liðnir frá aðskilnaði þeirra. En minningarnar geyma einnig djúpan sársauka: „Það er sagt, að tíminn lækni öll sár, en mér finnst, að því lengra sem líður, verði sárið dýpra,“ skrifar hún, og þótt hún hafi reynt að kæfa sorgina með því að sökkva sér í vinnu sprettur hún fersk fram að nýju þegar hún les grein Halldórs Laxness „Af Jóhanni Jónssyni“. Sorgin er sem ívaf í frásögn Elínar og víða víkur hún að þeim erfiðleikum sem sambandið olli þeim báðum og samúð hennar er ætíð með Jóhanni: „Hann þoldi margar skapraunir mín vegna, og nú er mér það fyllilega ljóst, hvað honum hefir þótt vænt um mig, að hann skyldi ekki hrökklast í burtu. Þegar einhver ósköpin gengu á, þá sat ég stundum grátandi heima hjá honum, en hann var allt af þolinmóður og elskulegur við mig og hætti ekki fyrr en hann var búinn að hughreysta mig“ (21). Og: „Eins og ég hefi áður sagt, varð Angantýr fyrir mörgum leiðindum mín vegna. Mér sárnaði það mikið, en gat ekki gert að því“ (33). En þrátt fyrir þá erfiðleika sem sambandið olli þeim skrifar Elín líka: „enginn dagur var okkur nógu langur, - einn dagur sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur“ (19).
Þó að frásögn Elínar sé ekki löng fær lesandinn góða mynd af sambandi þeirra Jóhanns. Elín leggur áherslu á að þau hafi átt „sálufélag saman“ og sagt „hvort öðru allt“ (27). Bæði eru heilluð af heimi skáldskapar og njóta ljóðlistar eins og ungir Íslendingar kunnu að njóta ljóðlistar á fyrstu áratugum síðustu aldar. Þau lesa ljóð, segja hvort öðru sögur, syngja og spila; Jóhann syngur og Elín spilar undir á orgel. Þau fara saman í leikhús og á tónleika. Þau fara í siglingu út í Viðey og í gönguferðir um Reykjavík, stundum í félagsskap bræðranna Gústafs og Einars Ólafs Sveinssona. Elín og Jóhann virðast alls ekki hafa reynt að leyna sambandi sínu þrátt fyrir mótbyr. En að sjálfsögðu er ekki jafnræði með þeim á öllum sviðum. Elín þarf að sinna vinnu sinni, heimili og barni en tími skólapiltsins Jóhanns er frjálsari og var hann „oft sár yfir því, hvað [hún] átti lítinn tíma handa honum“. Stundum situr hann þó hjá Elínu meðan hún vinnur; hann þráir samvistir við hana engu síður en hún við hann.
Angantýr hefur líka að geyma aðra sögu af öðrum elskendum sem ekki var skapað nema að skilja. Elín segir ástarsögu föðursystur sinnar Ingunnar Blöndal og Gests Pálssonar skálds en Elín leigði hjá Ingunni um tíma og hjúkraði henni á dánarbeði. Ingunn sem var „gáfuð kona og frjálslynd“ hafði samúð með Elínu og lét hana „ekki gjalda þess, að Angantýr var hjá“ henni (37). Sagan sem Elín segir af því hvernig Ingunn lét glepjast af rógi um Gest og sleit trúlofun þeirra í kjölfarið er dæmisaga um það hvernig slúður og rógur getur eyðilagt líf fólks.54 Elín segir þessa sögu til að draga upp hliðstæðu við sína eigin ástarsögu og í frásögn hennar má einnig merkja þrá hennar eftir sameiningu við ástvininn eftir dauðann. Elín trúir því að Gestur hafi komið og sótt Ingunni þegar hún lést, eins og hann hafði lofað henni forðum. Frásögn Elínar af andláti Ingunnar kallast því á við lokin á ævintýrinu „Ástin og sorgin“ sem Jóhann skrifaði handa Elínu og gaf henni í afmælisgjöf þann 16. september 1916:
En ströndin, sem öldur dauðans bera okkur að, - veiztu, hvernig hún er, og hvernig þar er að búa. Þar eru bleikir skógar, og blátt ágústhúmið vefur sig um landið og hlúir að draumum jarðarinnar. Hafið niðar þar í logninu við dökkar strendur. Og út yfir hafið – bera skipin síðustu vini þína burtu í fjarlægð, og ég er einn eftir hjá þér, og þá mætast varir okkar aftur í hinum fyrsta kossi – á landinu þar sem draumarnir verða að veruleik og augnablikin að eilífð. Þannig er lífið og dauðinn, - ástin og sorgin, ástin mín!
Þinn Angantýr.
Lesið í bréf og á milli lína.
Sú spurning leitar á lesanda Angantýs í hverju hinir miklu erfiðleikar sem Elín nefnir aftur og aftur fólust helst. Voru það eingöngu fordómar vegna aldursmunar þeirra Jóhanns og ólíkrar þjóðfélagsstöðu sem ollu þeim andstreymi? Eða átti sársaukinn sem kemur svo glögglega í ljós í frásögn Elínar sér einhverjar dýpri rætur? Hún gefur engar beinar skýringar á erfiðleikunum eða á því hvers vegna þau ákveða að skilja haustið 1916. Hún skrifar aðeins: „Margir dagar voru okkur erfiðir, og í september um haustið vorum við búin að ákveða að fara bæði burt úr bænum, en ekki saman; það gátum við ekki, þó að við vildum það fegin“ (43).
Í bókinni Undarlegt er líf mitt, sem hefur að geyma bréf sem Jóhann Jónsson skrifaði æskuvini sínum Friðriki Friðrikssyni á árunum 1912-1925, eru engin bréf frá árinu 1915 né heldur frá fyrri hluta ársins 1916. Þar eru því engin tíðindi af sambandi hans við Elínu á þeim tíma sem það stóð yfir. En í tveimur bréfum frá síðari hluta ársins 1916 talar hann um Elínu og söknuður hans og eftirsjá leynir sér ekki. Í bréfi dagsettu 25. ágúst 1916 skrifar Jóhann um ferðalag sem hann fór með vini sínum Helga Þorkelssyni, og hundi þeirra Argusi, um sveitir Árnessýslu í ágústmánuði.55 Frá sömu ferð segir Elín í Angantý: „Ég man vel, að þegar þeir komu úr ferðalaginu, komu þeir fyrst heim til mín, og Argus, litli svarti hundurinn þeirra, stökk upp á brjóst á mér með miklum gleðilátum; hann var vanur að vera með okkur Angantý, þegar við vorum úti“ (42). Elín lýsir fallega síðustu samvistum þeirra Jóhanns í lok ágúst og fyrri hluta september en seint í þeim mánuði fer Jóhann til Akureyrar til að setjast í gagnfræðiskóla þar. Nokkrum dögum síðar siglir Elín til Kaupmannahafnar. Hún skrifar: „Það var altalað hér í bænum, að við værum ósátt; það var alveg auðvitað, að svo hlaut að vera, fyrst við fórum hvort í sína áttina. En við vorum aldrei ósátt, heldur skildum vegna fátæktar og erfiðleika“ (44). Af bréfi sem Jóhann skrifar Friðriki þann 21. desember 1916 er ljóst að skilnaður þeirra Elínar hefur verið honum þungbær ekki síður en henni. Í upphafi bréfsins segir hann frá því að pósturinn að sunnan sé nýkominn:
Og ég er innilega óánægður út af því sem hann færði mér. Að vísu fékk ég bréf frá Gústavi og Einari og það þótti mér auðvitað vænt um. Ég fékk einnig bréfsnepil frá Línu og mynd af henni. [...] en það sem hryggði mig mest er þó það að pósturinn færði mér ekkert bréf frá Kaupmannahöfn. Það hefi ég þó þráð heitast alls þessa síðustu og verstu daga. En það var þó heimska að vænta þess. Hún hefir nú skrifað mér fjögur bréf en ég henni tvö, auðvitað löng og góð og elskuleg bréf. [...].
Æi, elsku vinur minn, þessi vetur, það sem enn er liðið af honum, hefir verið mér þungbær að mörgu leyti.
Nervösitet og djöfulskapur allur hefur á mig riðið.“56
Jóhann segir „nervösitet“ sitt og „taugaslappleik“ ekki læknast „fyrr en þetta blessaða líf er búið að kæla í manni mesta ofsann og manni fer að standa svona nokkurn veginn á sama á hverju veltur“.57 Um Elínu skrifar hann síðan nokkuð langt og tilfinningaþrungið mál í bréfi dagsettu 21. desember 1916:
Þið Elín voruð samferða á „Íslandinu“ til Seyðisfjarðar. Blessaður skrifaðu mér eitthvað frá þeirri ferð. Hún hefur skrifað mér um þig, Friðrik. Það gladdi mig sem hún sagði um þig. Segðu mér eitthvað frá umræðuefni ykkar og samveru. Friðrik, hún er eina konan sem ég finn að er þess verð að hún sé dáð. Hún er eina konan sem alltaf vex eftir því sem maður kynnist henni betur. Hin eina af þeim öllum er ég hefi þekkt. Og ég veit að hún heldur áfram að heilla mig að sálarfegurð sinni þangað til öllu er lokið. Það eru kvalirnar sem hafa brugðið þessari birtu yfir hjarta hennar, það er fórnfýsin við aðra menn sem hefir þvegið af henni hvern blett sem kynni að hafa verið á henni. - Það er hún sem þurrkar út allar hennar yfirsjónir og gjörir hana hreina og aðdáunarverða. Hún er sú, sem hefir fengið lífi mínu hlutverk að vinna. Ég vildi að þú ættir eftir að finna einhverja þá konusál fyrir þér, sem yrði þér það sama og hún er mér, þá værir þú fæddur til mikillar hamingju.58
Sjálf skrifar Elín:
Þegar ég var komin til Danmerkur, skrifaði Angantýr mér yndisleg bréf. Ég vissi það vel, að hann vildi allt fyrir mig gera, en ég vissi líka, að hann gat ekki risið undir öllum þeim erfiðleikum, sem ég átti við að stríða, og ég vildi ekki draga hann niður. Ég bjóst við, að hann ætti glæsilega framtíð. Ég skrifaði honum og leysti hann frá öllum heitum. Við sáumst aldrei framar (44).
Sú saga er kunn meðal ættingja Elínar og Jóhanns að Elín hafi orðið barnshafandi af völdum Jóhanns og alið barn þeirra í Kaupmannahöfn og skilið það eftir þar í forsjá góðra vina þegar hún hélt heim aftur að sex árum liðnum. Hér verður ekki farið nánar í þá sögu þar sem ekki liggja enn fyrir traustar heimildir hvað málið varðar. En ef þetta reynist rétt vera er auðveldara að skilja þær sterku tilfinningar sem aðskilnaðurinn veldur þeim báðum, sem og orð Elínar um að hún hafi ekki viljað „draga hann niður“ og þar með hefta þá glæsilegu framtíð sem hún vænti að biði Jóhanns. Þrjátíu árum eftir aðskilnaðinn skrifar hún í Anganý: „Ég hélt, að ég væri að gera rétt, en guð veit, hvað rétt er. Hitt veit ég, að ég hefi aldrei öðlazt hugarró, þessa miklu blessun, sem margir tala um, en víst fáir eiga“ (52) og þegar hún hugsar um ævi Jóhanns finnst henni óvíst að hann hafi verið sælli en hún. En Elín sér ekki eftir að hafa elskað Jóhann: „Ég hef etið mat minn grátandi, líka vakað hálfar og heilar nætur, en ég hefi aldrei iðrast þess að elska mann, sem var í fyllsta samræmi við mitt innsta eðli“ (49).
Af bréfum Jóhanns til Friðriks má sjá að á þessum tíma skrifast hann einnig á við Nikólínu Árnadóttur, sem síðar varð eiginkona hans og fylgdi honum til Þýskalands árið 1921. Hann ber hag hennar greinilega fyrir brjósti og hefur áhyggjur af veikindum hennar. Ekki er þó að sjá að á milli þeirra sé annað en vinátta á þessum tíma. Þá má geta þess að heimildir eru fyrir því að Jóhann hafi á Akureyri kynnst annarri konu sem hann bast ástarböndum. Það var Aðalbjörg Sigurðardóttir sem kölluð hefur verið „móðir guðspekihreyfingarinnar á Íslandi“.59 Í bréfi dagsettu 6. apríl 1917 skrifar Jóhann til Friðriks: „Hér á Akureyri hefi ég kynnst óumræðilega góðu fólki sem ber mig á höndum sér“60 og á þar að öllum líkindum við Aðalbjörgu og móður hennar og fleira fólk tengt guðspekihreyfingunni. Pétur Pétursson guðfræðingur, sem hefur skrifað um Arnheiði, heldur því fram að samband þeirra hafi „hindrað hið óbeislaða tilfinningalíf [Jóhanns] í að snúast upp í algjöra sjálfseyðingu“.61 Pétur telur að sambandið hafi einungis verið andlegt ástarsamband en Jóhann hafi engu að síður verið „rómantíska ástin í lífi“ Aðalbjargar.62 Líklega hefur hinn andlegi stuðningur Aðalbjargar hjálpað Jóhanni við að takast á við aðskilnaðinn við Elínu, hann skrifar: „Ekkert tímabil í lífi mínu hefir mótað anda minn svo sem þessi vetur. Og ég er nú guði mínum þakklátur fyrir óhapp mitt síðasta vor þrátt fyrir alla steinana!“63 Af ýmsum bréfum Jóhanns frá þessum tíma er ljóst að hann hefur hrifist af hugmyndum guðspekinga og í áðurnefndu bréfi til Friðriks skrifar hann: „Ég er nú farinn að finna það ljósar en áður, að trúmálin eru mín mál og þeim vil ég vinna verði ég einhvern tíma liðtækur maður. Ég held að ég yrði prestur ef að ég fyndi að ég gæti gefið mig allan við því. En ég vil predika mína Religion í skáldskap og fagurfræði.“ En hann viðurkennir líka: „En þó er ég ennþá hið sama breiskleikans barn, syndugur og grimmur öðru hvoru, en nú er ég samt ekki lengur hinn sami og ég eitt sinn var.64
„hún átti sér persónuleika, sem mátti sín mikils“
Elín sneri heim aftur til Íslands frá Kaupmannahöfn árið 1922 og „tók til að elda mat eins og áður“ (44). Þá var Jóhann farinn til Þýskalands og átti hann aldrei afturkvæmt til Íslands. Jakobína dóttir Elínar flutti til hennar árið 1928, þá 23ja ára gömul, og móðir Elínar, Herdís Andrésdóttir, flutti til þeirra ári síðar. Elín hugsaði um móður sína þar til hún lést 21. apríl 1939. Sigurður Nordal segir í minningargrein um Herdísi að hún hafi notið „frábærrar umönnunar á heimili dóttur sinnar“ og að þann áratug sem hún bjó hjá Elínu hafi hún átt „nægar tómstundir, sem hún kunni vel að verja sjer og öðrum til gleði og skemtunar.“65 Einn af þeim gestum sem sóttu Herdísi og Elínu heim til að njóta hins skemmtilega félagsskapar þeirra var Þórbergur Þórðarson. Um það má lesa í kaflanum „Styrjöldin við Herdísi og Ólínu“ í Eddu Þórbergs Þórðarsonar. Margir þekkja kvæði Þórbergs sem sungið er við lag Atla Heimis Sveinssonar og gengur undir nafninu „Í Skólavörðuholtið hátt“. Færri vita að hér er aðeins um fjögur erindi úr fjórtán erinda kvæðabálki að ræða. Kvæðið heitir „Afmælisdigtur“ og er ortur til Elínar Thorarensen á sextugsafmæli hennar árið 1941. Þar er meðal annars að finna þessi erindi:
Þar var Herdís. Þar var smúkt.Þar skein sól í heiði.Þar var ekki á hækjum húktné hitt gert undir leiði.Þessir dagar þutu á burt,þó er allt ei búið.Dóttir hennar með dáð og kurtdrepur í mér púið.Elín heitir sú eðla kván.Ýtum selur malinn.Í sextíu ár með sæmd og lánsú hefur öslað dalinn.Margt er henni til lista lagt,langminnug á sögur.Einnig heyri ég um hana sagt,að hún geri bögur.
Elín Thorarensen lifði til ársins 1956. Í minningargrein Sigríðar Þórarinsdóttur, sem áður er til vísað, er að finna þennan vitnisburð: „Elín ávann sér mikið traust í viðkynningu og bar margt til þess. Hún var álitleg kona um ytra útlit, djarfleg og örugg í fasi og leyndi sér eigi, þrátt fyrir látleysi og fremur smáan vöxt, að hún átti sér persónuleika, sem mátti sín mikils. Aldrei var hún hálf í orðum né athöfnum.“66 Lesendur Angantýs geta vafalaust flestir tekið undir þessi orð því ef það er eitthvað sem stendur upp úr í frásögn Elínar eru það heilindi hennar og tryggð við minningu ástvinar síns. Þótt „Brynhildur“ og „Angantýr“ fengju „hvorki að lifa og deyja saman,“ lifir saga þeirra áfram í litlu bókinni hennar Elínar Thorarensen sem ekki tókst að þegja í hel.
Heimildir