SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir26. nóvember 2023

DRÓTTKVÆÐASKÁLDKONAN KETILRÍÐUR

Á dögunum kom út sýnisbók Dróttkvæða eftir Gunnar Skarphéðinsson. Bókin sú geymir kveðskap ríflega 50 skálda og þar af eru þrjár nafngreindar konur. Aðeins ein þessara kvenna var raunveruleg persóna en hinar tvær eru sagðar sögupersónur.

 

Um dróttkvæði

Það er trúlega vert að fara fáeinum orðum um dróttkvæði en orðið drótt merkir hirð og er nafn kveðskapargreinarinnar af því dregið. Bragarhátturinn geymir gjarnan flóknar kenningar, er með innrími og strangri stuðlasetningu. Dróttkvæðin koma fram á 10. öld og voru skáldin jafnan í hávegum höfð við hirðir konunga því þau voru vís með að yrkja ódrauðleg lofkvæði um konunginn. Oftar en ekki voru skáldin Íslendingar sem þágu laun fyrir kvæði sín. Dróttkvæði eru þó ekki öll um konungalof heldur eru þau einnig af fjölbreyttara efni og í raun um flest svið mannlegs lífs. 

 

Þrjár skáldkonur

Líkt og fyrr segir eru skáldkonurnar í bókinni þrjár. Sú sem til var í raun er Steinunn Refsdóttir sem finna má í Skáldatalinu okkar ásamt kvæði hennar „Braut fyrir bjöllu gæti." Önnur sögupersónan er Helga Bárðardóttir en frá henni segir í Bárðar sögu Snæfellsás. Kvæðið sem haft er eftir henni er „Sæl væi eg" og hefur Helga Kress gert því góð skil, líkt og lesa má hér á vefnum okkar. Hin sögupersónan er Ketilríður Hólmkelsdóttir og hefur minna farið fyrir henni. Það er því vert að staldra aðeins við hana.

 

Ketilríður Hólmkelsdóttir

Ketilríður Hólmkelsdóttir er ein af sögupersónum Víglundar sögu og á hún að hafa verið uppi á 10. öld. Víglundar saga er talin vera meðal yngstu Íslendingasagna, skrifuð á 14. eða 15. öld. Sagan segir af Víglundi sem er skáld og ástum hans og Ketilríðar. Nýleg útgáfa Íslendingasögunnar er kynnt svo:

Verkið fjallar um ástir, líf og áskoranir þeirra Víglundar og Ketilríðar. Þau kynnast þegar Ketilríður er send í fóstur til foreldra Víglundar ung að aldri. Gerist það svo að Víglundur heldur til Noregs og Ketilríður er lofuð bónda nokkrum austur á fjörðum þegar hann kemur heim. Rekur Víglund einmitt á land fyrir austan, sökum vinda og þykist hann þar kannast við konu bóndans. Sagan tekur óvænta stefnu fyrir lesandann og ýmislegt óvænt kemur í ljós.

 

Vísan sem er birt í sýnisbókinni þykir líkleg að hafa orðið til þegar Ketilríður telur að Víglundur, og tveir aðrir menn, hafi orðið úti í gerningaveðri, sem galdakerlingin Kjölvör olli. Sagan segir svo frá að Ketilríður hafi fallið í ómegin við fréttirnar og þegar hún rankaði við sér hafi hún litið til sjávarins og ort þessa harmrænu vísu:

Eigi má eg á ægi
ógrátandi líta,
síð er málvinir mínir
fyr marbakkann sukku.
Leiðr er mér sjóvar sorti
og súgandi bára.
Heldr gerði mér harðan
harm í unna farmi.

 

Skýringar við vísuna:

síð er: síðan er
marbakki: sjávarbakki
farmr unna: fengur bylgna, það sem öldurnar (nú) geyma, lík mannanna

-

Dróttkvæði Ketilríðar er hið laglegasta og allrar athygli vert. Í sýnisbókinni er Ketilríðuir sögð eiga tvær vísur í Víglundar sögu en þær eru sagðar fleiri í gagnagrunni vefsins Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages sem kynna má sér hér.